05.05.1982
Efri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4746 í B-deild Alþingistíðinda. (4566)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hlýt fyrst að gera athugasemd við hversu skammur tími virðist ætlaður af hálfu ríkisstj. og rn. — og væntanlega þeirra sem ríkisstj. styðja — til þess að fjalla um þetta mál. Það lifði ekki mjög mikið af þingi þegar þessu máli var dreift hér á þingbekki, en þó keyrir úr hófi að þessari deild skuli hafa verið ætlað að afgreiða þetta mikla mál á fáeinum dögum. Menn verða náttúrlega að gera sér grein fyrir því, að þetta mál, eins og það er fram lagt af hálfu ríkisstj., er að ýmsu leyti öðruvísi en önnur þau mál af svipuðu tagi varðandi orkufrekan iðnað sem við höfum fengist við áður. Það er öðruvísi að því leyti, að áður var um að ræða samninga við fyrirtæki sem aðilar, sem störfuðu í greininni, áttu að öllu leyti eða að hluta, og þar sem þau áform, sem uppi voru, fóru til umfjöllunar hjá þeim aðilum, sem höfðu reynslu á þessu sviði, og svo vitaskuld hjá ýmsum erlendum lánastofnunum. Vegna þess að þannig er ekki frá þessu máli gengið hlýtur að verða enn frekar að leggja vinnu í undirbúning þess og gera meiri kröfur en nokkru sinni fyrr.

Hæstv. iðnrh. hefur oft talað um að nauðsyn bæri til að mál væru vel undirbúin. Hins vegar virðist augljóst af þeirri umfjöllun, sem þetta mál hefur fengið í hv. Nd., að undir vandlegum undirbúningi fá þau gögn ekki staðið sem fram hafa verið lögð. Í rauninni hefur hv. Nd. lýst skoðun sinni mjög ákveðið í þeim efnum með því að ákveða að ekki skuli koma til nema lágmarksskuldbindingar öðruvísi en málið hafi komið öðru sinni fyrir Alþingi.

Vitaskuld hljóta mjög margar spurningar að vakna við að skoða þau gögn sem fram hafa verið lögð í þessu máli og vitaskuld er ekki hægt að ætlast til þess, að hv. deild geti verið mjög sátt við það að þeim spurningum sé látið meira og minna ósvarað. Ég þekki þingmenn að því að vilja gjarnan setja sig vel inn í mál og til þess gefst heldur lítið ráðrúm eins og á þessu máli hefur verið haldið.

Ég tók eftir því, þegar dreift var hér gögnum um þetta mál, að þau má finna í ýmsum bókum. Eitt af því, sem spurt hefur verið um, er hversu mikill viðbótarkostnaður væri við það að setja verksmiðjuna niður í Reyðarfirði frekar en annars staðar þar sem aðstaða væri þegar fyrir hendi, að maður ekki tali um að gera það t. d. í Hvalfirði. Þessari spurningu hefur tæplega verið svarað. En við henni eiga menn vitaskuld að fá mjög skýr svör, ekki vegna þess, að í því að bera fram spurninguna felist það endilega að menn vilji ekki að verksmiðjan sé sett niður á Reyðarfirði, heldur hitt, að menn eiga auðvitað að vita hvað þeir eru að gera hverju sinni, hverjir kostirnir eru og hvaða viðbótarkostnaður felst í því eða viðbótarhagur að velja einn kost frekar öðrum. Einn ágætur stuðningsmaður Alþb. hafði á orði við mig að líklega væru vandfundin rök fyrir því að setja verksmiðjuna niður á þessum stað, nema ef vera skyldi að það væri í kjördæmi ráðh., ef það ættu að teljast rök. En hvað sem því líður hljóta menn að spyrja hvaða rök liggi því til grundvallar og hver kostnaður fylgi því að setja verksmiðjuna niður á þessum stað — til þess að vita það. Og ég ítreka að það hefur þá ekkert með það að gera hvort menn telji að önnur sjónarmið séu svo rík að ástæða sé til að velja einmitt þennan stað.

