05.05.1982
Neðri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4723 í B-deild Alþingistíðinda. (4554)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv., en nefndin hafði hins vegar ekki ýkjalangan tíma til að fjalla um málið og trú mín er sú, að ef tími hefði verið til að fjalla nánar um þetta mál í hv. fjh.- og viðskn. hefðu nm. orðið sammála um að mæla með því, að þessu frv. væri vísað til ríkisstj., eins og meiri hl. n. leggur til. Það er ekki það, að formaður fjh.- og viðskn. hafi ekki verið reiðubúinn að vinna í þessu máli eins og eðlilegt hefði verið, heldur hitt, að málið kemur seint til deildarinnar og það er rekið mjög á eftir afgreiðslu þess. Það er rekið svo á eftir afgreiðslu þessa frv. að það er tekið hér til 2. umr. þegar nálgast miðnætti. Vinnubrögð nefndarinnar þann tíma, sem nefndin hafði málið til umfjöllunar, voru að mínum dómi eins og best varð á kosið, en eins og ég sagði áðan er ég sannfærður um að þeir, sem skipa minni hl. n. og flytja brtt. við þetta frv., hefðu að enn betur athuguðu máli orðið sammála meiri hl.

Þetta gefur mér tilefni til að víkja að ummælum hæstv. fjmrh. í gær, þar sem hann ræddi um vinnubrögð fjh.- og viðskn. og lét þau orð falla hér í hv. deildinni sem að mínum dómi eru ekki einum ráðh. samboðin — a. m. k. er sú hugsun, sem kom fram í þeim orðum sem ráðh. lét hér falla, ekki samboðin þeirri stofnun sem við hér stöndum í. Ég mótmæli því, að þessi nefnd, fjh.- og viðskn. þessarar deildar, hafi ekki unnið störf sín eins og skyldi, og enda þótt nefndin hafi afgreitt mál frá sér án þess að hæstv, ráðh. væri sammála þeirri afgreiðslu, þá er það ekki dómur um störf nefndarinnar að ráðh. hafi ekki verið sammála því sem nefndin var að gera. Ég mundi kannske vilja segja: þvert á móti.

Þau mál, sem hæstv. fjmrh. leggur fyrir Alþingi, koma til þessarar nefndar. Ég verð að segja það eins og er, að mig furðar á því þegar orð eins og þau, sem hann viðhafði hér í gær, eru látin falla, og þá hugsun, sem þar er að baki, undrast ég. Alþingi hefur sínu tilhlutverki að gegna eins og stjórnvald. Alþingi er ekki nein pöntunarstofnun stjórnvaldsins. Nefndir Alþingis skoða málin til að gera þingheimi grein fyrir skoðunum sínum, en ekki skoðunum ráðh. Aths. með frv. eru skoðanir rn., ráðh. eða ríkisstjórnar. Nefndirnar í Alþingi eru til að skoða málin, til að gera þm. grein fyrir því, hvort það, sem í aths. stendur, og hvort sá lagatexti, sem ráðh. hefur lagt fram á Alþingi séu með þeim hætti að með því sé hægt að mæla. Ég hef sjálfur gegnt embætti fjmrh., og það hvarflaði aldrei að mér þann tíma, sem ég gerði það, að líta þannig á störf fjh.- og viðskn. sem um væri að ræða einhverja afgreiðslustofnun fyrir rn., ráðh. eða ríkisstjórn. Mér var alla tíð ljóst að hér var um að ræða ráðgjafarnefnd þingsins og væri ágreiningur á milli mín sem ráðh. og nefndarinnar var ævinlega reynt að finna lausn, reynt að eyða misskilningi, reynt að haga málum þannig að það samræmdist þeim sjónarmiðum, sem voru forsenda fyrir framlagningu málsins, og samræmdist um leið þeim sjónarmiðum, sem löggjafarþingið vildi að væru til grundvallar meðmælum þeirrar nefndar til samþykkis á þingi.

Ég met þetta nú svo að í önnum dagsins hafi ráðh. kannske ekki ætlað sér að láta slík orð frá sér fara, en ég tel ástæðu til að víkja að þessu hér þegar ég mæli fyrir meirihlutaáliti fjh.- og viðskn. fyrst eftir að hæstv. ráðh. fór þessum orðum um störf nefndarinnar, og þá vil ég endurtaka að það er einróma álit okkar nm., sem þar höfum setið undir forsæti hv. 3. þm. Austurl., að hann hafi þar sinnt störfum sínum eins og hann frekast gat og kannske oft og tíðum unnið með þeim hætti að það, sem ekki hafði verið lagt fram á Alþingi eins og það átti að vera, var lagfært m. a. fyrir hans forustu og vegna góðs samstarfs nm.

