06.05.1982
Efri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4803 í B-deild Alþingistíðinda. (4592)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð þar sem ég er einn af flm. þessa frv., en á ekki sæti í þeirri nefnd, sem um það fjallaði, eins og fram kom áðan hjá hv. 4. þm. Vestf.

Það er satt best að segja furðulegt hve hæstv. ríkisstj. hefur lengi þumbast við í þessu réttlætismáli. En því ber nú að fagna, að hún er nokkuð að hverfa þar frá villu síns vegar, því að eins og ég sagði við 1. umr. um þetta mál er vilji allt sem þarf í þessu efni. Þetta er tiltölulega einfalt mál aðeins ef vilji er fyrir hendi.

Í trausti þess, að meira sé að marka yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. í þessu efni, — það er kannske barnaleg trú, en ég leyfi mér að vona það engu að síður, — í trausti þess, að meira sé að marka yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. í þessu mikla hagsmunamáli fjölmargra Íslendinga en ýmislegt annað sem hún hefur sagt, þá finnst mér þessi afgreiðsla vera viðunandi eins og nú er í pottinn búið hér á hinu háa Alþingi þar sem tími er orðinn skammur. En sem sagt, ég treysti því og vona eindregið, að við þá yfirlýsingu, sem var gefin úr þessum ræðustól í gær, verði staðið. Með því verður vissulega fylgst.