05.05.1982
Efri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4753 í B-deild Alþingistíðinda. (4567)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt við 1. umr. málsins að fara nokkrum almennum orðum um það. Hér er einn þáttur í því sem við höfum kallað aðgerðir til þess að hagnýta orkulindir landsins, einn þáttur í aðgerðum sem mjög hefur verið talað um á undanförnum misserum og árum og mér liggur við að segja að stjórnmálaflokkarnir hafi keppst við að lýsa yfir að væri þeirra stefna, þó að það sé harla misjafnt hver sú stefna er í raun. Hagnýting orkulindanna er fólgin bæði í byggingu orkuveranna og í því að koma upp stóriðju til hagnýtingar orkunnar umfram það sem hinn almenni markaður þarf. Ég skal ekki fara að ræða almennt um þessi mál, þau hafa verið rædd svo mjög að undanförnu. En þó að ég ætli ekki að fara að ræða um þessi mál vænti ég þess, að hæstv. ráðh. verði viðstaddur þessar umræður.

Gert er ráð fyrir að sú stóriðja, sem þetta frv. fjallar um, verði staðsett á Austfjörðum, á Reyðarfirði. Ég hef síður en svo nokkuð að athuga við þá staðsetningu. Ég vek athygli á því, að í þeim tillögum sem við sjálfstæðismenn höfum gert um byggingu orkuvera rís hæst tillaga okkar um að reisa orkuver í Jökulsá í Fljótsdal. Það er stærsta orkuverið sem rætt er um, 330 mw. Við sjálfstæðismenn höfum talið að til þess að fyrirætlanir um Fljótsdalsvirkjun yrðu að raunveruleika væri nauðsynlegt að koma upp stóriðju á Austfjörðum, og við höfum reyndar í tillögugerð okkar bundið þetta saman. Fljótsdalsvirkjun er fyrirhuguð 330 mw. í uppsettu afli þegar fullgerð er. (Iðnrh.: 45.) 45, segir hæstv. ráðh. Það munar ekki miklu þegar við erum að gera því skóna að þarna hefði þurft að vera um að ræða stóriðju sem hefði nýtt miklu meiri orku. En þegar ég segi það, þá þýðir það ekki að það séu rök gegn því átaki sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég verð því að segja það, að ég fagna því að þetta frv. er fram komið. Ég fagna hverju skrefi í áttina til aukinnar stóriðju, vegna þess að einungis með því að efla stóriðjuframkvæmdir gerum við mögulega hagnýtingu orkulinda landsins í ríkum mæli. En ég vil aðeins segja í sambandi við þetta frv.: Of lítið, of seint. Og það er einmitt það sem einkennir störf og stefnu hæstv. ríkisstj. í stóriðjumálunum. Það er of seint farið, of lítið aðhafst.

Mér þykir ástæða til að fara nokkrum orðum um vinnubrögð þau sem ég tel nauðsynlegt að viðhöfð séu við undirbúning slíks fyrirtækis sem hér er um að ræða. Ég sé að hæstv. forsrh. gengur nú til sætis síns. Ég yrði undrandi ef hann væri ekki í einu og öllu sammála því sem ég vil segja um þetta efni, því að hæstv. forsrh. hefur á sínum tíma haft forustu um undirbúning að stóriðju sem ég tel til fyrirmyndar. Nú skal ég ekki gerast of langorður um þetta og aðeins stikla á stóru.

Það, sem ég vil sérstaklega undirstrika, er að þegar um er að ræða slík stórátök sem stóriðjuframkvæmdir, þá er nauðsynlegt að ná sem víðtækastri samstöðu meðal allra flokka um allan undirbúning og alla framkvæmd svo þýðingarmikilla mála. Þessa hefur verið gætt alveg sérstaklega fram til þessa. Ég minni á það, að þegar álverið í Straumsvík var undirbúið vann að því máli m. a. nefnd sem skipuð var fulltrúum allra flokka í landinu, jafnt þáv. stjórnarflokka sem þáv. stjórnarandstöðuflokka. Þessi vinnubrögð eru ekki einungis til þess fallin að vanda alla gerð undirbúningsins sem best, heldur stuðla þau mjög að því að koma í veg fyrir að nokkur tortryggni skapist milli stjórnmálaflokka landsins varðandi þessi þýðingarmiklu mál. Þetta stuðlar að því, að allir geta lagt fram krafta sína til að vinna málinu gagn. Þannig var þetta þegar álverið var í undirbúningi. Ég vík að því, hvernig vinnubrögð voru þegar stofnun járnblendiverksmiðjunnar var til meðferðar undir forustu núv. hæstv. forsrh. og þáv. iðnrh. Þá var þess gætt að leiða saman til sameiginlegs átaks í því máli alla stjórnmálaflokka landsins.