Þegar við ræðum frv. um skattskyldu innlánsstofnana erum við að ræða einn þáttinn af efnahagsráðstöfunum hæstv. ríkisstj., sem kynntar voru snemma á þessu ári í skýrslu ríkisstj. um efnahagsmál og umr. fóru fram um hér á Alþingi snemma á þessu ári. Það var öllum ljóst, sem kynntu sér og fylgdust með þegar sú skýrsla var lögð fram um aðgerðir í efnahagsmálum, að þær aðgerðir, sem að átti að standa, voru ekki nema með tvennum hætti. Það var annars vegar aukin skattheimta með einum eða öðrum hætti og á hinn bóginn aukin vísitölufölsun til að ná fram því marki sem ríkisstj. setti sér með því að vísitala framfærslukostnaðar frá upphafi árs til loka yrði ekki meiri en 35% og að hraði verðbólgunnar, eins og það er orðað, væri kominn niður í 30% á síðari hluta ársins. Allar ráðstafanir, sem ríkisstj. hugðist gera, voru tekjuöflun með einum eða öðrum hætti, skattlagning, og það fjármagn, sem þannig var hægt að leggja í ríkissjóð, skyldi notað til að halda áfram og auka á fölsun framfærsluvísitölunnar til að ná fram fölsun á kaupgjaldsvísitölunni. Þetta frv. um skattskyldu innlánsstofnana er, eins og ég sagði, einn síðasti þátturinn af þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. ákvað að beita sér fyrir. Um er að ræða skattheimtu sem kölluð er skattheimta á innlánsstofnanir, gerandi sér grein fyrir því, að að sjálfsögðu eru það viðskiptamenn innlánsstofnana sem greiða það, en ekki stofnanirnar sjálfar.

Það er ekki óeðlilegt, þegar komið er að lokum þings og verið er að ræða lokaþátt efnahagsráðstafana ríkisstj., að fara örfáum orðum um stöðu mála í dag, gera sér grein fyrir hvernig nú er komið, hvernig þær efnahagsráðstafanir, sem ríkisstj. beitti sér fyrir í upphafi árs og hefur verið að koma í framkvæmd allan tímann síðan, hafa tekist. Þar til vitnis mun ég ekki leiða stjórnarandstæðinga. Það er ekki um að ræða aðra en stofnanir sem starfa á vegum ríkisstj. sjálfrar og hafa látið frá sér fara skoðanir sínar á þessum málum.

Fyrir nokkru lét Þjóðhagsstofnun frá sér fara rit eða skýrslu, þá 13. í röðinni, úr Þjóðarbúskapnum, framvindu 1981 og horfur 1982. Það, sem segir í þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar, er ekki sleggjudómar stjórnarandstöðunnar. Það er ekki eitthvað sem andstæðingar núv. ríkisstj. hafa verið að búa til til þess að villa um fyrir kjósendum. Hér er um að ræða dóm þeirrar stofnunar sem gerst þekkir þjóðarbúskapinn, atvinnulífið í landinu og er kunnugust hag þjóðfélagsþegnanna.

Það var ekki löngu seinna sem ársfundur Seðlabankans var haldinn og að vanda flutti formaður bankastjórnar Seðlabankans þar skýrslu eins og viðhorfið var, eins og útlitið var séð frá bæjardyrum Seðlabankans. Þar var ekki heldur um að ræða tilbúnar setningar stjórnarandstæðinga. Þar var ekki heldur um að ræða neinar uppfinningar manna sem voru andstæðir núv. ríkisstj. Hér var um að ræða álit þeirrar stofnunar sem ekki síður en Þjóðhagsstofnun þekkir stöðu þessara mála. Hér var um að ræða þá stofnun sem kannske hefur mest áhrif á gang mála. Þegar við þurfum að leita til erlendra er það Seðlabankinn sem þar hefur milligöngu. Seðlabankinn sem stofnun í landinu þarf að segja til um með hvaða hætti málin hafa þróast og hvort rétt sé og eðlilegt að gera það, sem lagt er til, eða ekki.

Mig langar til að víkja að nokkrum atriðum í ræðu seðlabankastjórans svo og nokkru því sem fram kemur í greinargerð Þjóðhagsstofnunar og segir okkur hver staða mála er í dag, segir okkur hvernig efnahagsráðstafanir ríkisstj. frá því í janúar og fram á þennan dag hafa dugað, segir okkur enn fremur hvað helst er til úrræða, hvert eigi að stefna. Þá er mjög áhugavert að gerður sé samanburður á því, sem þar stendur, á raunveruleikanum, og á því, sem við erum að fjalla um í dag.

Í ræðu seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabankans segir hann, með leyfi forseta:

„Af því, sem nú hefur verið rakið, sést að lánsfjárþörf vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða hefur að undanförnu verið langt umfram það fjármagn sem unnt hefur verið að fá innanlands með verðbréfasölu eða eigin sparnaði ríkis og opinberra aðila. Afleiðingin hefur orðið sú, að leitað hefur verið eftir erlendum lánum umfram það mark sem samrýmanlegt hefur verið efnahagslegu jafnvægi. Útlit er fyrir að erlend lánsfjárnotkun opinberra aðila muni enn aukast á yfirstandandi ári og hafa í för með sér bæði innlend þensluáhrif og aukna skuldabyrði.“

Hér lýsir seðlabankastjórinn því, hvernig ástandið er, hvað gert hefur verið, hvernig hefur verið haldið á málum og hvert muni stefna.

