06.05.1982
Efri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4803 í B-deild Alþingistíðinda. (4591)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. iðnn. fyrir afgreiðslu hennar á frv. því sem hér er til umr., þó að ég eigi nú sæti í þeirri nefnd og hafi tekið þátt í þeirri afgreiðslu.

Það er rétt að taka það fram, að tveir nm., hv. 11. landsk. þm. og Þorv. Garðar Kristjánsson, rita undir nál. með fyrirvara. Við hv. þm. Egill Jónsson erum tveir af flm. frv. og eigum báðir sæti í hv. iðnn., en 3. flm., sem er hv. þm. Eiður Guðnason, á ekki sæti í nefndinni. En það er sammerkt um okkur alla, að við erum eftir atvikum ánægðir og samþykkir þessari afgreiðslu, en fyrirvarar okkar tveggja, sem eigum sæti í iðnn., er auðvitað sá, að heldur hefðum við kosið að frv. hefði verið afgreitt þannig að það hefði orðið að lögum á þessu þingi, eins og við væntum. Nú er útséð um að slík afgreiðsla geti orðið á þessu þingi svo að eftir atvikum erum við ánægðir með þá afgreiðslu sem iðnn. leggur til. Hvers vegna erum við ánægðir? Það er vegna þess að í þeirri yfirlýsingu, sem ríkisstj. hefur gefið um þetta mál, er tekið fram að ríkisstj. stefni að því að upphitunarkostnaður sambærilegs íbúðarhúsnæðis verði yfirleitt ekki meiri en gerist hjá nýjum og hagkvæmum hitaveitum. Þetta er grundvallaratriði í þessum málum og þetta er grundvallaratriði í því frv. sem við ræðum hér, því að sú viðmiðunarregla, sem frv. gerir ráð fyrir, um það hvað mismunur á upphitunarkostnaði megi vera mestur, miðar við að þessum tilgangi sé náð.

Þá er það mjög mikilvægt atriði annað, að því hefur verið lýst yfir af hálfu ríkisstj., eins og þegar hefur komið fram, að þær aðgerðir, sem ætlunin er að gera og miða í þessa átt, verði gerðar í síðasta lagi fyrir 1. ágúst n. k. Þetta er í samræmi við það sem kom fram í umr. utan dagskrár í gær, eins og hv. frsm. nefndarinnar hefur þegar getið um. Ég tók það fram, að þó að hér væri ákveðin dagsetning 1. ágúst væri talað um að því, sem gera þyrfti, yrði lokið fyrir 1. ágúst, og ég vænti þess, að það yrði sem fyrst fyrir þann tíma.

Í umr. utan dagskrár í gær þakkaði ég bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. iðnrh., sem tóku þátt í þeirri umr., fyrir þessa afstöðu. Ég leyfi mér að þakka ríkisstj. í heild skilning hennar og sérstaklega forsrh. hennar fyrir þetta.