06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4815 í B-deild Alþingistíðinda. (4617)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Við hv. 2. þm. Reykn. óskuðum eftir umr. utan dagskrár um svokallað álmál að gefnu tilefni þeirra blaðaskrifa og umræðna í fjölmiðlum sem átt hafa sér stað síðustu dagana, nú rétt áður en gengið var til fundar með fulltrúum Alusuisse og ríkisstj. Það er ekki að ófyrirsynju. Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir Íslendinga sem hér er um að ræða, og ég hlýt að hefja mál mitt með því að lýsa yfir vonbrigðum yfir því, að sá fundur, sem nú er um garð genginn milli fulltrúa Alusuisse og iðnrh. og fulltrúa iðnrh., hefur ekki borið árangur. Þetta var fundur með iðnrh. og fulltrúum hans og fulltrúa Alusuisse. Það kann að felast í þessu nokkur skýring á því, að fundurinn varð árangurslaus.

Hæstv. iðnrh. komst svo að orði, að hann hefði lagt fram miðlunartillögu á þessum fundi, en henni hefði verið hafnað. Nú birtist í dagblaðinu Tímanum í morgun, að því er ég hygg, frásögn frá hæstv. samgrh. og sjútvrh., að hæstv. iðnrh. hefði ekki lagt fram nein skrifleg gögn sem hann hygðist leggja fyrir viðræðuaðila á þeim fundi sem nú væri nýafstaðinn. Ég hlýt því að bera fram þá spurningu annars vegar til hæstv. forsrh. og hins vegar til hæstv. sjútvrh., hvort þessi miðlunartillaga hafi verið lögð fram í ríkisstj., hvort þessi miðlunartillaga hafi verið lögð fram í svokallaðri ráðherranefnd sem fjallar um þetta mál og opinber hefur verið gerð. Hana skipa eins og kunnugt er hæstv. forsrh., hæstv. sjútvrh. og hæstv. iðnrh.

Hæstv. sjútvrh. hefur sem sagt lýst því yfir í dagblaði nú í dag, væntanlega í viðtali sem tekið var í gær, að engin skrifleg gögn hafi verið lögð fram af hálfu iðnrh. fyrir þennan fund með fulltrúum Alusuisse.

Nú skal ég bíða með að leggja mat eða dóm á slíkar starfsaðferðir þangað til ég heyri svar ráðh., en hlýt í framhaldi af þessu að lýsa furðu minni á vinnubrögðum hæstv. iðnrh. í þessu máli frá fyrstu byrjun og til þessa dags. Eins og kunnugt er hófst þetta mál með því, að hæstv. iðnrh. kvað upp úr með það opinberlega, að Alusuisse hefði gerst sekt um sviksamlegt atferli og dregið sér hækkun á súrálsverði í hafi sem næmi um 47 eða 48 millj. dollara. Þessi ákæra var borin fram af hálfu hæstv. iðnrh. um það bil viku eftir að hann taldi hagkvæmasta virkjunarkost okkar Íslendinga að loka álverinu í Straumsvík.

Í kjölfar þessarar ákæru taldi hæstv. ráðh. auðvitað eðlilegt að gerðar yrðu ráðstafanir til þess, að við Íslendingar næðum rétti okkar, og vitaskuld var það mikil nauðsyn ef við hefðum verið féflettir eins og ráðh. vildi ætla. Við höfum engan dóm lagt á það, hvort ásakanir hæstv. iðnrh. ættu við einhver rök að styðjast eða ekki, en við í Sjálfstfl. höfum krafist þess, að málið væri upplýst og sakir hæstv. iðnrh. annaðhvort sannaðar eða afsannaðar, hið rétta ætti að koma í ljós.

En hæstv. iðnrh. var alls ekki tilbúinn í des. 1980 að taka upp viðræður við Alusuisse eða forsvarsmenn ÍSALs um ákæruatriðin. Hann sagði að hann þyrfti að bíða nokkurra gagna frá endurskoðunarfyrirtæki, og þegar ÍSAL eða Alusuisse svaraði ásökunaratriðunum í fyrstu umferð í febrúarmánuði 1981 var hæstv. iðnrh. alls ekki tilbúinn að fylgja sakargiftum sinum eftir. Nei, hann þurfti enn þá að bíða. Og það er á almannavitorði, að það gengu fram og aftur á milli iðnrn. og endurskoðanda, sem fenginn hefur verið bæði fyrr og nú til þess að fara yfir samskipti ÍSALs og Alusuisse, uppköst að greinargerðum endurskoðunarfyrirtækisins, og það var ekki fyrr en á miðju sumri sem hæstv. iðnrh. var tilbúinn að ræða við Alusuisse um sakargiftir sem hann hafði borið fram í desember árið áður. Viðræðufundir hafa eingöngu verið haldnir tveir í raun og veru í ágúst og í desember.