Í eldhúsdagsumræðunum fyrir nokkrum dögum vék hæstv. forsrh. að vísu að því, að það væri kannske ekki eins bjart fram undan og hefði verið, en hann vildi sem minnst úr vandamálunum gera. Hann taldi að allt væri þetta í himnalagi eins og sagt hefði verið og stefnt væri að. En í því, sem ég las upp áðan, er seðlabankastjórinn á allt annarri skoðun. Og þegar við erum að ræða frv. um skattskyldu innlánsstofnana, þegar við erum að ræða um nýja skattlagningu á peningastofnanir landsins, þá er ekki úr vegi að heyra aðeins hvað seðlabankastjórinn lagði til, að gert væri, í þeirri ræðu sem hann flutti á ársfundi Seðlabankans. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það er því eitt brýnasta verkefnið í stjórn efnahagsmála nú og á næstunni að draga úr lánsfjárnotkun opinberra aðila, en efla um leið innlenda fjármagnsmyndun svo að hægt sé að draga úr þörfinni fyrir sívaxandi erlendar lántökur“ — ég endurtek: „en efla um leið innlenda fjármagnsmyndun svo að hægt sé að draga úr þörfinni fyrir sívaxandi erlendar lántökur.“ Og þá eru það tillögur hæstv. ríkisstj. að skattleggja innlánsstofnanirnar með þeim hætti sem lagt er til í þessu frv. Sé um þversögn að ræða, þá er hún hér.

Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar er enn fremur vikið að því, hvernig ástandið hefur verið og hvernig það er, en á bls. 9 í greinargerðinni frá Þjóðhagsstofnun segir, með leyfi forseta:

„Frá því síðari hluta ársins 1981 hefur misvægi í þjóðarbúskapnum því komið fram í viðskiptahalla svo og verðbólgu sem enn er mikil.“

Og seðlabankastjórinn er í sinni ræðu svipaðrar skoðunar. Hann segir þar, með leyfi forseta: „Hefur lántökuþörf vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða farið ört vaxandi á undanförnum árum, en miklum hluta hennar er fullnægt með lántökum erlendis. Þannig jókst lánsfjárþörf ríkisins vegna opinberra framkvæmda um 65% frá fyrra ári, en innlend fjáröflun aðeins um 34%, m. a. vegna tregari sölu spariskírteina.“

Það, sem ég hef hér vikið að, eru atriði sem sýna okkur betur en nokkuð annað að fjármálastefna núv. ríkisstj. er með þeim hætti að áfram stefnir í mikla verðbólgu, og það er mat Seðlabankans, eins og fram kemur í ræðu seðlabankastjórans, með leyfi forseta:

„Við þessar aðstæður fór verðbólga heldur vaxandi að nýju síðustu mánuði ársins.“

Ég gat um það í upphafi máls míns, að annar þátturinn í efnahagsráðstöfunum ríkisstj. hefði verið skattheimta, hinn þátturinn væri áframhaldandi vísitölufölsun, það fjármagn, sem ríkisstj. aflaði sér með skattheimtu, skattlagningu innlánsstofnana, allt væri það notað til að falsa vísitöluna, greiða hana niður. Það sem af er þessu ári hefur vísitalan verið greidd niður sem nemur 6 stigum. Það er gert með niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum. Fjárhæðin, sem notuð hefur verið í þessu skyni, mun nema á einu ári um 450 millj. kr. Ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir að þessi upphæð er sú hin sama og á fjárlögum er ráðstafað til vega, til brúa, til skólabygginga, til sjúkrahúsabygginga og til bygginga heilsugæslustöðva, 450 millj. kr., það er svipuð upphæð og er nýtt í útgjöldum ríkissjóðs til þeirra fjárfestingarþátta sem ég vék að áðan.

Hver er árangurinn? Jú, árangurinn er sá, að laun eru lækkuð í þrjá mánuði. Framfærsluvísitöluhækkunin 1. febr., reiknuð þá út, var fyrir þrjá mánuði 12.72%. Það þýðir á 12 mánuðum yfir 60%. Þessi vísitala var greidd niður og endaði í því, að kaupgjaldsvísitalan varð 7.5 stig til hækkunar. Hvað gerðist svo 1. maí? Hver varð árangurinn af ráðstöfununum frá því í febrúar og mars? Jú, framfærsluvísitöluhækkunin þrjá mánuðina þá var 12.12%, og tæplega 60% á 12 mánuðum. Þannig er þessum málum varið að áframhaldandi verðbólga er um 60%. Allar ráðstafanirnar, sem gerðar eru, eru skattheimta til að falsa framfærsluvísitöluna til að ná niður kaupgjaldsvísitölunni. Engar þessara ráðstafana duga nema í þrjá mánuði. Hvergi er gripið á þessum málum með þeim hætti að um varanlegar ráðstafanir sé að ræða eða ráðstafanir sem duga til lengri tíma en útreikningstíma vísitölunnar.

