05.05.1982
Efri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4735 í B-deild Alþingistíðinda. (4558)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skil ofur vel áhuga hv. 4. þm. Vestf. á að fá vitneskju um hvernig áformað er af stjórnvalda hálfu að bregðast við þeim mikla vanda og þeirri mismunun, sem fylgir ójöfnuði í húshitunarkostnaði í landinu og ekki hefur tekist að þoka til þeirrar áttar sem nauðsynlegt er og fyrirheit raunar gefin um í stjórnarsáttmála, þó nokkuð hafi þar verið að gert, einkum og sér í lagi með niðurgreiðslu olíu. Við gjaldskrárbreytingu 1. maí kemur það fram, sem engum þarf að koma á óvart, að raforkuverð til húshitunar hækkar eftir að heildsöluverð á raforku hækkar um 22% og rafveitur telja sig þurfa að fá sína hækkun á verðlagi og raunar miklu meira en heimilað var að þessu sinni.

Þessar verðbreytingar 1. maí verða til þess, á meðan ekki er að gert, að raforka til húshitunar hækkar það mikið að hún fer yfir þá viðmiðun sem við höfum við niðurgreidda olíu, miðað við óbreytta upphæð olíustyrks.

Nú var gert ráð fyrir því, þegar olíustyrkur síðast var ákveðinn, að mismunur á olíustyrk og rafhitun væri á bilinu 5–10% eða þar um bil. Ef farið væri eftir þeirri viðmiðun þýddi það að menn þyrftu að fara að lækka niðurgreiðsluna á olíunni. Það er hvorki mín tillaga né mín hugmynd að til slíkra ráða verði gripið, þó að það sé ánægjulegt út af fyrir sig að olía hefur ekki hækkað að undanförnu sem svarar til verðbreytinga. Það á við um s. l. ár eða a. m. k. hluta þess og það sem af er þessu. Þetta veldur því, að sú myndarlega hækkun, sem gerð var á olíustyrk og nú sýnir 30% niðurgreiðslu á olíunni, hefur orðið til þess að munurinn á innlendum orkugjöfum, þeim sem dýrastir eru, og olíukyndingu hefur farið minnkandi. Þetta var að sjálfsögðu markmiðið með breytingu á olíustyrknum.

Stjórnvöld hafa sem kunnugt er verið að athuga með hvaða hætti væri hægt að ná áfanga í jöfnun húshitunarkostnaðar. Fulltrúar allra þingflokka á Alþingi hafa setið að störfum í nefnd til að átta sig á þessum vanda. Sú nefnd hefur nýlega skilað áliti til viðskrn. sem skipaði nefndina, en það fer — í samræmi við skiptingu málaflokka innan stjórnarráðsins — með málefni sem varða lög um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar. Sá hluti þeirra laga, sem snýr að orkusparnaði sérstaklega, heyrir þó undir iðnrn.

Nú skilaði þessi nefnd myndarlegu áliti sem ég veit ekki hvort allir þm. hafa fengið í hendur, en dreift hefur verið til ríkisstj. Það var í lok aprílmánaðar sem það kom fram. Þessi mál hafa þegar verið rædd í ríkisstj., og ég vil greina frá því hér, að ríkisstj. hefur samþykkt ákveðna stefnuyfirlýsingu um þessi mál, sem ég tel rétt að komi fram við þessa umr. Með leyfi hæstv. forseta er hún svohljóðandi:

Ríkisstj. telur óhjákvæmilegt að dregið verði úr mismun á upphitunarkostnaði húsnæðis í landinu. Hefur ríkisstj. ákveðið með hliðsjón af áliti nefndar, sem nýverið hefur lokið störfum og skipuð var fulltrúum frá öllum þingflokkum, að beita sér fyrir úrbótum í þessu efni. Er að því stefnt, að upphitunarkostnaður sambærilegs íbúðarhúsnæðis verði yfirleitt ekki meiri en gerist hjá nýjum og hagkvæmum hitaveitum, sbr. hitaveitu Akureyrar og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Verður á næstunni gerð áætlun um hvernig ná megi slíku markmiði í áföngum, m. a. með endurskoðun á gjaldskrám veitufyrirtækja, á næstu 12 mánuðum. Verulegur ójöfnuður og hár upphitunarkostnaður stafar sumpart af bágu ástandi íbúðarhúsnæðis. Því er brýnt að hvetja til orkusparandi endurbóta á húsnæði. Mun ríkisstj. beita sér fyrir aðgerðum í þessu skyni á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins.“

Þetta er yfirlýsing sem ríkisstj. stendur að varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar og unnið verður að að útfæra nú alveg á næstunni til þess að hægt sé að beita sér fyrir þeirri áfangalausn sem þar er á ferðinni og er ekki neitt smáræði í rauninni ef litið er á það sem markmið að koma upphitunarkostnaði miðað við sambærilegar aðstæður niður í það sem er hjá nýjum og hagkvæmum hitaveitum eins og þeim sem nefndar eru þarna til samanburðar.

