05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4715 í B-deild Alþingistíðinda. (4546)

145. mál, málefni fatlaðra

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Fyrir kvöldmat, þegar rætt var um það af ýmsum þm. deildarinnar, jafnt í stjórnaraðstöðu sem stjórnarandstöðu, að eðlilegt væri að ekki yrði kvöldfundur í kvöld, eins og vinnubrögðum þingsins hefur verið háttað, beindi ég afskaplega kurteislegum tilmælum til forsrh. um að hann beitti sér fyrir því, að orðið yrði við óskum þm. Fleiri þm. urðu til þess að taka undir þá ósk, og jafnframt var látin í ljós sú skoðun, að eðlilegt væri að þeir menn, sem svo mikið legðu upp úr kvöldfundum, skýrðu sín sjónarmið hér úr ræðustól og hvað þeim gengi til, eftir að fyrir liggur að nú bíða afgreiðslu í þinginu ótal mál sem hæstv. ríkisstj. leggur áherslu á að nái afgreiðslu.

Allir þm. vita að það er tómt mál að tala um þinglausnir á morgun eða hinn daginn, eins og áður var ætlunin, eftir þeim ákafa sem lýsir sér hjá einstökum ráðh. sem ríkisstj. allri á að ná sínum málum fram á þessu þingi. Hins vegar áskilja þm. sér auðvitað rétt til að fjalla um málin að nægju sinni og eins og þeim þykir fullnægjandi. Ég vil til staðfestu orðum mínum vísa til þess fjölda frv. sem afgreidd hafa verið á undanförnum dögum, ýmist við 1., 2. og 3. umr. í báðum deildum, en öll þessi mál sýna ljóslega að mjög vel hefur verið unnið í þinginu að undanförnu, og eins og hæstv. iðnrh. hefur margítrekað hér úr þessum stól hefur stjórnarandstaðan sýnt mikinn samstarfsvilja og lagt á sig töluverðar vökur og erfiði til að koma til móts við óskir ríkisstj.

Nú var afskaplega elskulegum tilmælum beint til hæstv. forseta þessarar deildar af formanni Sjálfstfl. Fyrir liggur að hæstv. forsrh. hefur verið á móti því, að fundur yrði boðaður í Sþ., nema með einhverjum skilyrðum, um það mál sem beðið hefur verið um umr. utan dagskrár um. Nú er það fróm ósk mín til hæstv. forsrh., að hann sýni þinginu þá kurteisi að skýra viðhorf sín til þinghaldsins og hvernig hann hugsi sér að áframhaldið verði. Þessi tilmæli eru borin fram í fullri kurteisi, af fullri sanngirni. Þetta eru eðlileg tilmæli til hæstv. forsrh. um að hann skýri þingheimi frá því, hvernig hann óskar helst að vinnubrögðum sé háttað.