Eftir að við höfum fengið þær skýrslur í hendur, sem ég gat hér um áðan, frá Þjóðhagsstofnuninni og ræðu seðlabankastjórans, er öllum ljóst hvers konar ástand er, og þá gegnir sama máli hvort sem um er að ræða þjóðarbúið, atvinnulífið eða stöðuna hjá þjóðfélagsþegnunum. Ef við skoðum stöðu þjóðarbúsins er dæmið það, að erlendar lántökur hafa aldrei verið jafnmiklar, komast í hærra hlutfall við lok þessa árs en nokkurn tíma áður. Greiðslubyrðin er miklu meiri á þessu ári en nokkurn tíma áður. Við erum með minni innlendan sparnað, en auknar erlendar lántökur. Hver er staða atvinnulífsins? Þar eru erfiðleikarnir meiri en nokkru sinni áður. Það er sama hvort við lítum til sjávarútvegsins, til iðnaðarins, til landbúnaðarins eða verslunarinnar. Það eru alls staðar óvenjulega miklir erfiðleikar. Og ef litið er til þjóðfélagsþegnanna sjáum við hvernig kaupmátturinn hefur rýrnað, hvernig vísitölufölsunin hefur farið með kaupmátt þjóðfélagsþegnanna. Þannig er staðan hjá þeim mönnum sem fyrir seinustu kosningar kölluðu mjög hátt: Kosningar eru kjarabarátta. Samningana í gildi.

Þegar staðan er metin er auðvelt að meta þær kjarabætur sem kosningarnar seinustu veittu landsmönnum. Þá geta menn virt fyrir sér þá samninga sem eru í gildi, og menn sjá hvert glamuryrði það var þegar talað var um kosningar sem kjarabaráttu og samningana í gildi. Það, sem menn hafa uppskorið í staðinn, er að vinstri stefna er versti kosturinn. Allar götur síðan 1978 hefur vinstri stefna verið í landinu, fyrst vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar og nú stefna hæstv. ríkisstj., og það staðfestist enn einu sinni að aldrei er þjóðarbúið verr statt en þegar vinstri stefna hefur verið, aldrei er atvinnulífið jafnilla á vegi statt og þegar vinstri stjórn hefur verið í landinu og aldrei er þrengt eins mikið að þjóðfélagsþegnunum og þegar vinstri stjórn er í landinu. Þess vegna staðfestist það í hvert skipti, að vinstri stefna er versti kosturinn.

Ég hef hér vikið nokkuð að stöðu þjóðarbúsins eins og hún er í dag, ekki að dómi okkar stjórnarandstæðinga, heldur að sögn þeirra sem best hafa vit á og gera grein fyrir málum á vegum ríkisstj. sjálfrar. Eyðslan hefur verið í hávegum höfð og sú skattheimta, sem aðrir hafa nú látið duga sér, dugar ekki þeim herrum sem nú fara með völdin. Þegar allt um þrýtur og þeir geta ekki lengur mergsogið atvinnulífið, farið dýpra ofan í vasa skattborgaranna, þegar búið er að binda stóran hluta af innistæðum innlánsstofnananna, þegar búið er að fá stóran hluta af innistæðum innlánsstofnananna að láni, þá er fokið í flest skjól þegar farið er að skattleggja innlánsstofnanirnar, eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem hér er til umr.

Þessu frv. er ætlað að verða lokaþátturinn í skattheimtu ríkisstj. nú. (Gripið fram í: Bjartsýnn ertu.) Við skulum vona að á þeim dögum, sem eftir eru, verði þm. ekki sýnd sú óvirðing að lagt verði fram skattheimtufrv. sem eigi að fara í gegn. En ég hafði ekki látið mér detta í hug, ef þessi ríkisstj. situr miklu lengur, annað en hún ætti þá eftir að standa fyrir viðbótarskattheimtu. — Af þeim þáttum, sem kynntir voru hér í upphafi árs, er þetta hinn síðasti, en um leið vil ég nú segja: hinn furðulegasti.

