07.05.1982
Efri deild: 91. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4855 í B-deild Alþingistíðinda. (4639)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið í þessum umr. skrifa ég með fyrirvara undir nál. þar sem mælt er með samþykkt þessa frv. Ég hlýt, eins og að líkum lætur, að gera dálitla grein fyrir þeim fyrirvara. Þó þarf ég ekki að ræða það mál ýkjalengi þar sem ég hef fyrir skemmstu fjallað í þessari hv. deild um málefni annarrar álíka verksmiðju, járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, um það neyðaróp sem það fyrirtæki sendi inn í Alþingishúsið um björgun frá gjaldþroti. Um stofnun þess fyrirtækis var fjallað hér á hv. Alþingi tvisvar með árs millibili. Þótti undirbúningur þess með öllum rannsóknum ærið vandaður og það heldur betur tryggt, að fyrirtækið mundi skila með undraskjótum hætti miklum arði í þjóðarbúið. Þetta mál þarf ég ekki að rifja upp fyrir hv. alþm. En með tilliti til þess, að stöku manni kann að vera enn þá í minni hve óskaplega ég kvartaði yfir því, hvað iðnn. Ed. fékk skamman tíma til að fjalla um þau frv. bæði tvö, — með tilliti til þess, að einhver orð, sem mér hafi hrotið af munni varðandi þau mál, kynnu að vera enn þá í minni hv. þm., hlýt ég að gera þá játningu núna, að enn þá skemmri var tíminn sem iðnn. Ed. fékk til þess að fjalla um það mál sem vér fjöllum nú um. Þetta er ámælisvert. Þetta er ákaflega slæmt.

Ég ætla ekki að orðlengja það, heldur aðeins að vísa til tveggja ræðna, sem ég hef flutt fyrir skemmstu hér í hv. deild um málefni járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, til undirstrikunar á fyrirvara mínum við afgreiðslu þessa mál og bæta aðeins við í lokin þeirri skoðun minni, að nauðsynlegt sé að við gerum a. m. k. ærlega tilraun til þess að skilgreina eðli þeirrar kreppu sem nú gengur yfir hinn vestræna heim — og raunar ekki aðeins yfir hinn vestræna heim, heldur allan — ef ég má nota það orð — hinn tæknikapítalíska heim, einnig austan járntjalds þar sem þungaiðnaðurinn, þar sem málmiðnaðurinn virðist einnig vera í kreppu og sjást ýmis kreppumerki, þó með öðrum litblæ sé, ekki síður þar en í hinum vestræna heimi og taka sum hver á sig fremur óþekkilegar myndir.

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur, þegar við erum að hugleiða uppbyggingu á iðnaði sem tengdur er málmframleiðslunni, að reyna að gera okkur grein fyrir því, hvort það sé með líkindum að þessari kreppu ljúki raunar senn, hvort hún sé af sama toga spunnin og hin fyrri kreppufyrirbæri sem sum hver hafa reynst iðnþróuðum þjóðum býsna hættuleg. Ég vil heyra rökstudda ástæðu fyrir því, að við getum veðjað á það, að þessu kreppufyrirbæri, sem er staðreynd, en við höfum ekki skilgreint, ljúki fyrir tilstuðlan — við skulum segja: æðri máttarvalda eða fyrir einhvers konar tilviljun. Ég vil heyra skynsamlegan rökstuðning fyrir því, að við eigum að sigla inn í þennan sorta og hætta þar miklu til að komast út úr honum einhvern veginn hinum megin.

Ég vil líka heyra skynsamlegan rökstuðning fyrir þeim skoðunum, að við getum ekki veitt fleira fólki atvinnu við arðbærari störf fyrir samfélag okkar heldur en með stofnun fyrirtækja sem heimta frá 7.5 millj. nýkr. upp í 11 millj. nýkr. í hraðfrystingu fyrir hvern starfsmann sem þar fær vinnu. Ég er þeirrar skoðunar, að við höfum ekki lagt vinnu og fé í rannsóknir og athuganir á öðrum hagkvæmari og ódýrari kostum sem við eigum völ á í iðnaði. Ég vil vekja athygli á því, að við verjum 15% af kostnaði við raforkuver, sem við reisum, til virkjunarrannsókna, en við verjum að kalla engu til rannsókna og athugana á þeim kostum sem við hljótum að velja um til nýtingar á orkunni. Það eru yfir 200 manns sem starfa að undirbúningsrannsóknum í sambandi við væntanleg orkuver. Mér skilst að það séu ekki nema tveir sem hafa það að aðalstarfi að athuga iðnaðarkosti.