Fyrir ágústfundinn óskaði hæstv. iðnrh. eftir að þingflokkarnir skipuðu fulltrúa í viðræðunefnd til þess að fjalla um þessi mál. Sjálfstfl. taldi það eðlilegt, en lagði umfram allt áherslu á að málið yrði upplýst til fulls og sakargiftirnar kannaðar til botns. Þegar hér var komið sögu var svokölluð hækkun í hafi lækkuð úr 47–48 millj. dollara í 16–18 millj. dollara og enn með nokkrum fyrirvörum.

Sannleikurinn er sá, að það hefur engin áhersla verið lögð í störfum viðræðunefndar starfsmanna iðnrn. eða af hálfu hæstv. iðnrh. engin viðleitni frammi höfð sem alvarleg getur talist að komast til botns í þessum ákæruatriðum og leiða hið sanna í ljós. Það verður ekki dregin önnur ályktun af þessum starfsaðferðum en að tilgangi hæstv. iðnrh. hafi verið náð bara með því að kasta sakargiftunum á loft. En ég legg áherslu á að það er ekki fullnægjandi frá mínu sjónarmiði. Það er í raun og veru eðlileg forsenda fyrir því, að við getum náð fram því sem máli skiptir, hækkun á raforkuverðinu, að hið sanna komi fram. Við skulum leggja til hliðar, að forsvarsmenn Alusuisse taka óstinnt upp að vera sakaðir um sviksamlegt atferli og láta básúna það út í fjölmiðlum hérlendis og um heim allan þar sem þeir hafa starfsemi. Við getum út af fyrir sig sagt að það getum við látið okkur í léttu rúmi liggja. En þetta er samt sú fyrirbára sem þeir forsvarsmenn bera fyrir sig um það, að þeir geti ekki sest niður við samningaborð og farið að ræða um endurskoðun einstakra samningsákvæða, að þeir geti það ekki fyrr en sakargiftir hafa verið upplýstar til fulls og annað tveggja leitt í ljós: sannleiksgildi þeirra eða Alusuisse sé saklaust af ákærunum.

Nú er um þetta að segja, að þótt við getum látið okkur í léttu rúmi liggja þessa afstöðu Alusuisse eða óþarfi sé að vera viðkvæmir hér á landi fyrir orðstír þess fyrirtækis, þá skuldum við samt gagnaðila, samningsaðila, þá sanngirni að bera hann ekki röngum sakargiftum eða a. m. k. að sanna þær sakargiftir sem bornar eru á borð. Ég býst við því, að allir Íslendingar geti tekið undir það, að slík mál beri að upplýsa. En auk þess sem það er skylda að upplýsa slík mál, þá er það eðlileg forsenda fyrir því, að við getum endurskoðað samningsákvæðin efnislega, bæði raforkuverðið, en þó einkum það ákvæði samningsins sem fjallar um skattgreiðslur og skattskyldu Íslenska álfélagsins og hvernig skattur skuli reiknaður af starfsemi og rekstri Álfélagsins. Til þess að koma í veg fyrir að Alusuisse eða Íslenska álfélagið geti skotið fjármunum undan skatti þurfum við að vita með vissu, hvernig þessu máli er háttað, til þess að setja undir lekann, að slíkt geti ekki endurtekið sig í framtíðinni hafi það gerst í fortíðinni. Tregða hæstv. iðnrh. að upplýsa málið er óskiljanleg, nema þessi tregða sé túlkuð eins og ég gat um áðan, að í raun og veru sé það ekki aðaláhugamál hæstv. iðnrh. að ná fram hækkuðu raforkuverði eða endurskoðun samningsákvæða okkar Íslendingum í vil, heldur sé þetta áróðursbrella hæstv. iðnrh., í því skyni frammi höfð að skapa tortryggni hér innanlands á frekari samvinnu við erlenda aðila í stóriðjuframkvæmdum, sem eru grundvöllur orkuframkvæmda, og enn fremur að það sé tilgangur hæstv. iðnrh. að skapa tortryggni erlendra aðila varðandi samstarf við Íslendinga. Þess vegna verður á þessum vettvangi að lýsa ábyrgð á hendur hæstv. iðnrh. að hafa ekki náð fram neinum árangri varðandi hækkun raforkuverðs eða endurskoðun annarra samningsákvæða. Það er auðvitað ekki vænlegt til árangurs að hafa uppi fyrst ásakanir og sakargiftir og ætla að berja gagnaðila til þess að setjast niður við samningsborðið og fá einhvern árangur fram með þeim hætti. Það er ekki vænlegt að berja menn til ásta með þessum hætti, ef svo mætti að orði komast. En ég ítreka og endurtek að þessu leyti, að ég hef aldrei lagt neinn dóm á það, hvort sakargiftir iðnrh. eru réttar eða ekki. Aðalatriðið er að upplýsa þær til fulls.