Nú vill svo til að sérstök staðarvalsnefnd hefur fjallað um þetta mál og verið beðin um að skýra röksemdir sínar fyrir því að velja þennan stað. Í skýrslu, sem undirrituð er af henni, segir á bls. 24 að að öðru jöfnu sé eðlilegt að slíkri verksmiðju sem kísilmálmbræðslunni sé valinn staður á svæði þar sem mikla raforku er að finna, en fólksfjöldi er ekki að sama skapi mikill. Þessi einkenni á kísilmálmframleiðslu mæta því með staðarvali á Reyðarfiðri frekar en á Reykjavíkursvæðinu eða við Eyjafjörð. Hér ber þó að geta þess, að fólksfjöldi á Reyðarfjarðarsvæðinu er við neðri mörk þess sem nefndin telur æskilegt fyrir verksmiðju af þessari stærð.

Mér finnst þetta nokkuð rýr rökstuðningur og vænti þess, að fleiri rök komi til en þau að það, sem fyrst og fremst mæli með þessum stað, sé að hann sé nægilega fámennur, en þó sé hann engu að síður fullfámennur, og þá einkum með tilliti til þess, að annars staðar í þeim gögnum, sem dreift hefur verið, er þess getíð, að væntanlega standi til að stækka þessa verksmiðju.

Ég hef tekið eftir því í þeim umsögnum, sem borist hafa, að sá málatilbúnaður, sem hér um ræðir, hefur fengíð nokkuð harða dóma. Fyrst er þess þó að geta, að í niðurstöðum sérstakrar skýrslu, sem Commodities Research Unit Ltd. hefur unnið er þess sérstaklega getið, að hér sé um kostnaðarsama verksmiðju að ræða, og í annan stað að þessi framleiðsluþáttur, þ. e. framleiðsla á kísilmálmi, sé mjög vandasamur og þess vegna verði vitaskuld að gera miklar gæðakröfur.

Þegar það kemur í ljós í skýrslu frá óháðum erlendum aðila, sem um þetta fjallar, að hér sé um mjög dýra verksmiðju að ræða eða verksmiðju með mjög mikinn rekstrarkostnað, þá hljóta menn auðvitað að spyrja sig þess, hvaða áhættu menn séu að taka annars vegar og hins vegar hvort mögulegt sé að reisa þessa verksmiðju með ódýrari hætti. Þess er reyndar getið í skýrslunni frá Commodíties Research Unit. Ltd., að það verði sérstaklega að gæta sín á hversu viðkvæmt þetta fyrirtæki mundi verða fyrir verðlækkunum, jafnvel þótt þær stæðu aðeins um skamman tíma, á afurð þess, kísilmálmi. Ég ætla ekki á þessu stigi að rekja nánar þessa miklu skýrslu, en taldi nauðsynlegt að geta þessa sérstaklega sem rökstuðnings fyrir því að vanda vel til alls undirbúnings og gæta vel að kostnaðarþáttum, að þessi sérfræðiaðili hefur sérstaklega varað við því, hvað það fyrirtæki, sem hér væri á döfinni, væri viðkvæmt fyrir verðsveiflum. Og hvað sem menn hafa sagt um svonefnda samkeppnisstöðu þess, bæði í skýrslu iðnrn. frá því í mars 1982 og á öðrum vettvangi, þá stendur þessi viðvörun sérfræðifyrirtækisins óhögguð og gefur mönnum vitaskuld tilefni til að gæta sérlega vel að hvað um sé að ræða.

Ég geri ráð fyrir því og mér sýnist af þeim gögnum, sem hér hafa verið lögð fram, að ástæðan fyrir því, að um háan framleiðslukostnað sé að ræða, sé ekki síst mikill fjármagnskostnaður. Stendur hann að sjálfsögðu í sambandi við uppbyggingu verksmiðjunnar og þá m. a. staðsetningu hennar. Þrátt fyrir það að hæstv. iðnrh. hafi talað mjög um nauðsyn þess, að verkefni væru vel undirbúin, verður það að segjast, að í þeim umsögnum, sem borist hafa um þetta verkefni og undirbúning þess, kemur fram margvísleg gagnrýni. Þjóðhagsstofnun hefur m. a. verið fengin til að fjalla um þetta mál. Hún bendir á að þar séu ýmsir kostnaðarþættir sem ekki hafi verið teknir með í reikninginn þegar dæmið hafi verið sett fram, m. a. vextir á byggingartíma, kostnaður við þjálfun starfsmanna og síðan annar stofnkostnaður eins og hafnargerð, vatnsveita og raflína, og flýting á raflínum, sem eðlilega verði að telja til stofnkostnaðar þessa verkefnis, og jafnframt bygging íbúðarhúsnæðis sem stafar af þessu staðarvali. Á þessum grundvelli áætlar Þjóðhagsstofnun lauslega að annar stofnkostnaður, sem beinlínis er tengdur verksmiðjunni, sé 65–75 millj. kr., sem teljast verður verulegt fé.