Eins og fram hefur komið í mínum fyrri ræðum, sem ég vitnaði til varðandi járnblendiverksmiðjuna, eins og auðheyrt má vera af því sem ég nú hef sagt, þá er ég uggandi um framtíð þessarar fyrirhuguðu verksmiðju. En ég treysti mér ekki til þess að greiða atkv. gegn því, að varið verði fjármunum og tíma svo sem ráðgert er í frv. því sem hér liggur fyrir, til þess að kanna þessa kosti nánar, til þess að framkvæma rannsóknir sem nauðsynlegar megi kallast til þess að Alþingi geti tekið endanlega afstöðu til þess, hvort við eigum að ráðast í þetta fyrirtæki eða ekki. Það er svo ráð fyrir gert að í þessu skyni verði nú ákveðið að heimila notkun 25 millj. kr. í framhaldsaðgerðir í málinu, en það komi síðan hingað inn á Alþingi aftur, að hv. Alþingi verði skilað skýrslu um niðurstöður af athugunum og rannsóknum, sem gerðar verða fram til hausts, og á grundvelli þeirra athugana verði málið tekið hér upp öðru sinni af fullkominni einurð og alþm. gefist þá kostur á að fella endanlegan úrskurð um það, hvort í þetta fyrirtæki verði ráðist. Ég vil alls ekki jafna saman því fyrirtæki, sem hér er rætt um að komið verði upp við Reyðarfjörð, og járnblendiverksmiðjunni við Grundartanga, ég vil alls ekki jafna þessum fyrirtækjum saman, í fyrsta lagi vegna þess að fyrirhugað er að Íslendingar einir eigi fyrirhugaða verksmiðju sem rætt er um að reisa við Reyðarfjörð.

Ég er ekki sammála hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og hv. þm. Kjartani Jóhannssyni um að það geti komið til mála að það sé hagstæðara fyrir Íslendinga að útlendingar eigi fyrirtæki af þessu tagi á landi hér, vegna þess eins að það dragi úr áhættunni á rekstri. Ef þetta væri rétt, hv. þm. Þorv. Garðar, hefðir þú e. t. v. einnig lítið svo til að það hefði verið hagstæðara fyrir okkur að útlendingar ættu togarana sem hér eru út gerðir, vegna þess að þá losnuðum við við áhættuna af rekstri þeirra o. s. frv., o. s. frv. Ég er þeirrar skoðunar að líf okkar sé undir því komið að víð eigum sjálfir atvinnufyrirtækin sem rekin eru á landi hér. Ég skil sjónarmið hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar í þessu efni og annarra hv. skoðanabræðra hans í Sjálfstfl. Það geri ég. Þetta er spurning um skapgerð þeirra manna sem rottað hafa sig saman í flokk vegna þess að þeir vilja hafa í fyrirrúmi, svo ég leyfi mér að vitna eiginlega beint í ræðu sem hv. þm. flutti um annað efni hér í deildinni fyrir skemmstu þegar rætt var um kirkjunnar mál, — hafa í fyrirrúmi málefni þeirra manna sem safna vilja þeim auðæfum sem mölur og ryð fá grandað.

Ég ítreka að fylgi mitt við frv. byggist á fullu trausti á þau augljósu fyrirheit, sem gefin eru í frv. því sem við fjöllum um, að Alþingi geti á haustdögum fengið til skoðunar trúverðuga skýrslu og frekari upplýsingar en þær, sem við höfum fengið við meðferð málsins í þessari hv. deild og iðnn. hennar nú, til þess að endurskoða þetta mál og taka endanlega ákvörðun um það, hvort í þetta fyrirtæki skuli ráðist, og myndað sér traustari skoðun á því, hvort hér sé um að ræða arðbært fyrirtæki eða hvort hér sé of miklu til hætt. Það er í fullkomnu trausti á, að hv. Alþingi taki þetta mál til myndarlegrar og greindarlegrar athugunar í haust, að ég hef ákveðið að styðja frv. þrátt fyrir fyrrgreindar efasemdir sem ég vona að muni ekki halda vöku fyrir mér í sumar.