Ég taldi ástæðu til að víkja nokkuð að efnahagsástandinu og umsögnum um efnahagsástandið til þess einmitt að sýna árangurinn af efnahagsstefnunni. Í skýrslu seðlabankastjórans, sem ég hef mjög vikið að, segir, með leyfi forseta:

„Þróun lánsfjármála það sem af er þessu ári og horfurnar fram á við benda til þess, að þörf sé mikils aðhalds ef forðast á áframhaldandi peningaþenslu er leiði til vaxandi jafnvægisleysis í þjóðarbúskapnum. Þörf fyrir slíkt aðhald er enn meiri vegna þeirrar óvissu sem ríkir um þróun útflutningstekna og þjóðarframleiðslu. Hversu miklum árangri reynist unnt að ná í þessu efni hlýtur þó að vera mjög háð framvindu á öðrum sviðum efnahagsmála.“

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um stöðu efnahagsmála eins og hún er. Það er afar ljóst og það er glöggt hver hún er. Það hefur enginn vafi leikið á hvert stefnt hefur verið, hver stefnan hefur verið. Á það höfum við sjálfstæðismenn bent. Við því höfum við varað og það, sem frá Þjóðhagsstofnun, og það, sem frá Seðlabanka hefur komið, ýmist í rituðu máli eða ræðu, staðfestir það sem við höfum sagt.

Eins og ég gat um áðan er nú svo komið hjá hæstv. ríkisstj. að atvinnuvegina er ekki hægt að mergsjúga meira. Dýpra í vasa skattborgaranna sýnast menn ekki komast í bili. Þá er ráðið að snúa sér að peningastofnunum og það er gert með þeim hætti að furðu sætir. Því er haldið fram, að þessar stofnanir greiði ekki gjöld til hins opinbera. Það er mesti misskilningur að halda því fram. Það er hins vegar rétt að innlánsstofnanir hafa ekki greitt tekju- og eignarskatt. Þær hafa verið undanskildar tekju- og eignarskatti. Þær hafa hins vegar greitt önnur gjöld. Þær hafa greitt gjaldeyrisskatt til ríkisins. Bankarnir hafa greitt landsútsvar. Allar þessar stofnanir hafa greitt fasteignagjöld. En það er ekkert sjálfsagt að peningastofnanir greiði ekki tekju- og eignarskatt. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að þegar sú breyting verður gerð, að horfið skuli frá skattfrelsi þessara stofnana, verður að setja um það slíkar reglur að þær gangi ekki á eigið fé. Það verður að sjálfsögðu þar eins og annars staðar að skattleggja reksturinn eftir því hvernig hann hefur gengið. Þess vegna hefur verið eðlilegt í þessu máli að fjmrn., eftir að hafa nú fengið þá hugmynd að rétt væri að ná nokkrum peningum út úr bönkunum til viðbótar, hefði kynnt sér með hvaða hætti skattlagning á slíkar stofnanir á sér stað.

Þau skattalög, sem gilda, eru frá 1979 með lagfæringum og breytingum sem gerðar hafa verið síðan. Það var síður en svo að það væri flanað að þeirri breytingu sem þá var gerð. Það hafði mánuðum saman verið unnið að því og hér á Alþingi fékk málið ítarlega athugun á tveimur þingum. Á því voru gerðar miklar breytingar og lagfæringar. Fjöldi aðila fékk frv. til umsagnar og til athugunar. Ábendingar voru teknar til greina og tekið skýrt fram, þegar frv. var endurflutt 1978, að enn væru á því ýmsir gallar sem lagfæra þyrfti. Ég vil gjarnan láta það koma hér fram, að það tókst sérstakt samstarf á milli aðila við undirbúning þessa máls og í framhaldi af lagasetningunni undirbúning að breytingum og lagfæringum á þeim lögum. Ég þakka það fyrst og fremst því, að það voru sömu aðilarnir sem stóðu að samningu skattafrv., sem varð að lögum, og síðar unnu að því að koma fram lagfæringum á frv. Það er þá ein breyting sem gerð verður á skattalögunum á þessu þingi. Það hefur ekki verið talin ástæða til að gera á þeim fleiri breytingar. Ef sú breyting verður gerð er það út af fyrir sig til rýmkunar á ívilnun, en ekki vegna þess að lagfæra hafi þurft atriði sem voru röng.

Þegar ákveðið var af hálfu ríkisstj. að skattleggja innlánsstofnanir hefði að sjálfsögðu verið eðlilegast að fjmrn. hefði fengið til liðs við sig forustumenn viðskiptabanka, forustumenn sparisjóða og fulltrúa frá Seðlabanka, þ. e. fulltrúa frá þeim aðilum sem með þessi mál fara og þau þekkja best. Það var ekki gert, heldur var sest niður og á tiltölulega skömmum tíma samið frv., sem ég held að sé þannig að allra dómi, sem þekkja þessi mál, að það geti ekki verið lög til langframa. Það er ekki að ófyrirsynju sem minni hl. fjh.- og viðskn. flytur þá brtt. sem hann flytur hér. Mér er fullkomlega ljóst að með þeirri till. vilja þeir, sem minni hl. skipa, sýna að þeir eru ekki ánægðari með það frv. sem hér er til meðferðar. Þeir eru ekki þeirrar skoðunar, að þannig eigi löggjöfin að verða og vera, og þeir telja þess vegna eðlilegt og leggja til að hún verði endurskoðuð hið snarasta og fyrir næsta þing þannig að þá megi lagfæra og leiðrétta. Ég skal segja það alveg eins og er, að ég met þá viðleitni sem felst í þessari brtt., og verði þetta frv. að lögum mun að sjálfsögðu ekki standa á mér að aðstoða í þeim efnum til þess að hægt verði að gera skattalöggjöfina þannig úr garði að innlánsstofnanirnar sitji við sama borð og aðrar stofnanir í sambandi við skattlagningu.