Hefur verið slæm reynsla af þessum vinnubrögðum? Ég hef aldrei heyrt það. Ég hef aldrei heyrt nein mótmæli frá nokkrum manni eða nokkrum stjórnmálaflokki við þessum vinnubrögðum. En þessi vinnubrögð eru ekki höfð nú. Nú er unnið að undirbúningi þessara mála án þess að hafa flokka stjórnarandstöðunnar með í ráðum. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. iðnrh.: Hver er ástæðan fyrir þessu? Ég læt mér ekki koma til hugar að það hafi verið brugðið út frá þeirri venju, sem áður hefur verið fylgt í þessu efni, nema hæstv. ráðh. hafi talið sig hafa einhverja ástæðu. Og ég tel — og segi það afdráttarlaus, að við þm. eigum kröfu á að heyra af munni hæstv. ráðh. í þessum umr. hver ástæðan hafi verið fyrir þeim vinnubrögðum sem hann hefur viðhaft í þessu efni.

Þetta er um undirbúning málsins áður en það er lagt fyrir Alþingi. Ég sé ástæðu til að víkja nokkrum orðum einnig að vinnubrögðum í þessu máli eftir að frv. er lagt fram. Það er lagt fram síðla á þessu þingi. Auðvitað hefði verið miklu eðlilegra, svo ég tali nú ekki um æskilegra, að frv. hefði komið fram miklu fyrr á þinginu. En m. a. vegna þess, hve frv. þetta kemur seint fram, hefði verið sérstök ástæða til að viðhafa sérstök vinnubrögð hér á Alþingi við meðferð þessa máls, vinnubrögð sem venjulega er fylgt þegar um stórmál er að ræða, ég tala ekki um þegar þau koma fram seint á Alþingi og ætlast er til að þau séu afgreidd á sama þingi. Hver eru þessi vinnubrögð? Þau eru þau að viðkomandi nefndir beggja deilda hafi sameiginlega fundi. Það kann að vera að formaður iðnn. Nd. sé nú að hvísla því að hæstv. ráðh. hvers vegna ekki hafi verið sameiginlegir fundir í iðnn. þingsins. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi skýringu á því í þessum umræðum, hvers vegna þau eðlilegu vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð. Þetta mál er það umfangsmikið og það viðamikið að ekki þarf að ræða frekar um það hve þetta hefðu verið sjálfsögð vinnubrögð.

Nú kemur þetta frv. til kasta hv. iðnn. þessarar deildar að lokinni þessari umr. þannig að lítill tími er til stefnu. Það er þess vegna erfitt fyrir þá, sem fagna framkomu þessa frv. og fagna hverju skrefi sem má verða til að auka stóriðju í landinu að þurfa að fást við þetta mál á svo skömmum tíma sem nú er ætlað og hafa ekki fengið tækifæri til að fylgjast með störfum iðnn. í Nd.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um vinnubrögð varðandi þetta frv., en mun víkja að frv. sjálfu.

Þetta frv. er stjórnarfrv. þegar það er lagt fram, en nú má heita að það sé frv. meiri hl. iðnn. Nd. Við fáum hér í hendur gerbreytt frv. og í aðalatriðum nýtt frv. frá því sem hæstv. iðnrh. lagði fyrir Nd. Ég er ekki að segja þetta til lasts, því að breytingarnar, sem hafa orðið á frv., eru allar til bóta, frv. er miklu betra en þegar það var lagt fram. Það eigum við að þakka því starfi sem hefur verið unnið í hv. iðnn. Nd. Og þegar hv. iðnn. Nd. getur gert svona mikið, þá geta menn hugsað sér hvað hv. iðnn. Ed. hefði getað með meiri tíma til umráða.

Ég skal þá víkja að helstu breytingunum, sem mér þykir rétt að gera, til þess að við áttum okkur á því, hvað hefur verið að gerast í meðförum þingsins og hvers eðlis þetta frv. er sem við nú ræðum.

