06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4807 í B-deild Alþingistíðinda. (4610)

149. mál, virkjunarframkvæmdir og orkunýting

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það fer ekki leynt, að nokkuð mismunandi skilning leggja menn í það sem hér verður væntanlega samþykkt. En ég vil taka það skýrt fram, að þegar farið verður að skýra það sem kann að vera ágreiningur um, þá verður auðvitað fyrst að líta á lögin um raforkuver frá s. l. ári, þá kemur þál., sem við erum nú að fjalla um, í þriðja lagi það, sem segir í nál. hv. atvmn., og í fjórða lagi þær bókanir, sem nm. hafa gert án þess að þær séu settar í sjálft nál., þar sem annars vegar er bókun, sem 6 nm. hafa samþykkt, og hins vegar bókun, sem einn nm. hefur staðið að. Ég er aðeins að benda hlutlaust á þessi túlkunaratriði þar sem þarf að hafa þau gögn til hliðsjónar sem ég nú rakti og hlýtur að gilda við sérhverja túlkun.

Það eru nú liðin þessa dagana rétt um sjö ár síðan þáv. iðnrh. boðaði til fundar á Blönduósi til þess að kynna hugmyndir um Blönduvirkjun sem lágu þá fyrir í öllum meginatriðum eins og nú stendur til að framkvæma. Ég lýsi sérstakri ánægju yfir því, að þetta mál skuli nú komast í höfn þótt það hafi tekið sjö ár að ná þessari niðurstöðu, og segi já.