05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4702 í B-deild Alþingistíðinda. (4538)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Mér eru það vonbrigði, að hæstv. forseti mun ætla að halda fast við þá ákvörðun að boða til fundar hér í deildinni kl. 9 í kvöld. Það er skiljanlegt að hæstv. forseti deildarinnar vilji greiða fyrir málum ríkisstj. út af fyrir sig í þeirri trú að bak við ríkisstj. standi meiri hl., og meirihlutavilja er lofsvert að virða. En ég held að það sé einnig skylda forseta og embættismanna Alþingis að gæta réttar minni hl., og auk þess kemur svo til álita í þessu efni hvar meiri hl. er og hvar minni hl. er. Ég dreg í efa að allir stuðningsmenn ríkisstj. séu samþykkir þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru nú þessa dagana á Alþingi og ég mótmæli eindregið.

Ég áskil mér og öðrum þm. Sjálfstfl. rétt til að gera aths. við þinghaldið og kröfu um að mál verði hér tekin til umr., sem brýn eru, ef fast á að halda við fundarhald þriðja kvöldið í röð nú í þessari viku. Ég ítreka að þm. stjórnarandstöðunnar hafa verið, eru og munu verða tilbúnir að sýna skilning og samvinnu stjórnarliði og ríkisstj. til að afgreiða mál hér með eðlilegum hætti. Við erum reiðubúnir að sitja hér á þingi þá daga sem þörf er á til þess að mannsæmandi bragur sé á vinnubrögðum hér á Alþingi, svo að fullnægt sé þeim kröfum sem gera verður til vinnubragða við afgreiðslu mikilvægra mála. Það er því engin afsökun að halda fundi áfram nú í kvöld. Það er þess vegna réttmæt krafa að halda fundi áfram á venjulegum tíma á morgun. Við munum stunda þingstörfin svo lengi sem óskað verður eftir, en við áskiljum okkur einnig rétt til að gera kröfu til þess, að þingi verði ekki svo lokið að eigi séu rædd hér mál sem brennandi eru og mikilvæg fyrir þjóðarhag.