05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4713 í B-deild Alþingistíðinda. (4542)

145. mál, málefni fatlaðra

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Um leið og ég ítreka mótmæli mín um að þessi fundur skuli haldinn í hv. deild nú í kvöld gefst mér einnig tilefni til að taka til máls til að óska eftir því að utan dagskrár verði teknar upp umr. um svokallað álmál, ekki síst í tilefni af frétt Dagblaðsins og Vísis í dag sem og viðtali við hæstv. iðnrh. í hljóðvarpi nú í kvöld.

Ég hef fregnir af því, að hv. 2. þm. Reykn., Kjartan Jóhannsson, formaður Alþfl., hefur óskað eftir að fram fari umr. utan dagskrár og honum gefist kostur á að inna hæstv. iðnrh. eftir þessum fregnum og viðtölum, sem við hann hafa verið höfð, og ég hef ekki síður áhuga á því að spyrja hæstv. iðnrh. ýmissa spurninga og fá upplýsingar í tilefni þessa máls. Ef hæstv. iðnrh. skyldi vera bundinn í Ed. væri nóg að aðrir í svokallaðri ráðherranefnd, er fjallað hefur um álmálið, hæstv. forsrh. eða hæstv. sjútvrh., væru hér í Nd. til að taka þátt í umr. utan dagskrár um þetta efni.

Ég undirstrika að hv. Nd. hlýtur að eiga sama rétt og Ed. á að taka þetta mál fyrir og inna eftir upplýsingum um málið almennt og sérstaklega í tilefni af þeim fréttum sem fjölmiðlar hafa um það flutt nú í dag. En hitt eru auðvitað langtum skynsamlegri vinnubrögð, að þessar umr. fari fram í Sþ. Þess vegna er það ósk mín til hæstv. forseta Nd. að hann hafi nú þegar samráð við hæstv. forseta Sþ. og hæstv. forseta Ed. um að fundur verði settur í Sþ. og þm. gefist kostur á að taka þetta mál til umr. Með því að hv. 2. þm. Reykn., Kjartan Jóhannsson, formaður Alþfl., og ég höfum óskað eftir því að beina fyrirspurnum til ráðh. og fá upplýsingar um málið og enginn vafi er á því, að öllum þm. leikur sömuleiðis hugur á hinu sama, væru þetta skynsamlegustu vinnubrögðin. Þetta á sér einnig fordæmi, áreiðanlega fleiri en eitt, en mér er í fersku minni fordæmið frá 1974 í maímánuði, þegar Hannibal Valdimarsson óskaði eftir að taka mál upp utan dagskrár. Fyrst var talið að það yrði að gerast í annarri deildinni, en þar sem ósk kom fram um það frá fleirum ákvað þáv. forseti Sþ., Eysteinn Jónsson, að verða við beiðni um að setja sérstakan fund í Sþ. þannig að öllum þm. gæfist kostur á að ræða þessi mál. Ég held líka að tímasparnaður verði að slíkum vinnubrögðum, og því flyt ég þessa beiðni til hæstv. forseta. Meðan ég hef ekki fengið svar hans er ástæðulaust að orðlengja frekar um þetta mál, en ég vil þó geta þess, að ráðstafanir voru gerðar til að koma á framfæri þessari beiðni við hæstv. forseta Sþ. nú í matarhléi þannig að hann er undirbúinn eða ætti að vera undirbúinn að svara þessari beiðni.

Ég treysti nú á það, að forsetar þingsins greiði sameiginlega fyrir því að þm. fái tækifæri til að tjá sig og fá þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru og full ástæða er til að æskja eftir miðað við þær fréttir sem við höfum hlýtt á. — Ég sé líka að hæstv. forsrh. er hér í salnum og hann hefur því hlýtt á að til hans verður beint fsp. í tilefni af viðtölum við hæstv. iðnrh. ef og að svo miklu leyti sem hæstv. iðnrh. er ekki til staðar og ástæður að öðru leyti gefa tilefni til.