06.05.1982
Neðri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4772 í B-deild Alþingistíðinda. (4577)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Frsm. minni hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það frv. til l. um fóðurverksmiðjur, sem lagt var fram af hæstv. landbrh. í Ed. fyrr í vetur, hefur ekki komið til Nd. í því formi sem það var lagt fram og er aðeins stuttur kafli úr því sem okkur er sendur hingað í hv. deild til þess að fjalla um og beiðst samþykktar á. Landbn. þessarar hv. deildar gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins og vil ég gera nokkra grein fyrir afstöðu minni hl. þegar það kemur nú til 2. umr.

Mér þykir rétt að geta um það hér í upphafi, að það mun hafa verið á árunum 1972–1973 sem sett var sérstök nefnd til þess að gera áætlun um uppbyggingu fóðurverksmiðja í landinu. Í henni áttu sæti menn annars vegar frá þeim fóðurverksmiðjum, sem þegar hafði verið komið upp, eða frá Landnámi ríkisins sem var umsjáraðili með þeim verksmiðjum, og að hinu leytinu frá Búnaðarfélagi Íslands. Ég held, að þessi nefnd hafi unnið mjög gott starf og hún hafi skilað — ég vil nú ekki segja nefndaráliti, en þó verður það sennilega kallað það. Þar voru ábendingar um það, hvernig skyldi staðið í framtíðinni að uppbyggingu slíkra verksmiðja. Það fyrsta, sem maður rekur augun í þegar yfir það er farið, er að eftir að nefndin hafði kynnt sér þær verksmiðjur, sem þá voru í gangi, kemst hún að þeirri niðurstöðu, að flest bendi til þess, að þessar verksmiðjur séu af þeirri rekstrareiningu sem sé ekki hin hagkvæmasta. Þeir leggja til að verksmiðjurnar verði stækkaðar til þess að geta skilað ódýrara fóðri og ódýrari framleiðslu. M. a. segja þeir: „Með hliðsjón af þessu leggur nefndin til, að þegar verði gerð áætlun um endurbyggingu verksmiðjunnar í Gunnarsholti þannig að eimingargeta hennar verði a. m. k. 10 tonn á klukkustund, sem svarar til ca. 4000 tonna framleiðslu og stefnt að því, að sú breyting geti orðið sem allra fyrst.“

Það var fljótlega horfið að þessum ráðum og verksmiðjan á Gunnarsholti stækkuð og endurbætt. Ég veit ekki til að neinn maður hafi dregið í efa að við þá aðgerð hafi rekstrarstaða þeirrar verksmiðju batnað mjög.

Þegar þetta frv. kom til 1. umr. hér í hv. deild sagði ég fáein orð og gat þess, að það væri tvennt, sem þyrfti að taka afstöðu til þegar skyldi setja niður nýja verksmiðju, og ég vissi ekki til að enn hefði verið gert upp hvora leiðina ætti að fara. Ég gat um að það yrði annars vegar að fara eftir því, að verksmiðjan væri sem best staðsett þannig að hráefnisöflunin, uppskeran af jörðinni, yrði sem öruggust bæði að því er snertir magn og gæði fóðursins. Ef eftir því væri farið alfarið yrði varla hjá því komist að ýmsir þeir, sem þyrftu að nota framleiðslu slíkra verksmiðja, yrðu að flytja framleiðsluna nokkuð langan veg og þannig yrði án verðjöfnunar um verulegt misræmi að ræða milli þeirra sem þyrftu á framleiðslunni að halda. Hins vegar er svo það, hvort á að fara þá leiðina að dreifa verksmiðjunum sem mest um landið til þess að jafna flutningskostnað á þennan hátt, en eiga þá yfir höfði sér að til geti komið misjafnlega örugg hráefnisöflun. Á þetta bendir þessi nefnd einmitt á þessum sama tíma. Nefndin lítur svo á að við staðsetningu nýrra verksmiðja þurfi framar öðru að taka mið af tveimur afgerandi þáttum: annars vegar ræktunaröryggi, fullnægjandi landstærð og vinnslutíma og á hinn bóginn markaðssvæðum og flutningaleiðum.

