05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4721 í B-deild Alþingistíðinda. (4551)

145. mál, málefni fatlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. félmn. fyrir það mikla starf sem hún hefur lagt í þetta frv. til l, um málefni fatlaðra. Hér er um að ræða stórt frv. í mörgum greinum sem snertir mikilvægan og ekki síður viðkvæman málaflokk þar sem margir aðilar telja að þeir hafi nokkuð um að segja.

Ég hefði að sjálfsögðu, eins og væntanlega allir aðrir alþm., helst kosið að okkur hefði tekist að ljúka málinu á yfirstandandi þingi. En þegar fyrir lágu jafneindregnar beiðnir og raun ber vitni um frá Landssamtökunum þroskahjálp og frá svæðisstjórnunum um að hinkra með málið í sumar taldi ég eðlilegt, eins og aðrir hv. alþm. sem um þetta mál hafa fjallað, að verða við þeirri beiðni, og ég hef litið svo á að um þá niðurstöðu sé samkomulag á milli flokkanna á Alþingi. Með þeim hætti er mögulegt að hlýða enn frekar á þá aðila sem vilja um málið fjalla. En það þýðir að sjálfsögðu ekki að Alþingi geti lofað því að samþykkja allt það sem frá þessum aðilum kemur. Vandinn er Alþingis að taka ákvörðun í þessu efni, að fara yfir tillögurnar og gera upp við sig hvernig með þær eigi að fara.

Margar þær aths., sem gerðar hafa verið í þessu máli, eru góðar og athyglisverðar. Sumar bera vott um að menn eru að forðast að taka á viðkvæmum málum. Það kemur fram í umsögnum ýmissa aðila og ummælum í þessum efnum. Ég tel t. d. að þær skilgreiningarkröfur, sem uppi hafa verið á því, hver sé fatlaður, og á hlutverki Greiningarstöðvarinnar, séu sumar þannig að þær séu ákaflega óljósar og beri vott um að menn hafi ekki sett sig allt of nákvæmlega inn í þá þætti, sem hér liggja á bak við, og séu að forðast ákvarðanir frekar en annað. Ég verð t. d. að segja það varðandi skilgreiningu á hugtakinu fatlaður, að hún verður aldrei gerð tæmandi og endanlega í lögum. Það er algerlega fráleitt að ímynda sér að unnt sé að finna lagatexta sem endanlega tæmir það verkefni að skilgreina hver er fatlaður og hver er ófatlaður. Það hlýtur að vera einstaklingsbundið verkefni eftir hverjum fötluðum einstaklingi sem greindur er á hverjum tíma af lækni eða öðrum sérfræðingi. Það hlýtur að vera einstaklingsbundið mat að ákveða hver er fatlaður og hver ekki. Lög taka aldrei af endanlega öll tvímæli í þeim efnum.

Ég vil, herra forseti, láta koma fram að ég er þakklátur Sjálfsbjörgu og öðrum samtökum sem lögðu áherslu á að frv. þetta verði afgreitt.

Um það hefur nokkuð verið rætt í þessum umr. svo og við 1. umr. málsins, að það væri fjármögnunin sem réði úrslitum. Ég vil minna á að þetta frv. er frv. um rammalöggjöf um starf að málefnum fatlaðra. Það er síðan Alþingis hverju sinni að taka ákvörðun um hversu mikil starfsemi er fyrir fatlaða í landinu. Það er ekki unnt í slíkum lögum að telja upp tæmandi hvernig starfseminni á að vera háttað, og það er ekki heldur skynsamlegt að mínu mati. Við þurfum í þessum efnum og varðandi alla okkar félagslegu þjónustu að temja okkur meiri sveigjanleika en til þessa hefur verið tíðkaður hjá okkur. Fjármagnið í framkvæmdasjóðinn skiptir auðvitað miklu máli, en það snýr að stofnkostnaði, og í þeim efnum eigum við ekki bara að líta á tölurnar eins og þær voru í fyrra og hittiðfyrra, heldur eigum við jafnframt að velta því fyrir okkur, að hve miklu leyti sé rétt og skynsamlegt frá sjónarmiði þjónustu við fatlaða einstaklinga í þessu landi að byggja stofnanir til þess að sinna þeirra vandamálum. Mín skoðun er sú, að megináherslan eigi að vera á þjónustu við fatlaða og t. d. aldraða líka úti í þjóðfélaginu og það eigi að vera forgangsþáttur, og það er vonandi einnig svo í þessu frv. Mín skoðun er einnig sú, að áhugamannafélög eigi að koma mjög til skjalanna í þessum efnum og hlutverk ríkisvaldsins eigi ekki síst að vera samræming á starfi þessara aðila, samtaka og einstaklinga úti í þjóðfélaginu. Ríkið má ekki með sínum áherslum í þessum efnum verða til að lama á einn eða annan hátt þá starfsemi sem fólkið í landinu, sem best þekkir þessi vandamál, vill hafa uppi. Ég er andvígur slíku og ef þessi löggjöf, sem við erum hér að tala um, yrði til þess væri verr af stað farið en heima setið.

Ég ætla ekki að ræða hér um hvort nauðsynlegt er að setja félagsmálalöggjöf á Íslandi, heildarlöggjöf, eða ekki. Ég sé fyrir mér að það er geysilegt verkefni ef menn ætla að reyna að ná utan um það. Ég treysti mér ekki til að kveða upp úr með það, vegna þess að þær tilraunir, sem ég hef séð í þá átt, eru þannig að þær benda til þess, að hér gæti orðið um að ræða mjög víðtæka lagabálka og þunga, sem tæki ár eða kannske áratug að koma saman. Meðan það er í gangi finnst mér réttlætanlegt og sjálfsagt að við setjum sérstök lög um hópa eins og fatlaða, sem hér eru til umræðu, og aldraða sem einnig eru raunar til meðferðar hér á hv. Alþingi. Ég tel að það sé ekki mikill ágreiningur um þetta mál hér á Alþingi og það eigi ekki að gera of mikið úr honum. En ég legg á það áherslu og endurtek, að alþm., hvar í flokki sem þeir standa, geta aldrei komið sér hjá því að taka hina endanlegu ákvörðun varðandi þessa löggjöf. Þar þýðir ekkert að vísa vandanum yfir á einstaka hópa eða samtök. Ákvörðunin verður að vera Alþingis í þeim efnum.

Ég vil taka það fram, að ég mun beita mér fyrir því, að fulltrúar flokkanna geti hist í sumar til að fara yfir frv. þetta og ég vona að það takist sem best samstarf um málið í sumar. Ég vona einnig að niðurstaða okkar verði sú, að við náum saman um það frv. sem lagt verður fram, en ég mun beita mér fyrir því, að frv. um málefni fatlaðra verði lagt fram strax í upphafi þingsins í haust, ef ég fæ aðstöðu til að hafa þar á nokkur áhrif, og ég tel að ég hafi góð orð um það frá fulltrúum allra flokkanna hér í þinginu að þeir muni beita sér fyrir því, að frv. þetta geti orðið að lögum fyrir næstu áramót.