05.05.1982
Efri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4734 í B-deild Alþingistíðinda. (4557)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár nú, er það, að veitt hefur verið heimild til að hækka húshitunartaxta rafmagns hjá Orkubúi Vestfjarða og RARIK frá 1. maí s. l. Þetta er gert til að mæta óskum þessara aðila um hækkun húshitunartaxtans. Þó hygg ég að óskir þeirra hafi alls ekki verið uppfylltar. Þó að svo sé ekki hefur sú hækkun, sem nú hefur verið leyfð og nemur 23%, það í för með sér, að þá yrði orðið dýrara að hita upp hús samkv. þessum taxta heldur en með olíukyndingu. Er talið að rafmagnsupphitunin sé nú 10–15% dýrari en olíukynding. Ég segi 10–15%, við getum líka orðað það a. m. k. 10%, það fer eftir því hvernig útreikningar eru framkvæmdir.

Þetta setur þau fyrirtæki, sem ég nefndi, í mikinn vanda. Þessi fyrirtæki, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, hafa á undanförnum misserum og árum verið markvisst að vinna að því, að innlendir orkugjafar væru teknir til húshitunar. Þau hafa hvatt almenning til að leggja í þann kostnað sem því fylgir að breyta frá erlendum orkugjafa í innlendan í trausti þess að húshitunarkostnaðurinn lækkaði, og svo hefur verið fram að þessu. Það gefur auga leið að ógerlegt er fyrir þessi fyrirtæki, miðað við það sem á undan er gengið, að selja orku til húshitunar sem er dýrari en olíukynding. Það þarf því að gera ráðstafanir til að leysa þennan vanda. Því hef ég leyft mér að gera fsp. af þessu tilefni til hæstv. iðnrh., en fyrirtæki þau, sem ég hef nafngreint, heyra undir ráðuneyti hans.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að vekja athygli á því, að fyrir þessari deild liggur frv. á þskj. 619, 286. mál, um jöfnun hitunarkostnaðar, sem við þrír þm. flytjum. Mér þykir rétt að benda á að í því frv., sem því miður er enn í iðnn. deildarinnar og hefur ekki fengið afgreiðslu þar, eru ákvæði um að raforka til húshitunar skuli greidd niður eftir því sem þarf til þess að kostnaður verði 10% lægri en kostnaður við olíukyndingu.

Ég hef ekki orðið var við annað en að það væri samhljóða álit þeirra manna, sem tjá sig um þessi efni, að ekki sé viðunandi að innlendir orkugjafar séu dýrari til húshitunar en olíukynding.

Ég ætla ekki að fara að ræða þessi mál almennt, en spurning mín til hæstv. iðnrh. er þessi: Hvað hyggst ráðh. gera í vanda þeirra fyrirtækja sem ég hef tilgreint og heyra undir ráðuneyti hans?