Nú fólst það í sakargiftum hæstv. iðnrh. í des. 1980, að um sviksamlegt atferli væri að ræða. Eftir annan viðræðufundinn milli viðræðunefndar og fulltrúa Alusuisse var haft útvarpsviðtal við formann viðræðunefndarinnar, Vilhjálm Lúðvíksson, og í þessu útvarpsviðtali hygg ég að fram hafi komið að að áliti formanns viðræðunefndar og viðræðunefndarmanna væri ekki um sviksamlegt athæfi að ræða, en það væri ágreiningur um lagalega túlkun á samningunum og hvort eftir samningsákvæðum hefði verið farið. Nú vil ég þess vegna spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann telji í dag eftir umfjöllun málsins, eins og hann taldi í des. 1980, að um sviksamlegt atferli hafi verið að ræða hjá Alusuisse eða ekki. Ég vil enn fremur varpa þessari sömu fsp. bæði til hæstv. forsrh. og hæstv. samgrh. Ástæðan til þess, að ég varpa fram þessari fyrirspurn, er sú, að ég hygg að þarna sé um grundvallaratriði að ræða til þess að við náum einhverjum árangri í samningsviðræðum um hækkað raforkuverð og endurskoðun annarra samningsákvæða.

Ég les það af gögnum málsins, sem hæstv. iðnrh. hefur látið viðræðunefnd fá í hendur og ég tel ekki trúnaðarbrot að skýra frá hér, að það sé forsenda af hálfu fulltrúa Alusuisse að teknar séu til baka ákærur um sviksamlegt atferli af þeirra hálfu eða lýst sé yfir að ekki sé um sviksamlegt atferli af þeirra hálfu að ræða. Ég er ekki að biðja neinn ráðh. um að lýsa þessu yfir ef þeir eru sannfærðir um að um sviksamlegt atferli hafi verið að ræða. En séu þeir komnir að þeirri niðurstöðu, að svo sé ekki, þá er það útlátalaust og sjálfsagt að það komi í ljós, ef það er réttur skilningur og mat, að þessi ásökun sé ein meginfyrirstaðan að áfram sé hægt að vinna efnislega að hagkvæmri niðurstöðu deilunnar okkur Íslendingum til handa.

Hvort sem væri um að ræða ákæru eða skoðun um sviksamlegt atferli eða ekki, þá er auðvitað alveg ljóst að það verður að fást botn í þetta deilumál og upplýsa það hvorum megin rétturinn er. Samningarnir eru þannig úr garði gerðir, að við getum fengið úrskurð með því að skjóta ágreiningsefnum í gerðardóm. Í þessu efni er alveg ljóst að ágreiningsmál varðandi tímabilið 1975–1979 eru þess eðlis, að þeim hljóta Íslendingar að þurfa að skjóta fyrir gerðardóm ef samkomulag um sameiginlegt málskot kemst ekki á. Varðandi árið 1980 er á sama hátt alveg ljóst að Alusuisse verður að skjóta þeim ágreiningi fyrir gerðardóm. Það er að vísu ekki alveg nauðsynlegt að samkomulag náist til þess að gerðardómur kveði upp sinn úrskurð og því vil ég spyrja: Telur iðnrh. nauðsynlegt að samkomulag náist um málskot til gerðardóms svo að málið upplýsist með þeim hætti, ef útilokað er að upplýsa það með sameiginlegri rannsókn og viðræðum, sem ég tel að hafi alls ekki verið gerð sú tilraun til sem skyldi.