En það er annað atriði sem kemur fram í umsögn Þjóðhagsstofnunar sem gefur tilefni til þess að beina spurningu sérstaklega til hæstv. iðnrh. Þess er getið í umsögn Þjóðhagsstofnunar, að stærð hráefnisgeymslu sé miðuð við tveggja mánaða framleiðslu. Ég er sammála Þjóðhagsstofnun um það, að hér sé um mjög lítið svigrúm til hráefnageymslu að ræða, og það kemur auðvitað inn í stofnkostnaðinn þá líka. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. iðnrh. hvað ráði því, að menn haldi að mögulegt sé að reka verksmiðju með þessum hætti, með svo litlum hráefnisbirgðum, langtum minni en þær hafa verið t. d. í öðrum verksmiðjum sem reknar eru hér á landi.

Ég vil beina því jafnframt til hæstv. iðnrh., að hann geri grein fyrir því, hvort einmitt með því að gera ráð fyrir svona litlu rými fyrir hráefnisbirgðir væri ekki verið að auka áhættuna í rekstri fyrirtækisins þegar út af bæri í aðdráttum til landsins, sem getur verið með ýmsu móti, bæði vegna verkfalla og vegna markaðsaðstæðna, þannig að hér væri verið að setja þetta verkefni í óeðlilega áhættu. Ég hefði enn fremur óskað eftir að fá upplýsingar um hversu miklu það mundi muna í stofnkostnaði að gera ráð fyrir því að geta verið með mun meiri hráefnisbirgðir eða nær því sem tíðkast í þeim verksmiðjum öðrum sem hér eru.

Það kemur enn fremur fram í umsögn Þjóðhagsstofnunar, að reiknað sé með verulegri hækkun afurðaverðs, en aftur á móti ekki með hækkun á hráefninu. Ég hef ekki orðið var við að viðhlítandi svör hafi komið fram við því, hvernig menn treysti sér til að gera ráð fyrir að mál geti þróast með þessum hætti. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað að hæstv. iðnrh. svaraði því, hvaða röksemdir lægju til þess mats verkefnisstjórnar að það væri unnt að reikna með svo mikilli hækkun afurðarverðs án þess að reikna með hækkun á hráefni.

Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar kemur líka fram sú ábending, að sú vísitala neysluverðs, sem verkefnisstjórnin notar sem viðmiðun á verðbólgu, geti varla talist nákvæmur mælikvarði. Það er mjög athyglisvert, að í þessari umsögn hefur Þjóðhagsstofnun reiknað út inn­ flutningsverð á kísilmálmi í hlutfalli við breytingar á útflutningsverði í OECD-ríkjunum. Þá kemur í ljós að allar þær tölur, sem fram eru settar, eru mun lægri en þær sem verkefnisstjórnin miðar við. Niðurstöðurnar eru sem sagt gjörólíkar um þróun kísilmálmsverðsins eftir því, hvaða vísitölu er hér miðað við, og meðalverðið er 15–20% lægra á mælikvarða útflutningsverðs OECD ríkjanna en á mælikvarða neysluverðs í Bandaríkjunum.

Ég vildi gjarnan heyra skoðun hæstv. iðnrh. á þessu máli, hvernig það megi vera, að menn velji þennan verðmælikvarða, eða hverju hann hafi til að svara þeirri gagnrýni sem kemur fram í raun og sannleika í þessu reiknaða yfirliti.

