05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4691 í B-deild Alþingistíðinda. (4525)

30. mál, lyfjadreifing

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Fyrir utan mjög málefnalegar aths. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar um lyfjaneyslu eftir stjórnmálaflokkum, sem ég hef ekki heyrt neinar kenningar um áður og hann er kannske með niðurstöður af rannsóknum sínum frá því að hann var í heilbr.- og trmrh. í þeim efnum, — ég hef aldrei heyrt um það getið fyrr að kannað hafi verið sérstaklega þetta mál, en það er nokkuð fróðlegt, — þá hefur verið rætt hér um málið eins og við er að búast. Ég verð að segja það, að ég get ekki fallist á að hér hafi ekki allir pólitískir aðilar verið kallaðir til. Hér hafa komið aðilar úr öllum stjórnmálaflokkunum. Og það er ekki heldur þannig að hér hafi ríkisstj. núv., eða fyrrv. kannske öllu heldur, verið að hafna hinum faglegu aðilum. Þeir hafa komið hér líka að: Apótekarafélagið, Lyfjafræðingafélagið og fleiri og fleiri. Félag stórkaupmanna hefur meira að segja verið kallað á vettvang og lyfjadeild Háskóla Íslands. Hérna hafa því hinir faglegu aðilar verið með í ráðum í frágangi þessa máls.

Varðandi sérstaklega 58. gr., sem var eina efnisatriðið sem hv. þm. Matthías Bjarnason spurði út í, — hann spurði hvort það væri samkomulag milli okkar hæstv. landbrh. um þá grein, — þá er því til að svara, að það var talsverður ágreiningur á milli okkar um efnisinnihald þeirrar greinar lengi framan af og við settum þriggja manna nefnd úr stjórnarflokkunum á sínum tíma til að greiða úr slíkum ágreiningsmálum þannig að unnt yrði að flytja málið af núv. ríkisstj. á þingi. Svo fór að það varð samkomulag á milli okkar landbrh. um málið. Það er samkomulag um þennan texta af okkar hálfu. Þess vegna er fullt samkomulag um frv. í stjórnarliðinu, eins og það var upphaflega flutt að öðru leyti en því, að menn áskildu sér allan rétt til að flytja eða fylgja brtt. varðandi ákvæði 3 til bráðabirgða í frv. Það var eini almenni fyrirvarinn sem uppi var.

Svo erum við gagnrýndir fyrir að málið tekur langan tíma í meðferð hv. Ed. Af hverju skyldi það hafa verið? Jú, menn reyndu að fara yfir ýmsar umsagnir eða aths., eins og gengur, eins vandlega og kostur er á, en menn lögðu sig líka fram um það í hv. heilbr.- og trn. Nd. að ná heildarsamkomulagi innan nefndarinnar. Það var hvað eftir annað reynt að koma til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar í þessu máli, og þess vegna var beðið með niðurstöður í hv. nefnd eftir niðurstöðum í þingflokkum stjórnarandstöðunnar, a. m. k. í þingflokki Sjálfstfl., að okkur var tjáð. Þess vegna kemur okkur á óvart sú málaleitan sem hér er nú uppi. Það er ekki vegna þess að menn vilji sýna valdsmannslegan hroka eða að þeir ráði bæði álagsvinnunni og yfir bílunum og eigi hvort tveggja. Það er ekki þess vegna, heldur er það einfaldlega vegna þess að menn hafa staðið í þeirri góðu trú, að málið væri unnið ekki aðeins faglega, heldur einnig innan stjórnmálaflokka, bæði utan þingsins og innan þingsins líka. Þetta er meginástæðan fyrir því, að hér hefur málið verið flutt með þeim hætti sem það hefur verið flutt hér af mér og öðrum talsmönnum ríkisstj.