06.05.1982
Neðri deild: 87. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4776 í B-deild Alþingistíðinda. (4579)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það blandast auðvitað engum hugur um það, að hér er um að ræða mikið mál sem skiptir landbúnaðinn verulega miklu máli, og einnig hitt, að fóðuriðnaðurinn í tengslum við landbúnaðinn á mikla framtíð fyrir sér. Einnig er það, eins og fram kemur í grg. með þessu frv. og aths. sem við það hafa verið gerðar, að feikilega miklir möguleikar eru í fóðuriðnaði við að bæta við þá framleiðslu sem fyrir er í landinu. Og ekki vil ég draga úr því, að sú almenna stefnumörkun, sem fram kemur í frv., er auðvitað jákvæð. Hitt hygg ég að sé aftur verra, að eins og þetta frv. kemur frá hv. Ed. eru á því feikilegir vankantar. Ég hygg að öllum séu þessir vankantar ljósir og þá einnig hæstv. landbrh. og að í ræðu sinni áðan hafi hann verið að gera tillögur um að framkvæmdin yrði með nokkuð öðrum hætti en lagagreinarnar gera ráð fyrir. Út af fyrir sig vil ég þakka það, með hverjum hætti hæstv. ráðh. tekur á þessu máli.

En við verðum samt að athuga með hvaða hætti þetta gerist. Þannig er að það er lagt fram í hv. Ed. fyrr í vetur frv. til l. um fóðurverksmiðjur, en þar segir svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélaga um eignaraðild og rekstur fóðurverksmiðja sem eru í ríkiseign.“

M. ö. o. er um að ræða allverulegar takmarkanir, þó svo að þetta sé, eins og það stendur þarna, óvenjulega vítt lagaákvæði, því að eins og segir í aths. með þessu frv. eru hér á landi starfræktar 5 grænfóðurverksmiðjur, þ. e. í Gunnarsholti á Rangárvöllum, Stórólfshvoli, Flatey á Mýrum, Saurbæ í Dalasýslu og í Brautarholti, en sú verksmiðja ein er ekki nú í ríkiseign. Síðan eru í undirbúningi þrjár verksmiðjur, í Skagafirði, í Suður-Þingeyjarsýslu og í Borgarfirði, og loks hefur sem 305. mál þessa þings nú nýverið verið lögð fram till. til þál. um slíka verksmiðju í Vestur-Skaftafellssýslu.

Eins og frv. var upphaflega flutt var um að ræða heimild til þess, að ríkisstj., — ég hygg að sé formlega rangt að vísu að tala um ríkisstj. í þessu sambandi, það mundi eiga að vera ríkissjóður, — en henni er heimilt að taka þátt í stofnun slíkra hlutafélaga um þær 4 verksmiðjur, sem fyrir eru og eru í ríkiseign, og lagaákvæðið hefði ekki verið víðara. Þó að svo hefði verið hefði hér verið um mjög vítt lagaákvæði að ræða.

En svo gerist það, að eftir 2. umr. í Ed. kemur brtt. frá 1. minni hl. n., þ. e. Jóni Helgasyni og Davíð Aðalsteinssyni, sem er samþykkt og þar segir svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. er heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélaga, sem eigi og reki fóðurverksmiðjur.“ M. ö. o. opnar þessi frvgr. upp allar gáttir, hún veitir ríkisstj. heimild til þess að taka þátt í stofnun hlutafélaga um hvaða fóðurverksmiðju sem vera skal í tíma og rúmi og óbundinni framtíð. Ég held að það segi sig alveg sjálft um frv. eins og þetta, að hv. Alþingi getur ekki látið svona frv. frá sér fara. Í fyrsta lagi væri það í hæsta mála óvenjulegt, svo að ekki sé meira sagt, en í annan stað er ekki hægt að framselja vald með þessum hætti. Við skulum aðeins taka eitt dæmi. Hér hefur verið flutt till. til þál. um graskögglaverksmiðju og gott og vel, það er venjulegur gangur þessa máls. Ef þessi tillgr. verður samþ., þarf ekki lengur á slíkri þáltill. að halda. Þá getur ríkisstj. upp á sitt eindæmi hafist handa og ekki bara í Vestur-Skaftafellssýslu, heldur í hverri einustu sýslu og hverjum einasta hrepp hringinn í kringum landið. Það eru engar takmarkanir á því, hversu stór hlutur ríkisins megi verða. Hann má verða allt að 100%. Það eru engar takmarkanir á því, hversu margar verksmiðjur hér sé átt við. Eins og frv. var lagt fram af ríkisstj. upphaflega og var nógu frekt, þá var það þó bundið við þessar fjórar verksmiðjur sem fyrir voru í ríkiseign. Ég er ekki alveg viss um að meiri hl. í Ed. hafi verið nákvæmlega ljóst, eins og vill gerast í þessum hröðu vinnubrögðum, hversu víðar og opnar heimildir menn voru að samþykkja.

