06.05.1982
Efri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4804 í B-deild Alþingistíðinda. (4594)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt svo sem fleiri hér að fagna afgreiðslu þessa máls frá þeirri nefnd, sem eins og að líkum lætur er þrungin bæði réttlæti og visku, ekki síst í viðhorfum sínum til frv. sem hér um ræðir. Ég varð þeirrar velvildar 1. flm. aðnjótandi þegar nokkru fyrir tilorðningu þessarar ríkisstj. að fá að verða meðflm. að máli þessu. Það var skömmu áður en núv. ríkisstj. var mynduð. Síðan má heita að við sérstakir áhugamenn um þetta mál höfum fengið mjög góðar undirtektir á þingi hverju um að nú yrði aflétt því ranglæti sem gilt hefur í sambandi við upphitun á íslensku íbúðarhúsnæði. En kvarnir guðdómsins mala hægt og stundum taka hinar raunverulegu efndir langan tíma, og vegna ummæla hv. þm. Eiðs Guðnasonar, sem ég lái honum að vísu ekki, í ræðu hans áðan leyfi ég mér að vekja athygli hv. þm. á því, að býsna langt er síðan og getum við fundið það í fornum bókum, að menn uppgötvuðu að ranglætið er vont, en það er slatti af því í gildi enn þá.