05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4691 í B-deild Alþingistíðinda. (4524)

30. mál, lyfjadreifing

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki krefja hæstv. ráðh. heilbrigðis- og tryggingamála svars við málaleitan minni á þessu stigi málsins og bið hann að íhuga það sem ég fór fram á eftir þessa umr.

Ég vildi láta það koma fram að það er auðvitað skylda ráðh. og verksvið hans að fylgja eftir sínum frv. hér á Alþingi og það er ekki hægt að gagnrýna hæstv. ráðh. fyrir að hafa lagt þetta frv. of seint fram á yfirstandandi þingi, þar sem það kom fram í októbermánuði, þegar í byrjun þings, en hins vegar er auðvitað um einhverja brotalöm að ræða hjá hæstv. ráðh. eða stjórnarliðinu í þinginu þegar þetta frv. er ekki afgreitt úr nefnd í fyrri deild fyrr en fyrir viku, og það ber að harma. Þetta er ekki eina dæmið og þetta er vitnisburður um og skýring á hvers vegna þingstörfin lenda í því öngþveiti sem raun ber vitni við lok þessa þings. Það ætti auðvitað að vera vandalaust að vinna að rannsóknum mála sem þessara fyrr á þinginu og bera umsagnir saman og komast að niðurstöðu þannig að seinni deild hafi rýmri tíma til umráða til að fjalla um málið. Það er auðvitað alveg tilgangslaust að halda í deildaskiptingu Alþingis ef svo háttar að seinni deildin eigi að taka við frv. frá fyrri deild án þess að leggja sjálfstætt mat á frv., þótt það sé hins vegar alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að meðferð fyrri deildar og samráð innan þingflokka getur flýtt afgreiðslu máls í seinni deild. En ein vika, síðasta vika þings, þegar svo stendur á sem öllum þm. er kunnugt varðandi gang mála og afgreiðslur nú þessa daga, er auðvitað algerlega ófullnægjandi.