05.05.1982
Efri deild: 86. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4739 í B-deild Alþingistíðinda. (4562)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Um leið og ég vil segja örfá orð vegna fsp. tel ég skylt að leiðrétta og lesa upp það sem niður hafði fallið þegar ég las hér yfirlýsingu frá ríkisstj. varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar, það sem snýr að orkusparandi aðgerðum. Ég þóttist sjá, að úr þeim texta, sem ég las, hefði eitthvað fallið niður, og fann það handrit sem vélritað hafði verið eftir. Þar segir: „Verulegur ójöfnuður og hár upphitunarkostnaður stafar sumpart af bágu ástandi íbúðarhúsnæðis. Því er brýnt að hvetja til orkusparandi endurbóta á húsnæði og mun ríkisstj. beita sér fyrir aðgerðum“ það sem niður féll var þetta: „á því sviði, m. a. með meiri og hagstæðari lánveitingum í þessu skyni á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins.“ Niðurlagið er sem sagt óbreytt.

Svo vil ég segja við hv. fyrirspyrjanda, að eins og rækilega var rætt á aðalfundi Orkubús Vestfjarða í Hnífsdal fyrir skömmu stendur Orkubú Vestfjarða frammi fyrir verulegum fjárhagsvanda, sem allir eru sammála um, sem að því máli hafa komið, að þurfi að bregðast við. Hann er alvarlegs eðlis og því skil ég vel áhyggjur hv. 4. þm. Vestf. í sambandi við málefni Orkubúsins, þegar þar við bætist að viðskiptaaðilar standa frammi fyrir þeim vanda að þurfa að greiða þetta mikla hækkun á raforkuverði að óbreyttu.

Ég tel raunsætt að ætla að hægt verði að móta tillögur varðandi fjárhagsvanda Orkubús Vestfjarða sérstaklega áður en langur tími líður og að fyrsti áfanginn í þeirri áætlun um jöfnun húshitunarkostnaðar, sem um var getið, verði mótaður innan skamms og framkvæmdur ekki síðar en þegar næstu gjaldskrárbreytingar eiga að verða. Þetta tel ég að séu lágmarksmarkmið. (ÞK: Hvenær eiga næstu gjaldskrárbreytingar að verða?) Næstu gjaldskrárbreytingar eru 1. ágúst, en þetta fer eftir því, hversu hratt okkur vinnst í þessum efnum. Ég er viss um að það er fullur áhugi á því hjá ríkisstj. ekki síður en stjórnarandstöðu að þetta þurfi ekki að dragast úr hófi.