Það kemur líka fram í þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar, að miðað við núverandi innflutningsverð til Þýskalands, Bretlands og Japans og núverandi gengi myntar þessara ríkja gagnvart dollar þurfi kísilmálmverð að hækka um nær 25% á næstu árum umfram alþjóðlega verðbólgu til þess að ná þeirri verðviðmiðun sem notuð er í skýrslu verkefnisstjórnar.

Ég skil þessa ábendingu Þjóðhagsstofnunar þannig að hér sé nokkuð langt seilst og gæti allmikillar bjartsýni. Þess vegna væri ástæða til að heyra viðbrögð hæstv. iðnrh. við þeirri ábendingu sem hér kemur fram. Enn er það svo að í þeim skýrslum, sem fram hafa verið lagðar, kemur fram mismunandi nýting verksmiðjunnar. Það er meginviðmiðun verkefnisstjórnar að það náist 90% nýting afkastagetunnar, en fyrir liggur að meðalnýting í allri greininni hefur verið 85% þegar markaður er í jafnvægi. Á öðrum stað eru upplýsingar um það, hver nýtingin hafi verið í hinum ýmsu löndum eða á hinum ýmsu markaðssvæðum, og allar þær tölur benda til þess, að 90% nýting sé hærra en menn kynnist í þessum verksmiðjum þar sem þær eru starfræktar. Þá hlýtur að vakna sú spurning, hvaða rök liggi til þess að gera ráð fyrir, að hér geti náðst betri nýting en annars staðar, og hvort ekki verði að teljast nokkuð áhættusamt að ganga út frá því sem reikniforsendu.

Í þessum gögnum frá Þjóðhagsstofnun er líka eilítið yfirlit sem gefur til kynna eins konar mat á arðsemi kísilmálmverksmiðju. Auðvitað ber að líta á þetta yfirlit með fyrirvara, en það er þó sett fram til þess að menn geti áttað sig á því, hversu viðkvæmar þær tölur um arðsemi eru sem fram eru settar. Sé t. d. miðað við 10% lægra afurðarverð en verkefnisstjórnin gerir ráð fyrir, sem sagt 15% hækkun umfram alþjóðlega verðbólgu í staðinn fyrir 25%, minnka þessir afkastavextir niður í 5.5%. Aðrir hlutir geta og dregið hér verulega úr, eins og það að taka tillit til hafnar og vatnsveitu, gera ráð fyrir að sama raforkuverð sé allt tímabilið eða að stofnkostnaður reynist eitthvað hærri en hér er gert ráð fyrir ellegar að ekki verði unnt að ná meiri nýtingu en 85% eins og gerist í öðrum verksmiðjum. Ef þetta gerðist allt samtímis sýnist mér það svara til þess að afkastavextir lækkuðu um 3.4%. Þegar á bjátar getur því verið um lága afkastavexti að ræða, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið. Þessar tölur gefa auðvitað vísbendingu um hversu nauðsynlegt er að standa vel að þessu verki og gæta þess, að undirbúningur sé sem bestur og kostnaður sem lægstur og að áhættumat verði framkvæmt í sambandi við þessa verksmiðju.

Í bréfi frá Landsvirkjun 25. mars, sem lagt hefur verið fram sem gagn í þessu máli og varðar hugsanlegt raforkuverð, kemur fram það viðhorf stjórnar Landsvirkjunar að ekki sé unnt að gera raunverulegt tilboð af hálfu Landsvirkjunar um eðlilegt raforkuverð til þessa fyrirtækis fyrr en ýmis önnur atriði hafa verið skýrð. En það er athyglisvert, að í þessu bréfi Landsvirkjunar er jafnframt tekið fram, að stjórninni yrði að vera innan handar að hækka gjaldskrá fyrirtækisins eins og nauðsyn krefur á hverjum tíma, að fenginni umsögn Þjóðhagsstofnunar. Það sem hér er um að ræða, er í rauninni spurningin um það, hvort menn geti frekar ætlast til þess í sambandi við þetta fyrirtæki heldur en t. d. ÍSAL, að gefið verði fast raforkuverð langt fram í tímann, einmitt það atriði sem menn hafa barist fyrir hér á undanförnum misserum og árum að ekki ætti að gilda, heldur ættu að vera möguleikar til þess að endurskoða raforkuverðið reglulega. Mér sýnist að einmitt þetta viðhorf komi fram í bréfi Landsvirkjunar og að til þess verði vitaskuld að taka tillit.

Ég mun ekki fjalla eins ítarlega um þetta mál og ég hefði gjarnan kosið, með tilliti til þess, að tíminn er knappur og væntanlega gefast fleiri tækifæri til að taka þetta mál til umfjöllunar. Ekki verður þó hjá því komist að beina nokkrum spurningum til hæstv. iðnrh. í tilefni af umsögnum sem borist hafa annars vegar frá Íslenska járnblendifélaginu og hins vegar frá Seðlabanka Íslands.

Það er sérstaklega varað við því í umsögn Íslenska Járnblendifélagsins, að hér sé um að ræða áhættufyrirtæki, sem ætlað er að framleiða vörur inn á markað sem eðli málsins samkvæmt er sveiflukenndur og þar að auki hefur undanfarið og mun sýnilega næstu ár einkennast af framboðsgetu umfram þarfir heimsmarkaðarins. Því ber að skoða ákvörðun um að ráðast í slíka framkvæmd af fyllsta raunsæi um að aðgangseyririnn að þessum markaði getur orðið býsna hár og hann verður alltaf háður markaðsóvissunni. Í þessu sambandi finnst mér rétt að menn íhugi alveg sérstaklega, að þó við höfum ákveðið að efla hér orkufrekan iðnað og þó við höfum ákveðið að það skuli gerast með þeim hætti að reisa kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, þá hlýtur tímasetningin á því, hvenær slík verksmiðja hefur framleiðslu, að ráð mjög miklu um afkomu þessa fyrirtækis. Það er vitað að mjög miklar sveiflur eru á þessum markaði. Nýlega var til umfjöllunar í þessari deild og á hv. Alþingi frv. til laga um málefni verksmiðjunnar á Grundartanga, verksmiðju Járnblendifélagsins. Þar voru kynntir útreikningar sem gáfu til kynna mat þeirra manna á markaðsþróun. Því verður ekki haldið fram með nokkrum hætti, að þeir útreikningar, sem lagðir eru til grundvallar hér varðandi markaðsþróun fyrir kísilmálmverk­ smiðjuna, séu í samræmi við þá útreikninga sem lagðir voru fram varðandi járnblendiverksmiðjuna. Milli verðlags á þessum tveimur málmum hefur verið nokkuð stöðugt samband á undanförnum árum og það hefur komið fram hjá forstjóra Íslenska Járnblendifélagsins, að ef verðlag á málmblendi væri sambærilegt við það verð, sem reiknað er með í greinargerðinni, mundi hagnaður verða á Grundartangaverksmiðjunni árið 1982 14 millj. nkr. í stað þess að nú er áætlað tap 56–57 millj. nkr. Hér er um að ræða að verðlagið á afurðum Járnblendifélagsins er áætlað langtum lægra en það sem lagt er til grundvallar varðandi kísilmálmverksmiðjuna.

Ég hefði gjarnan viljað beina því til hæstv. iðnrh., að hann gerði grein fyrir hvaða rök lægju til þess, að nú skyldi það samband, sem hefur verið ríkjandi að undanförnu milli verðlags á þessum tveimur afurðum, skyndilega rofna með svo afgerandi hætti sem ætla mætti af þessum tvennum tölum og verðlag á kísilmálmi verða svona miklu hærra en það hefur verið áður, miðað við verðlag á járnblendinu.

Í sambandi við forsendur framleiðslu er því haldið fram í skýrslu Íslenska járnblendifélagsins, að nýjar og dýrar verksmiðjur búi almennt við hagstætt orkuverð. Hins vegar muni það stefna afkomu þessa fyrirtækis nokkuð á hála braut að hafa bæði hátt rafmagnsverð og mikinn fjármagnskostnað eins og hér virðist vera um að ræða.

Ég ætla ekki að svo komnu að fara fleiri orðum um þá umsögn sem kom frá Íslenska járnblendifélaginu. Hins vegar er ástæða til að beina nokkrum atriðum, sem fram koma í umsögn Seðlabanka Íslands, til hæstv. iðnrh. svo að hann geti svarað fyrir þau.

Það er þá fyrst, án þess að það komi kannske beinlínis mjög greinilega fram í umsögn Seðlabankans, að í umsögnum frá Rafmagnsveitum ríkisins og frá Landsvirkjun kemur fram að hætta sé á að það verði að skammta rafmagn til þessarar verksmiðju tvö fyrstu starfsárin. Þar er reyndar gert ráð fyrir að sú skömmtun verði óveruleg, ef m. a. takist að uppfylla það skilyrði, að Kröfluvirkjun verði starfrækt með 20 mw. afli, og í annan stað að ekki komi til annar verulegur orkunotandi á Norður- eða Austurlandi. Nú virðist manni að hér sé um nokkuð veigamiklar forsendur að ræða. Þess vegna hlýtur maður að spyrja í fyrsta lagi, hvort ekki geti verið mjög varasamt fyrir verksmiðjuna á fyrstu starfsárum sínum að lenda í orkuskömmtun af því tagi sem hér er varað við að geti verið yfirvofandi, og í annan stað að spyrja hæstv. iðnrh., hvort miklar líkur séu á því, að Kröfluvirkjun verði starfrækt með 20 mw. afli, og með hversu miklu uppsettu afli hún sé rekin um þessar mundir og hvernig árangurinn hafi verið af þeim borunum sem gerðar voru í sumar og hversu mikið hafi bæst við af afli nettó vegna þeirra aðgerða, frá þeim borholum sem boraðar voru í sumar. Þegar ég segi nettó á ég við það, að frá sé dregið það sem út hafi dottið ef eitthvað er. Mundi þá væntanlega skýrast hvað þurfi til að koma til að ná þessu markmiði. Væntanlega gerir hæstv. ráðh. grein fyrir því, hverjar horfur eru í þeim efnum.

Í annan stað er sterk ábending frá Landsvirkjun um það, að nauðsynlegt sé að Búrfellsvirkjun komi inn. Þar sem ekki hefur gefist tækifæri til að spyrja hæstv. ráðh. um það þætti mér rétt að heyra viðhorf hans á því máli, að hann geri grein fyrir því hér.

Í skýrslu Seðlabankans er sérstaklega fjallað um fjármálin. Verkefnisstjórnin fjallar nokkuð um áætlaða raunvexti og telur að raunvextir á alþjóðlegum lánamörkuðum í dag séu um 5–6% sem komi til samanburðar við áætlaða afkastavexti á verksmiðjunni, 10.4%. En jafnframt telur verkefnisstjórnin að þessir raunvextir séu með þeim hæstu sem hafi þekkst á undanförnum árum og líkur séu á að þeir þokist niður í 4% á næstu árum. Varðandi þetta mál telur Seðlabankinn rétt að benda á að í reynd hafi raunvextir farið mun hærra en verkefnisstjórn telur og réttari niðurstaða um raunvexti í dag sé sú, að þeir séu líklega á bilinu 6–10%, eftir því hvaða mælikvarðar eru notaðir. Þetta atriði skiptir auðvitað verulegu máli varðandi mat á afkastavöxtum verksmiðjunnar þegar þeir eru teknir til samanburðar, hvort menn eiga að gera ráð fyrir því, að raunvextirnir séu 5–6% eða 6–10%.

Það er sem sagt álit Seðlabankans og kemur hér fram, að forsendur verkefnisstjórnar varðandi vaxtakjör á lánum til verksmiðjunnar þurfi nánari athugunar við og þá vegna þess að vextir séu of lágt áætlaðir. Ég hefði gjarnan viljað heyra rökstuðning hæstv. ráðh. fyrir því, að óhætt sé að gera ráð fyrir svo lágum vöxtum sem gert er ráð fyrir í skýrslu verkefnisstjórnarinnar og gagnrýnt er af hálfu Seðlabankans, eða hvaða rök liggi til þess, að unnt sé að reikna með að fá fjárfestingarlán með 4% vöxtum — útflutningslán með 2% vöxtum er kannske frekar hugsanlegt — en síðar rekstrarlán með 5% vöxtum sem tekin væru eftir þörfum og endurgreidd eftir getu.