Þegar þetta mál var til umr. í Ed., eins og það var lagt þar fram, og fulltrúum Sambanda viðskiptabanka og sparisjóða var kynnt frv., þá gerðu þeir sér grein fyrir því, hvað þarna var á ferðinni. Var á þeirra vegum unnin greinargerð sem send var fjh.- og viðskn. Ed. og birt sem fskj. með nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. Í þeirri grg. eru rakin þau atriði sem taka verður tillit til við skattlagningu innlánsstofnana.

Núgildandi skattalög gera ráð fyrir ákveðnum tilfærslum í bókhaldi fyrirtækja við uppgjör um áramót. Sumt af þeim atriðum hefði vissulega getað átt við í sambandi við skattlagningu bankanna, en með frv.-texta er ætlað að þurrka þau ákvæði út og að þau komi ekki til með að gilda um innlánsstofnanirnar. Hér er t. d. um að ræða heimildir til frádráttar frá tekjum vegna niðurfærslu útlána og veittra ábyrgða. En í skattalögunum er gert ráð fyrir ákveðinni niðurfærslu viðskiptaskulda í árslok og ekkert sem mælir með því, að slíkt skuli ekki gilda einnig í sambandi við peningastofnanir.

Þá má vekja athygli á frádráttarbærni gjalda vegna lífeyrisskuldbindinga hjá peningastofnunum sem þær hafa á sig tekið, en mun ekki vera hjá öðrum, og þess vegna eðlilegt að sérstakt ákvæði væri í skattalögum um hvernig fara skyldi með og það þá ákvæði sem gilti ekki aðeins um innlánsstofnanir, heldur um allar aðrar stofnanir og öll önnur fyrirtæki sem greiddu í slíka lífeyrisskuldbindingu.

Þá má vekja athygli á afmörkun á vöxtum og verðbótum í skattauppgjöri. Í nágrannalöndum okkar miðast afmörkun vaxtatekna og vaxtagjalda í skattauppgjörum innlánsstofnana ýmist við gjaldfallna vexti eða áfallna vexti til uppgjörsdags. Reglan í þessu efni hér á landi samkv. almennum skattalögum er að miða við áfallna vexti og verðbætur til loka reikningsárs. Þessi regla er í meginatriðum notuð í ársreikningum innlánsstofnana. Liggur því beint við að nota hana í skattauppgjörum þessara stofnana ef til skattlagningar kæmi. Í þessu sambandi þarf hins vegar að hafa í huga að reikningsskilaaðferðir innlánsstofnana varðandi árlega afmörkun áfallinna vaxta og og verðbóta hafa enn ekki verið samræmdar. Mismunandi aðferðir í þessu efni geta leitt til mjög mismunandi niðurstaðna um skattstofn og skapað óeðlilega mismunun milli stofnana. Ef til slíkrar skattlagningar kæmi sem þetta frv. gerir ráð fyrir er nauðsynlegt að settar verði skýrar reglur um framkvæmd meginatriða á þessu sviði þannig að innlánsstofnanirnar sitji nokkurn veginn við sama borð. Ef ekki þykir henta að setja fyrirmæli um meginatriði þessara mála í lög þyrfti að lögfesta fyrirmæli um útgáfu framkvæmdareglna um þetta efni.

Þá má víkja að útreikningi á verðbreytingafærslu. Ákvæði skattalaganna um útreikning verðbreytingafærslu gætu verið nákvæmari, en kosturinn við þau felst í einföldum útreikningi auk þess sem aðferðin gefur nægilega nákvæmni í flestum tilvikum í almennum atvinnurekstri. Hins vegar er ljóst að eignasamsetning innlánsstofnana skapar þeim sérstöðu að þessu leyti og nauðsynlegt virðist að athugað verði til hlítar hvort ástæða sé til að setja sérreglur um útreikning verðbreytingafærslna hjá innlánsstofnunum ef tekjuskattur yrði lagður á. Hér er hins vegar um að ræða allflókið mál sem þarf sérstakrar skoðunar við og ég mun ekki fara nánar út í það, en ástæða til þess einmitt að þeir aðilar, sem þekkja þessi mál best, hefðu verið hafðir með í ráðum til þess að menn gerðu sér grein fyrir hvernig þeim yrði best fyrir komið.