Þess má geta, að miðað við óniðurgreidda olíu er gjaldskrá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar 57% af óniðurgreiddri olíu og hjá Hitaveitu Akureyrar samsvarar þetta 62% af óniðurgreiddri olíu samkv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá mínu ráðuneyti.

Hins vegar er það rétt sem hv. fyrirspyrjandi nefndi varðandi þær breytingar sem orðnar eru á gjaldskrá rafhitunartaxta bæði hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Ef Orkubúið nýtir þá hækkunarheimild, sem það hefur fengið, samsvarar gjaldskrá þess 79% af óniðurgreiddri olíu og gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins 82%. Það er auðvitað alveg ljóst að við svo búið getur ekki staðið, enda stangast það á við þau markmið sem sett voru í sambandi við olíustyrkinn. Við erum komnir að því marki að þurfa að takast á við það vandasama verkefni að jafna með því að greiða niður að einhverju marki innlenda orkugjafa og þá sérstaklega rafhitunina.

Ég vil til frekari upplýsingar aðeins greina frá mjög lauslegri samantekt sem ég hef fengið frá starfsmönnum í mínu ráðuneyti um það, við hvað stóran fjármagnsvanda er hér að fást miðað við áfangaskiptingu á einu ári, ársfjórðungslega, ef reynt yrði að stíga þetta skref niður úr því sem nú er, þar sem mismunurinn er 4–5 faldur á því sem er ódýrast og dýrast. Ef atvinnuhúsnæði væri ekki tekið með — þetta eru nokkuð aðrar tölur en eru í nál. því að tölur eru alltaf að breytast, m. a. vegna gjaldskrárbreytinga — virðist árskostnaður með svona áfangalausn vera 124 millj. kr., þrátt fyrir það að gert er ráð fyrir raunhækkun hjá ódýrustu hitaveitunum sem sækja eins og kunnugt er mjög á um að fá að hækka þessa taxta, eins og Hitaveita Reykjavíkur. Ríkisstj. hefur gefið vilyrði fyrir því, að hún fái úrlausn sinna mála í áföngum fram til næsta vors, 1983. Kostnaðurinn við svona áfangalausn er sem sagt talinn nema allt að þessari upphæð.

Ég bið menn að taka ekki þessar tölur sem nein nákvæm vísindi því að þetta er mjög skjótunnið. En ég vil vekja athygli á þessari yfirlýsingu ríkisstj. og áformi um að vinna nú að aðgerðum til að ná árangri sem svarar til þess markmiðs sem nefndin, sem getið var um áðan, setti, að mismunur á upphitunarkostnaði yrði sem fyrst ekki meiri, miðað við staðalaðstæður, miðað við sambærilegt húsnæði, en sem svaraði 1 á móti 3. Það er í rauninni það bil sem er á milli hagstæðustu og dýrustu hitaveitnanna. Á ég þá við hagkvæmar hitaveitur sem metnar eru með viðmiðun við olíu, en ekki þær hitaveitur sem eru utan þess ramma og þurfa raunverulega á aðstoð að halda og einhverri niðurgreiðslu, þær sem eru tæknilega ekki í því horfi sem skyldi og þar sem bæði vatnsöflun eða vatnshiti er ófullnægjandi. Þar er ástandið í rauninni engu betra en í sambandi við rafhitunina og þarf að koma aðstoð til.

Hér fyrir hv. deild hefur legið um skeið frv. frá hv. fyrirspyrjanda um jöfnun upphitunarkostnaðar. Ég hef held ég tekið undir það þegar í umr. í deildinni, að þær hugmyndir og þau markmið, sem þar eru fram sett, séu mjög góðra gjalda verð, og mér finnst eðlilegt að á efni þess verði litið af stjórnvöldum þegar farið er yfir þessi mál og þau markmið mótuð sem ég hef hér lýst.