05.05.1982
Efri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4737 í B-deild Alþingistíðinda. (4560)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt skipaði ég nefnd með bréfi, dags. 24. júní 1981, til þess að endurskoða lög nr. 53 frá 1980, um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Í nefnd þessa voru skipaðir Guðmundur Bjarnason alþm., formaður, Eggert Haukdal alþm., Gunnar R. Pétursson rafvirki, Kjartan Ólafsson ritstjóri og Þorvaldur Garðar Kristjánsson alþm. Ritari nefndarinnar var Yngvi Ólafsson deildarstjóri í viðskrn.

Þegar rætt var um þessi mál hér fyrir nokkru vildi svo til að álit nefndarinnar var til í handriti og ég hafði þá fengið það í hendur, en ekki haft tíma til að kynna mér það og lesa nánar. Nú hef ég kynnt mér nál., því hefur verið útbýtt til alþm. og það hefur verið rætt í ríkisstj. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka nefndinni fyrir ágæt störf að þessum málum og sérstaklega láta í ljós ánægju yfir því, að tekist hefur samkomulag í nefndinni um að skila þessu áliti eins og það er úr garði gert.

Ég skal ekki rekja efni nál. Þar koma fram margar fróðlegar upplýsingar og það gefur að mínu mati glögga mynd af þeim vanda, sem þarna er við að fást, og gerir ráð fyrir ákveðinni stefnumörkun.

Ég vil taka undir það, sem hæstv. iðnrh. sagði hér um yfirlýsingu af hálfu ríkisstj. um áform í þessum efnum, og staðfesta það. Ég tel það eðlilega meðferð þess frv., sem hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson o. fl. hafa lagt fram, að því verði vísað til ríkisstj. með skírskotun til þessarar stefnumörkunar og yfirlýsingar um áform í þessum málum, og ég vonast til þess, að það verði haft til hliðsjónar þegar grundvöllur verður lagður að stefnumörkun í málinu til lengri frambúðar. Ég vonast til þess, að hv. flm. frv. uni sæmilega við þá málsmeðferð og hvernig málið horfir nú við.