Hæstv. iðnrh. sagði áðan að samkomulag hefði ekki tekist um að skjóta deiluefninu fyrir gerðardóm. Ég vek athygli á því, að það þarf ekkert samkomulag að þessu leyti. Hvor aðili getur skotið málinu til gerðardóms. Og það ber auðvitað að gera ef til þrautar hefur verið reynt með viðræðum að ná samkomulagi um niðurstöðu deiluefna og deiluþátta. Ég ítreka og endurtek að ég tel að engin alvarleg tilraun hafi verið gerð í þessu efni í viðræðum á milli aðila, og byggi ég það m. a. á þeim plöggum sem ég hef séð fara í gegnum hendur viðræðunefndar.

Þá er ég kominn að því að gagnrýna mjög harðlega meðferð hæstv. iðnrh. að því er snertir þátt viðræðunefndarinnar sem skipuð var á s. l. sumri. Allir þingflokkar skipuðu fulltrúa í þessa nefnd, en í raun hefur viðræðunefndinni, þótt hún hafi haldið 40 fundi, verið haldið meira og minna fyrir utan þetta mál. Þegar komið var að ákvörðunum eða komið var að viðræðufundum, að ég tali ekki um viðræðufundum milli hæstv. iðnrh. og fulltrúa Alusuisse, þá hefur engin alvarleg umræða í raun átt sér stað um stefnumótun og hvernig halda skyldi á málstað Íslendinga á næsta viðræðufundi. Ég vil t. d. taka það fram og held að ég upplýsi engin leyndarmál í því sambandi, að eftir viðræðufund hæstv. iðnrh. og fulltrúa Alusuisse í marsmánuði s. l. lágu fyrir tvö skjöl, annað frá fulltrúa Alusuisse, hitt frá iðnrh. Þessi skjöl greindu frá miklum skoðanaágreiningi. En síðan ekki söguna meir til þess að ná samkomulagi eða undirbúa jarðveginn fyrir samkomulag þegar viðræðufundur nú í byrjun maí er haldinn. Þess vegna var e. t. v. ekki von að mikið ynnist á einum degi eða tæpum degi sem þessi viðræðufundur stóð. Ég held að ef milliríkjasamningar væru reknir með þessum hætti mundu aldrei nást neinir samningar í ágreiningsmálum. Auðvitað var skylt af beggja aðila hálfu að kanna hvern einstakan ágreiningsþátt, hvert einstakt ágreiningsatriði, með því að fulltrúar deiluaðila ræddu hvor við annan og undirbyggju fund hæstv. ráðh. og fulltrúa Alusuisse. Það var ekki gert. Það er haldið kæruleysislega á þessu máli sem svo miklu varðar hagsmuni Íslendinga. Eina skýringin er sú, að menn óska ekki eftir í raun að ná samkomulagi.

Ég vil svo víkja að þeim hugleiðingum sem uppi hafa verið um það, að við ættum að eignast hlut í ÍSAL og meirihlutaeign. Um þau efni vitnar hæstv. iðnrh. í samþykkt ríkisstj. frá því s. l. sumar og frá 26. febr. 1982. Ég hef út af fyrir sig ekki aths. að gera við þá þætti samþykktarinnar, að vangoldnir skattar séu greiddir af starfseminni í fortíðinni. Það er sjálfsagt mál. En til þess þarf auðvitað að upplýsa málið. Þá er og sjálfsagt að endurskoða ákvæði varðandi framleiðslugjaldið og síðast en ekki síst að endurskoða raforkuverðið. En ég hef aths. að gera varðandi þær samþykktir sem snúast að því, að við Íslendingar eigum nú að leggja megináhersluna á að ná meirihlutaeign í álverinu. Þar var hæstv. forsrh. líka langtum varfærnari en hæstv. iðnrh.

