05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4694 í B-deild Alþingistíðinda. (4530)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá þeim, sem hafa hlustað á ræður manna hér á Alþingi á undanförnum dögum, að einstakir ráðherrar hafa vel kunnað að meta þann samstarfsvilja sem stjórnarandstaðan hefur haft um þinghaldið síðustu daga. Ég minnist þess t. d. í nótt, að hæstv. iðnrh. hafði um það mörg orð, hversu vel alþm. hefðu gengið fram í því að afgreiða frv. um kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð. Sá hinn sami ráðh. hafði skömmu áður farið jafnvel enn fegurri orðum um hvað alþm. hefðu sýnt mikinn samstarfsvilja og lagt mikið á sig til þess að ná samstöðu um orkumálin.

Þannig er hægt að rekja fleiri mál, sem öll hníga að því, að það er síður en svo að stjórnarandstaðan hafi ekki lagt sig fram um að löggjafarstarfið mætti fara vel úr hendi og verða þessari stofnun til sóma. Einmitt með hliðsjón af þessu veldur það miklum vonbrigðum ef nú undir lok þinghaldsins á að bregða svo við að ríkisstj. gangi fram með — ég vil segja: ótrúlegri óbilgirni og ætlist til þess, að þm. sitji hér kvöld eftir kvöld og fram á nótt í skjóli þess að ráðh. geti sjálfir farið heim að sofa, látið yfirþingvörð ná í töskur sínar þegar þeir hverfa úr húsinu og þurfi ekki að sitja undir umr. Þetta er náttúrlega atgerlega óþolandi. Ég vil þess vegna taka undir þau orð, sem bæði hv. 1. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Norðurl. e. sögðu áðan, og mælast til þess við forseta deildarinnar að hann endurskoði þann úrskurð sinn að kvöldfundur skuli vera í kvöld.

Ég vil um leið taka fram að það er ekki forseta við að sakast þar sem hann er fulltrúi stjórnarandstöðunnar og hlýtur sem slíkur kannske að taka meira tillit til sjónarmiða meiri hl. Alþingis en sá forseti mundi gera sem væri úr þeim hópi, enda er það á orði haft af öllum, sem í þessari deild sitja, að forseti deildarinnar hafi rækt störf sín bæði með lagni og lipurð, röggsemi og festu. Við höfum ekki undan því að kvarta, að hann hafi látið okkur sitja hér á löngum kvöldfundum. Það er aðeins nú undir lokin sem að því kemur, og þá veit ég það, þó hann hafi ekki sagt mér það, að hann gengur nauðugur til þess verks.

Ég held að við getum öll sagt það, sem vön erum störfum þingsins, að það hefur aldrei orðið til þess að greiða fyrir málum ef ríkisstj. ætlar að halda svo fram ferðinni að ofbjóði einstökum þm. Ég tala nú ekki um ef um það er að ræða að ofbjóða allri stjórnarandstöðunni. Sú hefur ekki orðið reynslan, hvorki þessarar ríkisstjórnar né annarra þeirra ríkisstjórna sem á undan hafa setið, og þá er ég bæði að tala um þær ríkisstjórnir, sem kenna sig til vinstri, eins og sú sem nú er, og svo þær ríkisstjórnir, sem vel eru skipaðar.

Nú sé ég að hæstv. forsrh. gengur í salinn, og vegna þess að fyrr meir þekkti ég hann að því að vera sanngjarnan mann og góðviljaðan og þekkti hann að því að vilja hliðra til fyrir Sjálfstfl. og þm. hans, þá þykist ég vita með vissu að hann muni beita sér fyrir því, að þinghaldið verði með skaplegri hætti og að ekki komi til þess, að kvöldfundur verði í Nd. nú í kvöld.