Í lok álits síns segir nefndin að hún telji rétt að unnið verði áfram að áætlunargerð um þessi mál og verði á þessu ári lögð aðaláhersla á að komast að því, hvaða stærð verksmiðju muni verða hagkvæmust hér á landi, og lokið verði við að gera 10 ára áætlun 1973–1974. Annað ártal er ekki á því plaggi sem ég hef hér, en það bendir til að nefndin hafi unnið fyrir þessi tímamörk.

Ég verð að segja að mér kom það nokkuð á óvart þegar ég sá frv. sem upphaflega var lagt fyrir Alþingi í vetur, að í því skyldi ekki vera komið neitt sem ég get kallað svo inn á þessa meginþætti sem ég var núna að benda á að nefndin hefði fjallað um. Mig furðar enn þá meira á því fyrir þá sök, að einn af nm. á þessum tíma, sem gefa út þetta nál., er núv. hæstv. landbrh. Ég er svo mjög sammála fyrra áliti hans í þessu efni að mér sýnist að það þurfi nauðsynlega að binda það í lögum, að hverju verði farið um stofnun og staðsetningu þeirra verksmiðja sem upp þarf að byggja, og ég hefði vænst þess, að þetta hefði verið sett inn í frv. Ég tel fulla þörf á að við það sé staðið og það sé gert, því að í aths. með þessu lagafrv. er getið um það, að áhugi og að nokkru leyti ákvarðanir séu um að reisa þrjár verksmiðjur í viðbót við það sem þegar hefur verið gert, þ. e. í Hólminum í Skagafirði, í Saltvík nærri Húsavík og í Borgarfirði. Við, sem nú sitjum á Alþingi, sjáum að komin er á borð alþm. till. um stofnun fjórðu verksmiðjunnar í Mýrdal.

Af þessari upptalningu um nýjar verksmiðjur, sem gert er ráð fyrir að koma upp eða menn hafa hugmynd um að reisa, verður ekki lesin nein stefna um það, hvora leiðina eigi að fara af þeim tveimur meginleiðum sem verður að velja um. Það er hvorki um að ræða, að þeim sé fyrst og fremst valinn staður með sem mestu öryggi vegna uppskerunnar né að þeim sé dreift þannig að það svari til sem hagkvæmastra flutningaleiða fyrir notendur framleiðslu þeirra. Á það sérstaklega við um verksmiðjuna sem till. er um að byggja upp í Mýrdalnum, því að þar eru aðrar verksmiðjur svo nærri að ekki er hægt að segja að gert sé ráð fyrir að dreifingarvandamál sé leyst með því að setja hana niður þarna.

Þetta frv., eins og það kom fyrir Alþingi í vetur, var sent til Búnaðarþings til umsagnar. Búnaðarþing samþykkti umsögn á þá leið, að það mælti með að ríkisstj. fengi heimild til að ríkissjóður tæki þátt í hlutafélögum um stofnun og rekstur graskögglaverksmiðja svo sem fram kemur í I. kafla frv. Auk þess segir svo í ályktun Búnaðarþings: „Hins vegar telur þingið, að önnur ákvæði frv. þurfi nánari athugunar við, og leggur því til að þau verði ekki lögfest. — Búnaðarþing vísar til ályktunar sinnar frá 1981 um eflingu fóðuriðnaðar og felur stjórn Búnaðarfélags Íslands og nefnd þingsins um fóðuriðnað að vinna að þessu máli áfram.“

Til þess að menn séu ekki í vafa um það, við hvað er átt hér, vil ég kynna þá ályktun, sem gerð var á Búnaðarþingi 1981. Hún er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Búnaðarþing leggur áherslu á, að nýta beri innlenda orku í fóðuriðnaði, og telur tilraunir á því sviði meðal brýnustu verkefna. Þingið vill minna á þá aðstöðu til notkunar jarðhita í þessu skyni, sem er við fyrirhugaðar verksmiðjur í Saltvík, Vallhólmi og í Borgarfirði, beinlínis með það fyrir augum að nota jarðhita til þurrkunar, sbr. þáltill. þar um. Auk þess telur þingið, að vernd gegn óhóflegum innflutningi á kjarnfóðri og auknar rannsóknir á þýðingu og hollustu grasköggla sem fóðurbætis ásamt glöggum leiðbeiningum um fóðrun séu m. a. forsendur fyrir því, að íslensk fóðurframleiðsla komi að verulegu leyti í stað innflutnings á fóðri. Þingið leggur til, að endurskoðuð verði lög um grænfóðurverksmiðjur frá 1971, og kýs þriggja manna nefnd til þess.“

