06.05.1982
Sameinað þing: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4837 í B-deild Alþingistíðinda. (4627)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta. Þegar ég hlýddi á ræðu hæstv. iðnrh. áðan kom upp í huga minn að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Það mátti heyra og sjá á ræðu hans og honum hér í ræðustólnum. Ég gæti tekið hér í þingi upp viðræður við hann um samstöðu í málum sem hann nefndi áðan. Það væri hægt að rekja sögu þeirra mörg ár aftur í tímann og sýna honum fram á ýmislegt skrýtið í þeim efnum. En ég tek undir það, að við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að sýna samstöðu. En það þýðir ekki það, að þegar menn standa sig ekki eigi þeir ekki að hljóta réttmæta gagnrýni. Það er allt, allt annað mál.

Ég skal svo ekki hafa orð mín fleiri um þetta. En mig langar til að spyrja hæstv. iðnrh. vegna þess bréfs sem ég las upp áðan. Þar stóð og þar stendur, í bréfi ráðh. til Hafnarfjarðarbæjar, með leyfi forseta: „Og er engu þar, við að bæta öðru en að unnið er að því að afla lagaheimildar um skiptingu framleiðslugjaldstekna milli tiltekinna aðila, þ. á m. Hafnarfjarðarbæjar.“ Að afla lagaheimilda. Þýðir þetta að við munum eiga von á frv. í dag eða á morgun, því að af bréfinu sýnist mér að það muni vera ætlun ráðh. að afla lagaheimildar. Eins og störfum þingsins er nú háttað sýnast þinglausnir ekki alveg á næsta leiti. Það væri því e. t. v. möguleiki á því að fá slíkt frv. samþykkt áður en þingi lyki. Ég veit að við þm. Reykn. erum reiðubúnir til þess að stuðla að slíku. En ég vil mega spyrja ráðh. að því, hvort hann hyggist leggja fram slíkt frv. nú á næstu dögum.