Í 3. gr. frv. er svo kveðið á að ríkisstj. sé heimilt að leggja fram allt að 25 millj. kr. hlutafé í félagið árið 1982. Þessa tölu, 25 millj. kr. hlutafé, var ekki að finna í stjórnarfrv. sem var lagt fyrir Nd. Þar var að finna tölu upp á 225 millj. kr. svo allmikil breyting er nú hér fólgin í. En þetta segir ekki nema hálfa söguna. Það er gert ráð fyrir að það séu einungis mjög takmörkuð viðfangsefni sem sé fengist við og þessu fjármagni sé varið til. Þegar það hefur verið gert skal gefa Alþingi skýrslu um starfsemi félagsins og athuganir. Það er þetta sem er svo þýðingarmikið, að það er aðeins mjög takmarkað sem á að gera áður en málið er á ný lagt fyrir Alþingi. Og það er ekki fyrr en Alþingi hefur samþykkt þá skýrslu — og málið eins og það liggur þá fyrir — sem heimilt er samkv. frv., sem við nú ræðum, að leggja fram 200 millj. kr. til viðbótar í hlutafé í þessu félagi um kísilmálmverksmiðjuna. Þegar hér er komið er gert ráð fyrir að tekið sé til við önnur framkvæmdaratriði að byggingu kísilmálmverksmiðjunnar. Það er ekki fyrr en Alþingi hefur tekið málið aftur til meðferðar. Þetta gerbreytir málinu frá því sem það var lagt fram af hálfu ríkisstj. Framhald málsins er í raun og veru tekið úr höndum ríkisstj. og sett í hendur Alþingis með þessu ákvæði. En staða Alþingis í þessu máli er á annan hátt allt önnur samkvæmt því frv., sem við nú ræðum, en hún var samkvæmt frv. ríkisstj. Samkv. frv. ríkisstj. var gert ráð fyrir að ríkisstj. skipaði stjórn fyrirtækisins. Einnig þetta vald er tekið úr höndum ríkisstj. með frv., eins og það nú liggur fyrir, og fengið í hendur Alþingi. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að stjórn fyrirtækisins sé kjörin á Alþingi með hlutfallskosningu. — Það er ekki að ófyrirsynju þegar ég segi að þetta frv. er ekki í meginatriðum frv. ríkisstj., heldur frv. meirihl. iðnn. Nd.

Ég vil þó víkja að einu atriði sem umtalsvert er. Það er naumast annað umtalsvert sem er eins í þessu frv. og í frv. sem ríkisstj. lagði fram. Það er ákvæði í 2. gr. frv. sem kveður svo á að ekki skuli minna en 51% af hlutafé félagsins jafnan vera í eigu ríkisins. Hér er komið að eignaraðild að þessu félagi. Og þá komum við að því máli sem á vissan hátt eða a. m. k. oft hefur verið mest deilumál varðandi stóriðjuframkvæmdir á Íslandi. Það er ekki langt síðan við ræddum þessi mál allítarlega sem oftar í þessari hv. deild. Þá áttum við hæstv. iðnrh. sérstök orðaskipti um þetta efni. Ég ætla ekki að fara að rifja þær orðræður upp eða hefja hér almennar umræður um eignaraðild að stóriðju á Íslandi, en ég vil aðeins undirstrika þá stefnu Sjálfstfl., að hann telur að í þessu efni eigi ekki að vera nein algild regla sem eigi að ná til allra stóriðjufyrirtækja sem kunna að verða stofnuð, um eignaraðildina eigi að fara eftir því hvað við sjálfir teljum að þjóni best íslenskum hagsmunum. Ef við metum það svo, að það þjóni íslenskum hagsmunum best að afla okkur áhættufjármagns í formi erlendrar eignaraðildar, þá eigum við að gera það. En ef það er ekki, þá eigum við að leitast við að hafa sjálfir sem mesta eignaraðild. Þetta er stefna okkar sjálfstæðismanna, að íslenskir hagsmunir ráði í þessu efni. Með tilliti til þessa verð ég að segja að það er ekki rétt að hafa ákvæði um það í þeim lögum, sem sett verða um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, að eignaraðild okkar Íslendinga megi aldrei vera minni en 51%. Ég hygg að það sé of snemmt að ákveða nokkuð um þetta efni á þessu stigi málsins. Það er viðurkennt, að það er margt sem þarf að athuga áður en eðlilegt er að taka bindandi afstöðu til þessa atriðis. Það er viðurkennt ekki einungis af — ef ég mætti orða það svo: höfundum þessa nýja frv., heldur er það viðurkennt af hæstv. iðnrh. sjálfum, vegna þess að hann mælir ekki á móti þessu frv. eins og það liggur fyrir. Hann mælir ekki á móti því, að fram fari gagngerðar athuganir áður en gengið er fullkomlega frá stofnun félagsins. Hann mælir með samþykkt frv. eins og það liggur nú fyrir. Hefur þá ekki ráðh. gætt þess, að eins og frv. liggur fyrir er eftir að athuga fjöldamörg atriði í framkvæmd þessa máls sem geta verið meira eða minna afgerandi um það, hver eignaraðildin á að vera. Ég verð því að segja að mér virðist hæstv. iðnrh. ekki vera sjálfum sér samkvæmur í þessu máli. En hvers vegna vill hann þá og stjórnarliðið, sem ber ábyrgð á þessu ákvæði, halda við það? ég leyfi mér að segja að það er fordild ein Það er fordild ein og í raun og veru — frá sjónarmiði hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. ef hún hefur þessa stefnu — alger óþarfi að taka það fram eins og gert er í 2. gr. frv., að eignaraðild Íslendinga megi aldrei vera minni en 51%. Hvers vegna er það óþarfi? Vegna þess að í 3. gr. frv. stendur að ef Alþingi samþykkti niðurstöður skýrslunnar, sem fyrir það á að leggja, þá hefur ríkisstj. heimild til að leggja fram allt að 200 millj. kr. hlutafé til viðbótar við 25 millj. Ríkisstj. hefur heimild samkvæmt frv., samkv. lögunum, ef þetta verður samþykkt, til að hafa eignaraðildina 100% í höndum Íslendinga, þó að þetta sé ekki tekið fram í 2. gr. Þess vegna kalla ég þetta ekki annað en fordild og þráhyggju af hálfu hæstv. iðnrh., sem ég veit að stendur fyrir því, að þessu ákvæði var ekki breytt til bóta eins og öðru sem breytt var í Nd.

