06.05.1982
Efri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4804 í B-deild Alþingistíðinda. (4593)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hér er um að ræða geysilega mikilvægt mál eins og hefur verið margundirstrikað og ítrekað í umr. Það er alveg ljóst, að þegar til lengdar lætur verður örugglega byggðaröskun í landinu ef menn búa ekki nokkurn veginn við svipaðan upphitunarkostnað á íbúðarhúsnæði og raunar atvinnuhúsnæði einnig, þannig að hér er um að ræða ákaflega mikilvægt mál að mínum dómi. Ég skal stilla mig um að gera að umræðuefni hverjir ganga harðast fram í þessu máli, það er alltaf tækifæri til að ræða það, en ég vil sérstaklega fagna því, að tekist hefur í raun og veru allsherjarsamkomulag um málið í þinginu milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er ekki í hverju máli sem svo er, eins og kunnugt er, og þess vegna ástæða til að undirstrika það. Og þá verður að treysta því, að þó að stjórnarskipti verði og t. d. stjórnarandstæðingar komist til valda, þá haldi þeir við þá stefnu sem mörkuð hefur verið, þannig að það ætti að vera sæmilega tryggilega frá málinu gengið.