Þá kem ég að atriði er varðar eiginfjárstöðu þessara stofnana og með hvaða hætti hægt væri að koma til móts við þær stofnanir sem hafa veika eiginfjárstöðu. Með þessu frv. er, eins og skattlagning þess er hugsuð, mjög vegið að eiginfjárstöðu þessara stofnana. Í grg., sem unnin var á vegum Sambanda ísl. viðskiptabanka og sparisjóða og birt er með nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. og meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd., ef sérstaklega vikið að þessu atriði og gerð grein fyrir með hvaða hætti er vegið að eiginfjárstöðu innlánsstofnananna. Sé hins vegar ekki ætlunin að rýra eiginfjárstöðu þessara stofnana liggur ljóst fyrir að tekjur þeirra verður að auka, og það verður ekki gert nema með því að breyta vaxtamismun, annaðhvort lækka innlánsvexti eða hækka útlánsvexti. Það sýnir hins vegar hvernig hugsanagangurinn er í þessum málum þegar lagt er til að skattleggja þessar stofnanir, en það verður til þess að eiginfjárstaða þeirra allra kemur til með að rýrna mjög mikið, og um leið flytja frv. um sparisjóði, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, og gera þar kröfu um ákveðið hlutfall eiginfjárstöðu þeirra. Á sama tíma er verið að leggja til að skattleggja þessar stofnanir þannig að eiginfjárstaðan fer í flestum tilfellum niður fyrir það sem krafa er gerð um í því frv. sem ég vék að.

Þá er það atriði sem varðar ákvörðun skattstofns á fyrsta skattári. Í I.–III. bráðabirgðaákvæði frv. er kveðið á um endurmat, fyrningarstofn og stofn til söluhagnaðar vegna eigna sem keyptar voru fyrir gildistöku frv., ef að lögum verður. Þá er þar einnig kveðið á um stofn til verðbreytingafærslu. Í aths. við þessi ákvæði segir jafnframt að þar sem umræddar stofnanir hafi ekki verið skattskyldar fram að þessu þyki ekki rétt að taka tillit til afkomu liðinna ára við skattlagningu þeirra nú. Af þeirri ástæðu sé þeim t. d. ekki heimil yfirfærsla á rekstrartapi sem kann að hafa myndast á rekstrarárinu 1981 eða fyrr. Í þessu sambandi verður að benda á að margvísleg ákvörðunaratriði önnur en þau, sem minnst er á í frv., hljóta að valda óvissu við ákvörðun á tekjuskattsstofni á fyrsta skattári. Til að draga úr þessari óvissu og tryggja viðunandi samræmi milli stofnana er nauðsynlegt að settar verði reglur um öll meginatriði sem hér koma við sögu. Slíkar reglur þyrfti að setja annaðhvort í lögin sjálf eða lögfesta fyrirmæli um gerð þeirra.

Þá er vikið að eignarskatti. Í þeirri grg., sem viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir hafa lagt fram, eru færð rök að því, að álagning eignarskatts samrýmist engan veginn þeim lágmarkskröfum sem almennt eru gerðar til innlánsstofnana um rekstraröryggi og fjárhagslegan styrk. Ef við lítum á lönd í kringum okkur má benda á að innlánsstofnanir á Norðurlöndum eru eignarskattsfrjálsar, þ. e. sparisjóðir, og sama gildir um viðskiptabanka í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Það er því eðlilegt að þegar þessi ákvæði eru skoðuð fái menn að heyra rök fyrir því, hvers vegna ekki sé lagður eignarskattur á eignir þessara stofnana, sem ég gat um hér áðan, og við þá áttað okkur á hvort sömu forsendur séu fyrir hendi hjá okkur.

Það er enginn vafi á að undirbúningi þessa frv. er mjög ábótavant. Það lýsir sér best og kemur best fram í þeirri umfjöllun sem þegar hefur átt sér stað bæði í Ed. og Nd. og í nefndum beggja deilda. Það kemur glöggt fram í þeim greinargerðum, sem fylgja nefndarálitum, og þeim ábendingum, sem þar koma fram, að þeir, sem semja frv., hafa ekki gert sér neina grein fyrir því, með hvaða hætti farið er með þessi mál þar sem um er að ræða skattlagningu innlánsstofnana. Ég verð að segja það eins og er, að mig furðar á að ekki skuli haft neitt samband við þá aðila sem við þessa löggjöf eiga að búa, sér í lagi þar sem verið er að gerbreyta um stefnu. Það er ekki eins og hér sé verið að gera breytingar á lögum um skattlagningu innlánsstofnana. Sú löggjöf hefur ekki verið til. Það er verið að setja nýja löggjöf og það er ekki svo mikið sem haft samráð við þá aðila sem við þessa löggjöf eiga að búa. Þeir fá ekki tækifæri til að koma fram aths. áður en frv. er lagt fram hér á Alþingi. Það er þegar það er komið inn fyrir þessa veggi sem þeir sjá smíðina í fyrsta skipti.