Sem einn af stjórnarmönnum Búnaðarfélags Íslands hlýt ég að verða við ályktun og áskorun Búnaðarþings um að fela stjórn Búnaðarfélags Íslands að hlutast til um að nefnd þingsins um fóðuriðnað vinni að þessu máli áfram, og ég vinn að því með því að leggja til að þessu frv. verði að nýju vísað til ríkisstj. Ég tel að því sé svo áfátt í mörgu efni að fullkomin ástæða sé til þess að vinna það upp á nýtt og með fyllri hætti, það sé fyllilega, eins og ég sagði áðan, í samræmi við óskir þeirra, sem þessara verksmiðja eiga að njóta í framtíðinni, að gengið sé að því á nýjan leik að byggja upp þetta frv.

M. a. vil ég geta þess, að þó að hér sé gert ráð fyrir að þær þrjár verksmiðjur, sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um að einhvern tíma verði byggðar, noti jarðhita við þurrkunina, þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að það hefur í raun og veru ekki verið gerð nein tilraun með það, með hverjum hætti er auðveldast og áhrifaríkast að nýta jarðhitann til þurrkunar. Ég veit ekki til að það hafi verið bent á aðra leið en þá að nota bandþurrkara. Sú aðferð hefur þann reginannmarka að það, sem léttara er af því efni sem verið er að þurrka, liggur í dálitlu lagi yfir bandþurrkaranum og ofþornar á meðan hitt verður að vera lengur á bandinu til þess að þorna.

Ég furða mig nokkuð á því, að ekki skuli hafa verið gengið með alvarlegri hætti í það að gera tilraun með þurrkun sem væri eitthvað í átt við það sem notað er við kísilverksmiðjuna við Mývatn. Mér er sagt að það hafi tekið nokkurn tíma að komast niður á það, með hverjum hætti það yrði hagkvæmast. En ég veit ekki betur en það hafi orðið í góðu lagi.

Það er sjálfsagt eitt og annað sem mér sýnist að þyrfti að vera í þessum lögum umfram það sem hefur komist inn í frv., en nú má segja að það fjalli fyrst og fremst um það, að ríkisstj. sé heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags og við staðarvalið beri að hafa í huga aðstöðu til hráefnisöflunar, orkuöflunar og nálægð markaða. Síðan er gert ráð fyrir því, hvernig skuli skipa stjórn slíkra mála, slíkra verksmiðja, sem er með öðrum hætti en er í núverandi verksmiðjum.

Eitt er það þó sem ég veit til að þegar hefur verið ákveðið um eina verksmiðjuna sem ég tel að eigi að koma inn í frv. þegar það verður samþykkt, ef á annað borð á að halda sig við þá ákvörðun sem þegar hefur verið tekin. Og þá vil ég vitna til bréfs sem tveir hæstv. ráðherrar hafa skrifað 11. febr. s. l. Þar er í framhaldi af samningi um stofnun hlutafélags um byggingu og rekstur graskögglaverksmiðju í Vallhólmi í Skagafirði, þar sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður eigi 75% hlutafjár, það er nú ekkert um það í lögum, en aðrir hluthafar 25%, lýst yfir af hálfu ríkisins að ríkissjóður muni bera kostnað af rafleiðslum og spennistöðvum til að koma raforku miðað við 500 kw. spennistöð til verksmiðjunnar. Verður kostnaðurinn greiddur sérstaklega af framlögum á fjárl., sem veitt eru til verksmiðjunnar, og er sú greiðsla óháð hlutafjárframlagi. Ef þetta á að vera reglan, sem mér þykir einsýnt að gera ráð fyrir, álít ég að það eigi að koma inn í frv. um leið og önnur fjármögnun er þar ráðgerð.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar um þetta efni. Ég held að mönnum blandist varla hugur um að það er ástæða til að skoða þessi mál betur, og tillaga okkar í minni hl. er sú, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj.