05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4716 í B-deild Alþingistíðinda. (4549)

145. mál, málefni fatlaðra

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta um það að vera stuttorður. A. m. k: get ég gefið það loforð hátíðlega, að ég verð ekki jafnmargorður og hv. frsm., enda var verkefni hans að gera grein fyrir till. allrar nefndarinnar. En ég sé hins vegar ástæðu til að koma hér upp vegna þessa máls og gera grein fyrir nokkrum sjónarmiðum.

Eins og sést á frv. til l. um málefni fatlaðra á þskj. 168 er hér um mjög viðamikið mál að ræða. Hér er verið að marka nýja stefnu í málefnum fatlaðra og taka mið af þeirri löggjöf sem hefur gilt um nokkurra ára bil um málefni þroskaheftra. Safnað er saman í ein lög ýmsum heimildum er varða fatlaða, en sú stefna er mjög umdeilanleg eins og kom fram í ræðu hv. frsm.

Þau sjónarmið, sem helst eru uppi um lögbindingu ýmissa málefna er varða fatlaða, koma fram á bls. 21 í aths. með frv., en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Þegar vinna hófst við samningu þessa frv. var kannað hvort tiltækt væri og æskilegt að steypa saman í eina heild þeirri löggjöf sem fjallar beint eða óbeint um málefni fatlaðra. Niðurstaðan varð að slík lagasmíð yrði í flestu sundurlaus og auk þess væri í mörgum tilvikum óæskilegt að taka út úr almennri löggjöf ákvæði, sem sérstaklega snertir fatlaða, og setja saman í einn lagabálk. Segja má að hér sé komið að þýðingarmiklu grundvallaratriði í málefnum fatlaðra og reyndar jafnréttismálum í heild. Sú stefna hefur rutt sér til rúms víða um heim á síðustu tímum, að æskileg þróun í málefnum þeirra, sem á einhvern hátt þurfa sérstakt liðsinni til þess að ná jafnstöðu við meiri hluta þjóðfélagsþegnanna og að þeir yrðu í öllum aðalatriðum samstíga þeim, sem þessa liðsinnis þurfa ekki við, væri að þessa hópa ætti ekki að skilja frá þjóðfélagsheildinni ef mögulegt væri að komast hjá því, heldur koma málum þannig fyrir að þeir yrðu eðlilegur hluti hennar á öllum sviðum. Hefur þetta verið nefnt „inlegrering“ eða samskipunarstefna. Þetta er æskilegt og þýðingarmikið markmið, sem ber að ná sem allra fyrst. Hins vegar eru blákaldar staðreyndir þessa máls þær, að þessu markmiði verði tæpast náð nema með því að grípa til sérstakra aðgerða til þess að flýta því, að jafnstöðunni verði náð. Telja verður að það réttlæti með ýmsum hætti að bregða á það ráð að setja sérstaka löggjöf til hagsbóta fyrir það fólk sem ekki nýtur fullrar jafnstöðu við aðra þjóðfélagsþegna.“

Ég skýt því inn í upplesturinn að hér er komið að mjög mikilvægu stefnumáli. Fyrst vil ég gera þá athugasemd við orðalag aths., að hugtakið jafnstöðu er varla hægt að nota í þessu tilefni. Fremur ætti að nota orðin jafnrétti eða jafnræði því að það hlýtur að vera augljóst að ekki er hægt að ná jafnstöðu fatlaðra og þeirra sem ekki þurfa að búa við fötlun af einhverju lagi, en það má reyna að bæta upp þann mun með einhverjum ráðum. Á þetta bendi ég því að það virðist vera tilhneiging hjá ýmsum, sem semja löggjöf af þessu tagi, að nota hugtakið jafnstaða, sem er auðvitað nær merkingarlaust í þessu samhengi, og fer ég ekki frekar út í þá sálma, en treysti mér til þess ef um verður spurt.

Það er ljóst að í umræðum í nágrannatöndunum hefur niðurstaðan orðið sú, að það sé rangt að setja sérstaka löggjöf um málefni fatlaðra, heldur eigi fyrst og fremst í allri almennri löggjöf á sviði heilbrigðismála, félagsmála og menntamála að gera ráð fyrir því, að sem allra flestir fatlaðir eigi þess kost sem mest til jafns við aðra að njóta þeirra gæða og réttinda sem þjóðfélagið hefur að bjóða. Það hlýtur því að vera fyrsta athugunarefni þeirra, sem um þetta mál fjalla, að kanna hvort með þessari löggjöf sé stigið rétt spor.

Nú held ég áfram þar sem segir á bls. 21 í aths., með leyfi forseta:

„Í Danmörku og Svíþjóð var fyrir nokkrum árum sett sérstök félagsmálalöggjöf, í Danmörku „bistandsloven“ og í Svíþjóð „sociattjenesteloven“, þar sem í einum lagabálk er steypt saman öllum ákvæðum félagslegrar aðstoðar og þjónustu hins opinbera við alla þjóðfélagsþegna alveg án tillits til þess, hvort þeir eru fatlaðir, ófatlaðir, ungir eða gamlir. Í báðum þessum löndum tók það rúman áratug að setja þessi lög, en síðan lögin hafa verið sett hefur framkvæmd þeirra reynst með mismunandi móti og hafa komið upp raddir sem hafa gagnrýnt það að lögin ýti undir að einungis þeir, sem eru betur í stakk búnir til að ná réttindum sínum, njóti frekar aðstoðarinnar en þeir sem t. d. búa við andlega eða líkamlega erfiðleika. Þá hefur það einnig verið gagnrýnt í þessum lögum, að slík allsherjarskipulagning félagslegrar þjónustu í einum lagabálk bjóði upp á of þunglamalegt og hægfara kerfi, auk þess að oft og tíðum hafi markmiðum löggjafarinnar alls ekki verið náð einmitt vegna þessa, sem hefur það í för með sér að misrétti hefur á mörgum sviðum aukist.“

Á þessi orð taldi ég mér skylt að leggja nokkra áherslu, því að það er mjög mikilvægt fyrir litla þjóð eins og okkur Íslendinga að læra af reynslu annarra þjóða og varast að apa eftir þeim það sem að þeirra áliti hefur mistekist. Af þeirri ástæðu hlýtur það að vera umhugsunaratriði fyrir okkur og þá, sem eru ráðandi um stundarbil í félmrn., hvort ekki eigi að leggja til hliðar undirbúning félagsmálalöggjafar eins og hér um ræðir, en vitað er að hjá ýmsum telst það nánast guðlast að fara aðrar götur en þær sem frændur okkar í Skandinavíu hafa gengið. Á þetta er drepið síðar í aths., en ég tel, vegna mikilvægis þeirrar stefnumörkunar sem hér er að eiga sér stað, að þessi atriði komi skýrt fram, og leyfi ég mér þess vegna að rifja þau upp úr sjálfri grg. og aths. frv.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um þetta atriði. Við verðum að gera það upp við okkur, hvaða leið við viljum fara og hvort við séum tilbúin til þess að greiða með sameiginlegu fjármagni fyrir að ná þeim markmiðum sem þannig er stefnt að.

Ég hef ekki tíma eða tækifæri og sé reyndar ekki ástæðu til, eftir þá löngu og ítarlegu ræðu sem hv. frsm. nefndarinnar flutti hér áður, að fara að ræða einstakar brtt. sem nefndin gerir, en bendi þó aðeins á fyrstu brtt. um hvernig skilgreina skuli hugtakið fatlaður. Þegar átti að fara að skilgreina þetta hugtak kom í ljós að menn voru alls ekki sammála, og geta líklega flestir áttað sig á því þegar þeir lesa greinina eins og hún birtist í sjálfu frv. Þar stóð: „Orðið fatlaður í þessum lögum merkir þá sem eru andlega eða líkamlega heftir“ — og svo til viðbótar, sem nefndin leggur til að fari út: „og geta ekki lifað venjulegu lífi án sérstaks stuðnings.“ Það skyldi þó ekki vera komið þannig fyrir okkur öllum í nútímaþjóðfélagi að við séum öll fötluð. Það er orðið þannig að það er ekki lifandi í mannlegu samfélagi án sérstaks stuðnings og allra síst ef um fulla jafnstöðu, svo að ég noti það hugtak, á að vera að ræða eða fullt jafnrétti. Þegar af þessari ástæðu þótti nefndinni nægilegt að stytta þessa grein, sem auðvitað er þó hallærislausn því að í sjálfu sér segir greinin ekki mikið þegar þar stendur aðeins að orðið fatlaður í þessum lögum merki þá sem eru andlega eða líkamlega hamlaðir. Í raun og veru er hér um hálfgert stagl eða endurtekningu að ræða, en til þess er ætlast að þeir, sem eru yfirmenn og fara með málefni félagsmála hér á landi, geti glætt þessa grein lífi og gert hana að því sem nauðsyn er fyrir það fólk sem verið er að koma til móts við í þessu frv. sem inniheldur vissulega mörg mikilvæg og merkileg atriði.

