06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4826 í B-deild Alþingistíðinda. (4620)

Umræður utan dagskrár

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég tel að hæstv. iðnrh. hafi haldið illa á spilum í þessu máli frá byrjun. Hann taldi á sínum tíma að Alusuisse hefði stórlega brotið samninga sína við Íslendinga. Hafi þetta verið rétt að einhverju eða öllu leyti, sem ég í sjálfu sér dreg ekki í efa, það á eftir að koma í ljós, þá átti hæstv. ráðh. auðvitað að nota þessa vitneskju til að þvinga fram endurskoðun á raforkuverðinu svipað og fyrrv. iðnrh., hæstv. núv. forsrh., gerði árið 1976 undir svipuðum kringumstæðum. Hækkun raforkuverðsins er auðvitað aðalatriðið í þessum málum öllum og það er dýr hver dagurinn sem líður meðan ekki semst um það. Hækkun á verði raforku er, eins og hæstv. forsrh. orðaði það, brýn nauðsyn og fullkomið sanngirnismál. Í stað þess að halda á málum svipað og núv. hæstv. forsrh. gerði árið 1976 byrjar hæstv. iðnrh. á því að kasta stríðshanskanum, kasta besta vopninu frá sér. Í stað þess að nota þau tromp, sem hann taldi sig hafa á hendi, byrjar hann á því að kasta þeim frá sér. Í spilamennsku er það sjaldnast skynsamlegt. Það átti auðvitað að þvinga Alusuisse til samninga um stórhækkun raforkuverðs með það vopn í höndum, að annars verði meint brot fyrirtækisins blásið út um veröld víða. Það var ekki gert. Vopninu var strax kastað frá sér í þeirri von að særa andstæðinginn, og eftir það er-samningsstaða okkar allt önnur og miklu verri. Og nú þegar aftur átti að setjast að samningum, m. a. um hækkun raforkuverðsins, sem auðvitað er aðalatriði málsins eins og hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. hafa ítrekað, þá er byrjað á því degi fyrir samningafundinn að hóta þjóðnýtingu, hótað að taka upp samninga við annan auðhring, nú austur í Asíu.

Með þessu móti er ekki hægt að búast við árangri í samningum og e. t. v. kærir hæstv. iðnrh. sig ekki um samkomulag um hækkun raforkuverðs. Meðferð hans öll á málinu gæti bent til þess. Ég tek undir með hæstv. forsrh. að aðalatriðið nú er hækkun raforkuverðs. Ég er einnig sammála hæstv. forsrh. um að við Íslendingar eigum í framtíðinni að eignast meiri hluta í álverinu eða álverið allt. Það er hægt að gera með ýmsu móti, t. d. með hluta af skattgreiðslu fyrirtækisins eða hluta af því verði fyrir raforku sem fyrirtækið kemur til með að greiða. Ef við nú á þessari stundu eigum nægilegt fé, þá eigum við að nota það til að byggja nýtt álver, t. d. við Eyjafjörð, eða til að stækka álverið við Straumsvík verulega og á þann hátt gætum við eignast meiri hluta í álverinu. Aðalatriðið er auðvitað að flýta virkjunum og flýta nýtingu þeirrar raforku sem framleidd verður. Hvort Íslendingar eigi stóriðjuverin að öllu eða mestu leyti skiptir ekki öllu máli. Við getum haft virkt íslenskt forræði, eins og hæstv. iðnrh. orðar það, án þess að eiga fyrirtæki að mestu eða öllu leyti.