Það er engra upplýsinga aflað. Það er ekki fyrr en Sambönd viðskiptabanka og sparisjóða fá frv. í sínar hendur sem farið er að vinna að slíku og þá ekki á vegum rn. eða ríkisstj., heldur eru það Sambönd viðskiptabanka og sparisjóða sem hafa allan veg og vanda af þeirri vinnu. Það er ekki heldur í aths. frv. gerð grein fyrir hver séu áhrif af þeirri skattlagningu ef að lögum verður. Það er engin grein gerð fyrir því, hvaða áhrif þetta hefur eða kynni að hafa á innláns- og útlánsvexti peningastofnananna né heldur á eiginfjárstöðu þeirra. Þegar við fjölluðum um þetta í fjh.- og viðskn. þessarar deildar óskuðum við eftir að fjmrn. léti okkur í té grg. eða aths. við grg. þá sem viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir höfðu lagt fram. Þær aths. eru birtar sem fskj., en á þeim er að sjálfsögðu lítið byggjandi einfaldlega vegna þess að þeir höfðu ekki kunnugleika á málinu. Við fengum aðra umsögn frá viðskiptabönkunum þar sem þeir gera aths. við þau sjónarmið og þá greinargerð sem frá fjmrn. komu.

Ég geri ekki ráð fyrir að það hafi verið í upphafi ætlun ríkisstj. að þetta frv. yrði til þess að hækka vexti í landinu. Ég held að það hreint út sagt hafi ekkert verið af hennar hálfu raunverulega um það hugsað hverjar afleiðingarnar yrðu, hún hafi hins vegar ekki ætlað að þetta leiddi til vaxtahækkunar. Við umr., sem fram fóru í fjh.- og viðskn., voru viðstaddir viðskrh. og fjmrh. Þeim var bent á að annað tveggja yrði að koma til — og þá höfðu menn gert sér grein fyrir að afkoma innlánsstofnana á s. l. ári var mjög neikvæð og eiginfjárstaðan hafði þess vegna ekki batnað sem skyldi — að annaðhvort yrði að koma til lækkun á innlánsvöxtum eða hækkun á útlánsvöxtum til þess að rekstrarafkomu þessara stofnana yrði ekki stefnt í voða og ekki gengi á eiginfjárstöðu þeirra. Þegar umr. fóru þar fram véku ráðherrar að því, að hægt væri að lagfæra þetta með sparnaði í rekstri, en gerðu sér þó grein fyrir að ekki var alveg víst að það dygði til. Þá var því svarað, að þá yrði að koma til vaxtabreyting. Það var ekki neinn vafi á því, þegar fulltrúar Seðlabankans og viðskiptabankanna voru á fundi nefndarinnar til viðræðna við nm., að að þeirra dómi yrði að koma til vaxtabreyting til að tryggja eiginfjárstöðu og rekstrarafkomu innlánsstofnananna. Hver er það þá sem borgar skattinn? Það eru ekki bankarnir. Það eru þeir sem skipta við bankana. Það er fólkið í landinu. Og þá erum við enn komnir að þeim þætti efnahagsstefnu ríkisstj. sem er aukin skattheimta á skattborgarana til þess svo að falsa áfram vísitöluna, til að breyta framfærsluvísitölunni til að lækka kaupgjaldsvísitöluna og koma þessum málum þannig fyrir að aðeins ein tala geti komið út úr dæminu þegar árið er liðið, þ. e. 35%.

Þegar þetta frv. var athugað varð ljóst að hér var bæði um að ræða afturvirkni og tvísköttun. Það var að vísu lagfært í Ed. hvað snertir tvísköttunina, og við 2. umr. var gert ráð fyrir að afturvirkni yrði ekki heldur, en við 3. umr. var flutt brtt. þar sem afturvirknin var lögfest og þannig er frv. núna. Þegar skattinn skal innheimta, ef þetta verður að lögum í maímánuði, skal innheimta skatt frá upphafi þessa árs. Og ekki nóg með það: hér er um að ræða staðgreiðslu. Hér eru einu skattgreiðendurnir í landinu sem þurfa að staðgreiða skatta og þannig mismunur á aðstöðu þeirra og allra annarra sem skatta greiða.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir það frv., sem hér er til umr., og vakið athygli á með hvaða hætti þetta frv. hefur orðið til og hversu gallað frv. er. Ég hef vakið athygli á hvernig undirbúningur þessa máls hefur verið. Til þess að ná fram því sem ætlað er þarfnast þetta mál miklu betri undirbúnings.

Eins og ég sagði áðan er ekkert sem segir að þessar stofnanir greiði ekki tekju- og eignarskatt, en það verður að gerast með þeim hætti að þessar stofnanir greiði tekju- og eignarskatt samkv. sambærilegum skattalögum og aðrir að teknu tilliti til ýmissa sértilvika. Við skulum gera okkur grein fyrir að verði ferðinni haldið áfram og þetta frv. að lögum er að mínum dómi vegið mjög að máttarstólpum í okkar peninga- og efnahagslífi. Þjóðfélag okkar þarfnast einhvers annars núna en að slíkt frv. verði að lögum. Það er því till. meiri hl. fjh.- og viðskn. að þessu máli verði vísað til ríkisstj. og það athugað til næsta hausts.