Ég er sammála hæstv. forsrh. að meginatriðið sé að fá hækkun á raforkuverði, enda hefur það komið fram í máli mínu. En hæstv. forsrh. taldi nauðsynlegt, að Íslendingar eignuðust hlut í fyrirtækinu til að fylgjast með starfsemi þess, taldi að reynslan hefði sýnt að það væri nauðsynlegt. Nú vil ég minna á að samkv. samningum skipar íslenska ríkisstj. 2 af 5 stjórnarmönnum ÍSALs og getur að því leyti fylgst með málum, en þeir stjórnarmenn eiga auðvitað kröfu á vitneskju um alla þætti starfsemi ÍSALs, sömuleiðis aðgang að öllum skjölum og gögnum fyrirtækisins eins og stjórnarmenn í hlutafélögum hafa. En hæstv. forsrh. nefndi að það skyldi stefnt að verulegri eignaraðild og síðar meirihlutaaðild. Ég tel að það hljóti að fara eftir mati hverju sinni, hve hratt verði gengið í það að framkvæma slíka stefnu, og í framtíðinni tel ég eðlilegt að þróunin á Íslandi verði sú sem reynslan hefur orðið í Noregi, að við eignumst meirihlutaaðild í fyrirtækinu eða fyrirtækið allt. Hins vegar hygg ég að það sé ekki lausnarorðið varðandi þessa deilu eða varðandi hækkun raforkuverðs. Það er spurningin um það, hvað gefur okkur mest í aðra hönd, þegar á heildina er lítið, í raforkuverði og skattgjöldum af rekstri álversins, hvort fyrirtækið er að meira eða minna leyti í höndum Íslendinga. Og eins og nú standa sakir er enginn ávinningur í því að eignast álverið að meiri hluta til eða að fullu og öllu leyti ef ekki á sér stað stækkun álversins um leið.

Ég get vel hugsað mér og tel rétt að stefna að því að eignast hluta og eftir því sem tímar líða fram meiri hluta í ÍSAL með því fororði að við stækkum álverið, aukum framleiðslu álversins og rekum fyrirtækið með hagnaði sem stæði undir þeim skuldbindingum sem við undirgengjumst við það að taka lán eða greiða af hendi kaupverð álversins að einhverju eða öllu leyti. Það er svo nú, að ekki eru taldar til íslenskra skuldbindinga eða erlendra skulda Íslands þær skuldir sem ÍSAL þarf að standa skil á þar sem Alusuisse er ábyrgt fyrir greiðslu þessara skulda. Nú skuldum við 40% af þjóðarframleiðslu í erlendum skuldum. Nú greiðum við 20% af tekjum okkar í gjaldeyri í afborganir og vexti af erlendum skuldum. Ég tel óráð að bæta við þennan skuldabagga án þess að auka gjaldeyristekjur okkar um leið. En meðan svo óvíst er um afkomu álversins er alveg ljóst að við aukum ekki gjaldeyristekjurnar, heldur töpum af gjaldeyristekjum því sem fólgið er í framleiðslugjaldi og ef fyrirtækið er ekki þess megnugt að greiða raforkuna fullu verði eða jafnvel því lága verði sem nú gildir. Þess vegna er aðalatriðið í sambandi við eignaraðild að stækkun álversins eigi sér stað um leið, í von um auðvitað að álmarkaðurinn verði betri og álverðið hækki. Ég held einnig að þetta sé leið til þess að sannfæra Alusuisse um að rétt sé að hækka raforkuverðið. Stækkun álversins í Straumsvík er hagkvæmasti kostur okkar í orkufrekum iðnaði vegna þess, hve margir nauðsynlegir þættir eru þar fyrir, gagnstætt því að reisa verður allt af grunni ef um álver er að ræða sem byggt er á nýjum stað. Þess vegna gæti það verið einmitt tæki til þess að fá fram hækkað raforkuverð að leggja áherslu á stækkun átversins, og þá tel ég mjög koma til greina að við Íslendingar tækjum þátt í slíkri stækkun, hvort heldur er einir með Alusuisse eða með Alusuisse og þriðja aðila eða breyta um eignaraðila algerlega. Ég legg engan dóm á þá þætti á þessu stigi málsins.