Ég þykist geta sagt með nokkrum rétti, ekki síst eftir ræðu hæstv. landbrh. áðan, að það vakir auðvitað ekki fyrir honum eða ríkisstj. að nýta sér þessar galopnu heimildir eins og lögin gera ráð fyrir. Ég vil meta það og ekki vera að snúa út úr því með neinum hætti, enda engin ástæða til annars en að nálgast þetta með fyllstu kurteisi og meta það og skoða skjöl og gögn þar um. En málið er bara ekki svona einfalt. Þó svo þetta sé hugsun núv. hæstv. landbrh. og hann vilji eðlilega fá þessar heimildir sem fyrst til þess að geta gengið frá málum þar sem þetta horfir til vandræða nú um stundir, þá kemur auðvitað ríkisstj. eftir þessa ríkisstj., landbrh. eftir þennan landbrh., og allra handa breytt sjónarmið kunna að vera uppi í samfélaginu. Eins og hér er lagt til og ef þetta frv. yrði samþykkt, þá stæði í lögum þessi einfalda setning: „Ríkisstj. er heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélaga, sem eigi og reki fóðurverksmiðjur.“ — Það er án takmarkana, takmarkalaust. Ég segi fyrir mig og ég vil endurtaka það, að ég vil ekki vera að snúa út úr því, hvað vakir fyrir landbn., meiri hl. hennar, sem mælir með þessu frv., eða hæstv. landbrh. En ég vil segja það líka, að ég get ekki varið það fyrir samvisku minni að vera að veita um alla framtíð eða þangað til því verður breytt aftur svo opnar heimildir sem hér er um að ræða, hafandi ekki hugmynd um hverjir koma til með að framkvæma þetta í framtíð nær eða fjær. Ég vil undirstrika það og segi enn, ekki síst vegna ræðu hæstv. landbrh. áðan, að það er efalítið ekki þetta sem fyrir þeim vakir, það er ekki verið að biðja um þessar galopnu heimildir sem hins vegar frv. textinn hér gerir ráð fyrir.

Eins og málin standa núna er hér till. frá minni hl. hv. landbn., sem hv. 2. þm. Suðurl., Steinþór Gestsson, hefur mælt fyrir, um að vísa málinu til ríkisstj., sem þýðir auðvitað að það frv., sem hér er, nær ekki fram að ganga. Ég tel að það væri hin rétta meðferð á þessu máli, en undirstrika um leið það sem ég hef áður sagt, bæði um þessa atvinnugrein í heild sinni og svo hitt, að ég ber fulla virðingu fyrir því, hvað að baki þessu frv. býr. En að öðrum kosti og verði ekki um annað samkomulag, þá boða ég það að flytja brtt. við 3. umr. málsins þar sem dregið verði úr þessu opna ákvæði, eins og það stendur nú í 1. gr. frv., vegna þess að ég tel það með engu móti verjandi gagnvart skattgreiðendum í þessu landi að ganga svo frá þessu máli.

Ég vil enn vekja athygli á því, að eins og 1. gr. er, þ. e. án takmarkana hversu stór hlutur ríkisins á að vera, án takmarkana hversu margar þessar verksmiðjur kunna að vera, þá sé ég ekki betur en nákvæmlega í þessa veru séu hv. þm. Suðurl., nema hv. 2. þm. Suðurl., Steinþór Gestsson, þegar farnir að ganga á lagið að kynna mál. En verði þetta frv. samþ. eins og það nú stendur þarf enga slíka þál., þá er þetta ekki lengur mál Alþingis.

Á undanförnum vikum hefur hv. Alþingi verið að fjalla um eignaraðild ríkisins að atvinnufyrirtækjum, kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, sykurverksmiðju í Hveragerði, steinullarfyrirtæki fyrir sunnan eða fyrir norðan, og menn getur greint á í hverju einstöku tilfelli. Hinn eðlilegi gangur er auðvitað sá, að ef hugmyndir eru um annaðhvort breytta eignaraðild, þar sem horfið er frá algerri ríkiseign og yfir í hlutafétagsform eða að ríkið stofni og reisi verksmiðju af þessu tagi, t. d. í Vestur-Skaftafellssýslu, þá er auðvitað hinn rétti gangur sá, að hér á Alþingi sé fjallað um sérhvert slíkt mál þegar það kemur upp. En hér er ekki verið að leggja það til. Hér er verið að leggja það til að því er þennan tiltekna iðnað varðar, að því er fóðuriðnaðinn varðar, að Alþingi selji allt slíkt vald frá sér í hendur ríkisstj., hver sem hún er og hver sem gegnir hlutverki landbrh. sem eðli málsins samkvæmt hefði þá forustu um þennan þátt. Það er þetta sem gengur ekki. Það er þetta sem stjórnkerfislega fær ekki staðist. Það er ekki hægt að binda bagga á skattgreiðendur með þessum hætti, hafandi ekki hugmynd um, hversu mikið það fjármagn er sem til þessarar starfsemi á að renna. Það er þess vegna, herra forseti, sem ég tel rétt að taka undir með minni hl. landbn. um að málinu verði vísað til ríkisstj., en að öðrum kosti verður að setja mikilvægar takmarkanir inn í frv.

Hæstv. landbrh. gat um það, að þessi mál þyrfti að endurskoða í heild sinni, og hann boðaði það, að mér skildist, að ef guð lofaði mundu slíkar hugmyndir eða slíkt frv. verða flutt hér fljótlega á næsta þingi. Ein leið er til þess að tryggja að svo verði gert, ef það er talið nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. vegna stöðu einhverra örfárra verksmiðja sem hér er um að ræða. Það er að setja sólarlagsákvæði inn í þessi lög, þ. e. að þau taki gildi en falli úr gildi t. d. um næstu áramót. Það hefði í för með sér að það er gersamlega tryggt, að ný löggjöf sjái dagsins ljós. Það er svo Alþingis á þeim tíma að ákvarða með hvaða hætti það verður gert.

Herra forseti. Það stendur ekki til að halda uppi málþófi eða bregða fæti fyrir þetta mál á nokkurn hátt, en ég undirstrika það, að ég tel þetta mál vera stórhættulegt, eins og það er frá Ed. komið, og ítreka stuðning minn við það nál. sem fulltrúi minni hl. hefur mælt fyrir.