Ég sagði áðan að iðnn. Ed., sem ég á sæti í, hefði lítinn tíma til að fjalla um þetta mál, of lítinn tíma. Hins vegar er rétt að taka það fram, að vegna þess hve frv. hefur verið breytt mikið í meðförum Alþingis frá því sem það var, þá er verkefni iðnn. þessarar hv. deildar að sjálfsögðu miklum mun auðveldara en það hefði verið ef við hefðum verið að leggja síðustu hönd á þetta verk í því formi sem ríkisstjórnarfrv. var þegar það var lagt fyrir hv. Nd. Nú erum við hér með annað frv., frv. meiri hl. hv. iðnn. Nd., og ég vænti þess, að það verði þess vegna möguleiki að afgreiða þetta frv. á þessu þingi ef hæstv. ríkisstj. grípur ekki til þeirra ráða að slíta þinginu svo fljótt að enginn tími verði til að viðhafa lágmarksathugun á frv. Þetta segi ég í vitund þess sem ég gat um í upphafi máls míns, að ég fagna hverju skrefi til aukinnar stóriðju í landinu.

En það er ekki nægilegt að koma upp stóriðju. Stóriðjan þarf að vera með þeim hætti að hún sé ekki reist á brauðfótum. Það þarf að vera traustur rekstrargrundvöllur undir fyrirtækjunum. Það liggur ekki enn þá fyrir í þessu tilfelli. Það virðast allir vera sammála um að mikla athugun þurfi á þessu máli áður en því verði slegið föstu. Það þarf að gera miklu nákvæmari markaðsathuganir en gerðar hafa verið. Það þarf að fara nánar yfir stofnkostnaðaráætlanir fyrirtækisins. Það þarf að gefa betri gaum að rekstrarkostnaði og öðrum slíkum þáttum. Það þarf að meta betur arðsemi og þjóðhagslega hagkvæmni þessa fyrirtækis. Ég lít svo á að við séum allir sammála um að nauðsyn sé að gera þetta. Við sjálfstæðismenn teljum að þetta sé nauðsyn, og það var ekki annað að heyra á formanni hins stjórnarandstöðuflokksins sem var hér áðan að ljúka máli sínu. Ég skil hæstv. iðnrh. þannig, að hann sé sammála því, að það hafi ekki verið ráð að samþykkja stjórnarfrv. eins og það var lagt fram í Nd., vegna þess að það hefði þurft að gera margar og margháttaðar athuganir frekar til þess að gætt væri þeirrar varfærni sem nauðsynleg er í slíku stórmáli sem þessu. Ég segi þetta með tilliti til þess, að hæstv. ráðh. hefur samþykkt og mælir með þeirri málsmeðferð sem þetta frv., sem við nú ræðum, gerir ráð fyrir.