Ef litið er á þessi atriði verður að telja að hér hafi komið fram af hálfu þeirra aðila nær allra, sem leitað hafur verið umsagnar hjá, mjög alvarleg gagnrýni á undirbúning verksins og mjög ákveðnar ábendingar um að nánari athugunar sé þörf. Nú vil ég hins vegar segja að þegar það kemur fram í skýrslum, jafnvel þó að þær séu frá erlendum sérfræðistofnunum, að að fáeinum árum liðnum verði hagnaður fyrirtækis orðinn 20% af veltu, eins og kemur hér fram í skýrslum sem fram hafa verið lagðar, þá vekur það menn til umhugsunar um ýmsar aðrar skýrslur sem maður hefur séð fyrr, t. d. við undirbúning að verksmiðju við Grundartanga, þar sem svona háar tölur og jafnvel hærri voru sýndar. Það vekur til umhugsunar um það að hér er starfað á markaði þar sem gera verður ráð fyrir að þegar hagnaður verður mjög verulegur bætist við framleiðslueiningar þannig að þær háu hagnaðartölur, sem menn stundum geta reiknað út, séu kannske ekki eins auðfengnar og álíta mætti fljótt á lítið. Ég held að það sé þannig, að þegar til lengri tíma er lítið bætist verksmiðjur í röðina þegar hagnaður verður mikill, þannig að þá dregur úr hagnaði. Þetta tel ég rétt að menn hafi í huga. Þess vegna hefði ég haft sérstakan áhuga á að gætt væri að hver hefði verið hagnaður í þessari framleiðslugrein í gegnum tíðina, ef lítið er yfir lengra tímabil, 15–20 ár, til þess að menn gætu áttað sig á því, hvernig staða verksmiðja af þessu tagi er, ekki bara út frá augnabliksverði, ekki út frá spádómum um markaðsþróun, heldur út frá þeim raunveruleika sem menn hafa þurft að lifa við að undanförnu. Ég veit að ýmsar verksmiðjur í þessari grein hafa náð gífurlegum hagnaði á einstökum árum. En þær hafa líka tapað rösklega á ýmsum öðrum árum. Það er einungis með því að líta yfir völlinn til nokkuð lengri tíma sem menn geta gert sér góða grein fyrir því, hver hin raunverulega staða verksmiðjunnar sé þegar fram í sækir.

Nú hefur það orðið ofan á í hv. Nd. að breyta þessu frv. allverulega og ætlast til þess, að þetta mál komi til frekari umfjöllunar hér í þinginu áður en meiri háttar skuldbindingar verði á sig teknar. Ég tel að þetta hafi í sjálfu sér verið rétt stefna. En ég vil benda á að ýmsar þær rannsóknir, ýmsar þær athuganir, sem hugmyndin er að gera, eru í rauninni forsenda að frekari útreikningum og þeirri ákvarðanatöku og afstöðu til ýmissa efnisþátta sem aðrar greinar frv. snerta. Þessar rannsóknir eru að sumu leyti hönnunarforsendur eins og verkfræðingar, sem að þessu hafa staðið, hafa skýrt út. Þess vegna hefði verið langtum eðlilegra að dómi okkar Alþfl.-manna að afgreiða þetta með því móti sem fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. létu í ljós áhuga á fyrir tveim dögum ásamt fulltrúa Alþfl., með því að setja sérstaka undirbúningsstjórn á stofn til að vinna að þessu undirbúningsverkefni, en taka síðan frv. sjálft til umfjöllunar þegar niðurstaða af því lægi fyrir. Um það flutti fulltrúi Alþfl. í iðnn. Nd. tillögu í þeirri deild, en ég víl einungis ítreka á þessu stigi að mér sýnist það vera langum eðlilegri vinnuháttur.

Ég mun ekki fjalla nánar um þetta á þessu stigi, herra forseti, en taldi rétt að reifa hér nokkra þætti og beina fáeinum fyrirspurnum til iðnrh. þegar á þessu stigi, m. a. með tilliti til þess, hversu tími er naumur.