Hins vegar hlýt ég að nefna þann leikaraskap sem uppi er hafður þegar flaggað er með einhverjum plöggum sem gefi til kynna að hér standi menn í biðröðum og vilji borga kostnaðarverð raforku og alla framleiðslu álversins og tryggja okkur ábót. Þau plögg, sem ég hef séð um þetta, eru óundirrituð og óskuldbindandi og mun minna virði við fljótan yfirlestur en þau gögn sem lögð voru fram í sambandi við frv. um kísilmálmverksmiðjuna, en þau áttu að sýna að það væri búið að selja 70% af framleiðslu væntanlegrar kísilmálmverksmiðju. Það var fjarri lagi að það væri mat iðnn. Nd., að þau gæfu það til kynna. En þau plögg, sem fjalla um áhuga erlendra aðila á eignaraðild eða lánveitingum til Íslendinga til að eignast álverið í Straumsvík, eru enn þá minna virði. Svo mikið tel ég mig hafa rétt til að segja á þessu stigi málsins. Hitt er svo allt annað mál, að auðvitað er ég sammála því, að við leitum samstarfs við erlenda aðila um að reisa og reka orkufrek iðnfyrirtæki hér á landi. Og það er gaman í raun og veru að hæstv. iðnrh. virðist hafa breytt um skoðun að þessu leyti. Hann, sem mátti ekki við erlenda aðila tala eða hugsa til samvinnu við erlenda aðila á þessu sviði, sýnist vera kominn á kaf í makk við erlenda aðila. Ég vil minna hv. þm. á það, að í dag var felld till. frá okkur sjálfstæðismönnum — og Alþfl.-menn tóku undir þá till., að skipa stóriðjunefnd sem ynni stöðugt að því verkefni að leita samvinnu við aðila um orkufrekan iðnað á Íslandi. Þessi till. var felld. Við sjálfstæðismenn viljum færa þetta starf inn í þingið, en við treystum ekki privatnefnd hæstv. iðnrh. til að fjalla um þessi efni.

Hæstv. iðnrh. taldi sig hafa samvinnu við aðra þingflokka úr stjórnarandstöðunni í þessu máli. Hann hefur ekki gert það nema þegar honum hentar, og við höfum fundið að því við hæstv. iðnrh., að hann hefur notað svokallaða viðræðunefnd sem skálkaskjól, en ekki sýnt viðleitni til þess að vinna með stjórnarandstöðunni af heilindum, síður en svo. Hann hefur ekki nefnt eitt orð síðan í sumar við stjórnarandstöðuna um hvernig á málum skyldi haldið, og það hefur orðið til þess, að við sjálfstæðismenn höfum fundið sérstaklega að því.

Það er vissulega ástæða til þess að ræða þessi mál mun ítarlegar og betur, en hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. hafa skýrt frá því, að mál þetta verði til umr. í ríkisstj. Ég geri þá kröfu, að stjórnarandstaðan fylgist með þessu máli og aðgerðum í þessu máli og hafi þannig tækifæri til þess að setja fram sína skoðun, og vísa að því leyti til ályktunar þingflokks sjálfstæðismanna frá 20. júlí s. l. þar sem farið er yfir málaþætti í meginatriðum.

Ég ítreka svo spurningar mínar til hæstv. ráðh., forsrh., sjútvrh. og iðnrh.: Var miðlunartillagan, sem iðnrh. lagði fram á viðræðufundinum við Alusuisse nú í dag, rædd í ríkisstj. eða ráðherranefnd áður en iðnrh. lagði hana fram á viðræðufundinum? Enn fremur spurði ég þessa ráðh. hvort þeir teldu að um sviksamlegt atferli væri að ræða hjá Alusuisse varðandi þær deilur og þær ásakanir sem á það fyrirtæki hefðu verið bornar. Og ég spyr sérstaklega hæstv. forsrh. að því, hvort hann sé sama sinnis og í sjónvarpsviðtali í marsmánuði s. l., þar sem hann aðspurður sagði að ekki væri um sviksamlegt atferli að ræða. Ég held að svar við því geti opnað eftir atvikum leið að lausn þessa máls. Ég er ekki að biðja ráðh. um að segja annað en hver þeirra skoðun sé. En ef þeirra skoðun er sú, að hér sé ekki um sviksamlegt atferli að ræða, þá hygg ég að unnt sé eða ætti að vera unnt að ná árangri í hækkunum á raforkuverði og endurskoðun á samningnum í samræmi við hagsmuni okkar Íslendinga.

Og að lokum, herra forseti: Við leggjum auðvitað öll, allir þm., áherslu á að ná fram árangri í hækkun raforkuverðs. Það er meginatriði þessa máls sem og að koma í veg fyrir slíkar deilur í framtíðinni sem átt hafa sér stað nú undanfarna mánuði og staðið í eitt og hálft ár og dregið þetta mál á langinn.