Eins og kom fram hjá hv. frsm. hafa nokkrir aðilar, sem áhuga hafa á málefnum fatlaðra, einkum þó þroskaheftra, viljað fá tækifæri til að athuga málið betur í sumar. Nefndin vildi afgreiða málið úr nefnd til að sýna brtt., sem til umræðu hafa verið í nefnd og ræddar voru þar ítarlega, og var nefndin sammála um að afgreiða málið úr nefnd, en þó að því tilskildu að málið yrði ekki afgreitt á yfirstandandi þingi, heldur var tilgangurinn fyrst og fremst að sýna þessar tillögur og gefa þeim aðilum, sem um þetta mál fjalla í sumar, tækifæri til að ræða till. til jafns og til hliðar við sjálft frv. á fundum sínum sem þegar hafa verið boðaðir sumir hverjir. Enn fremur er hyggilegt að þeir umsagnaraðilar, sem voru neikvæðir, fái tækifæri til þess, þegar þeir sjá alvöru þess að þetta mál hljóti að ná fram að ganga, að koma þá til móts og til samstarfs við félmn., sem starfar á næsta þingi, og við félmrn. með sínar tillögur til bóta í stað þess að standa algerlega gegn löggildingu frv. Slík skoðanaskipti geta aðeins leitt til haldbærrar niðurstöðu í þessu máli og vonandi nægir sumarið til að jafna þann ágreining sem er um þetta mál.

En það er annar þáttur sem ég held að ástæða sé til að nefna við þessa umr. málsins, og það er fjármögnunin á þeim útgjöldum sem hljóta að þurfa að eiga sér stað verði þetta frv. í lög leitt. Í raun og veru skiptir afar litlu máli hvort frv. verður samþykkt ef ekki fæst fjármagn til að framkvæma þá nýju liði sem gert er ráð fyrir að þurfi að framkvæma samkv. frv. Allir vita að það hefur færst í vöxt að undanförnu að skerða tekjustofna sem renna eiga samkv. lögum til fjölmargra málefna, og hafa tekjustofnar þroskaheftra og fatlaðra ekki farið varhluta af slíkum niðurskurði. Má því segja að kálið sé ekki sopið þótt í ausuna sé komið. Það er ekki nóg að semja og setja lög um málefni fatlaðra, sem ætlað er að bæta aðbúnað og aðstöðu þeirra, ef fjármagn er ekki stórlega aukið. Og þá kemur að meginspurningunni: Erum við tilbúin að leggja fram þetta fjármagn? Treystum við okkur til þess? Eru þeir, sem eru að þrýsta á að fá þessi atriði í lög leidd, tilbúnir að standa við að leggja málinu lið með þeim eina hætti sem er raunhæfur, og það er að leggja nægilegt fjármagn til málefnisins?

Eins og ég sagði, herra forseti, var ekki ætlun mín að flytja langt mál. Það er samkomulag um að málið nái ekki fram að ganga á þessu þingi, en verði flutt aftur næsta haust. Vonandi tekur þá hæstv. félmrh. til greina það starf sem unnið hefur verið í hv. félmn. Nd. Ég ætla því ekki að fjalla frekar um brtt. þær sem fram hafa komið frá nefndinni. Til þess gefst tækifæri síðar þegar málið kemur til kasta Alþingis. Hins vegar vil ég lýsa því yfir, að framlagning frv. og umr., sem um það hafa orðið, eru að sjálfsögðu til gagns og hafa án efa aukið skilning á málefnum þeirra sem frv. fjallar um. Það, sem þó skiptir langsamlega mestu máli og við verðum að íhuga mjög rækilega áður en slíkt frv. er lögleitt, er auðvitað sú meginstefna sem mörkuð er með því að setja í ein lög flest þau atriði sem snerta málefni fatlaðra.