05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4700 í B-deild Alþingistíðinda. (4535)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Vegna þessara umr. vil ég taka fram að ég skil það út af fyrir sig vel, að hv. þdm. mótmæti kvöldfundum og næturfundum, að ég ekki tali um þrjú kvöld í röð. Hv. 1. þm. Reykv. vitnaði í Lúðvík Jósepsson. Ég minnist þess, að hann hélt þessu harkalega fram og fékk, að ég hygg, oftast vilja sínum framgengt. Út af fyrir sig kann ég því vel að fá leyfi til þess að taka mark á Lúðvík eftir að hann er hættur á þingi. Það vildi Alþb. aldrei leyfa mér meðan hann var á þingi.

Hv. 1. þm. Vestf. spyr að því beint, hvort ég vilji ekki taka tillit til óska þm. Þá komum við að spurningunni um meiri hl. Að vísu kannast ég við að það hafi verið ofurlítil bilun á því að fara að vilja meiri hl. hjá Sjálfstfl., en ég vissi ekki að hv. þm. væri í þeim biskupssveinahópi. Þegar komið er að þessu, þá spyr ég um meiri hl. sem ég er afar veikur fyrir að fara eftir.

Hv. 3. þm. Vestf. varaði mig við að brjóta venjur. Þetta er 104. löggjafarþing. Hv. t. þm. Reykv. minntist á að í gærkvöld hefði fyrsti kvöldfundur verið haldinn á þessu ári í hv. Nd. Það er rétt. Þess vegna hefur forseti þessarar deildar allra síst níðst á hv. þdm. og hann er mjög eindregið þeirrar skoðunar, að kvöld- og næturfundir séu ógóð vinnubrögð. Það er reynsla af þeim, að þá er ekki tími til grandgæfilegra og góðra starfa að löggjafarsetningu. En miðað við þetta og svo miðað við að það, sem ég veit helst um þinglausnir, er enn að þær verði kl. 2 á morgun, þó að mér sé stórlega til efs að okkur nægi kvöld- og næturfundir núna til þess að því marki verði náð. Þó að ég hefði fyrir framan mig að þinglausnir yrðu ekki fyrr en kl. 2 á föstudegi, þá er fullkomin þörf á kvöldfundi nú.

Ég minni á að ég vil gegna og líta til þeirra skyldu sérstaklega, að menn fái að ræða áhugamál sín. Ég nefni málefni fatlaðra. Mér er kunnugt um þrjá þm. a. m. k. sem eindregið óska eftir að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um þetta mikla mál, án þess þó að ætlunin sé að afgreiða það til fulls. Ég minni á lyfjadreifingu, ég minni á sykurverksmiðju, sem menn vilja fá að ræða sérstaklega, — hæstv. ríkisstj. leggur höfuðáherslu á afgreiðslu þessara mála, — og Hæstarétt, sem er til 2. umr. 1. málshefjandi hefur tjáð mér að hann eigi drjúgum eftir af ræðu sinni. Allt þetta vil ég leyfa mönnum og gefa mönnum tækifæri til þess að ræða og ég á þess ekki kost nema níðast með þessum hætti á hv. þdm. Það verður að liggja ljóst fyrir. Þá er enn þess að geta, að hæstv. ríkisstj., eins og fram kom hérna, hefur tilkynnt að ekki verði lokið fundarhaldi fyrr en mál, sem öllum er kunnugt um hver eru, fái fullnaðarafgreiðslu.

Ég hef ekki fleiru við þetta að bæta, en ég get ekki orðið við því að falla frá kvöldfundi og held enn fast við mína ákvörðun.