07.05.1982
Efri deild: 91. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4857 í B-deild Alþingistíðinda. (4640)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. eystra, var að ljúka máli sínu, og hann vék orðum til mín í þeirri ræðu. Það má orða líka svo að hann hafi gefið upp boltann í stóriðjumálunum og ætlist til þess, að ég taki nú upp umræðu hér við hann um stóriðjumálin á breiðum grundvelli og það mikla deilumál sem hefur verið uppi varðandi eignaraðild stóriðju í landinu. En þó að hv. þm. hafi gefið ærið tilefni og ítrekað tilefni í ræðu sinni til þess, að ég taki upp hér almennar umræður um stóriðjumálin, þá ætla ég nú að neita mér um það, þó að það kunni að valda hv. 4. þm. Norðurl. e. einhverjum vonbrigðum.

Hv. þm. sagði að hann væri að skýra fyrirvara sem hann hefði haft um nál. meiri hl. hv. iðnn. sem mælir með samþykkt frv. En þau orð, sem hv. þm. viðhafði í þessu sambandi, báru samt vott þess, að hv. þm. er nú kominn nokkuð af leið frá þeirri stefnu sem hann hefur hingað til fylgt í þessum málum og þarf ekki að kynna fyrir þessari hv. deild. Það var sú tíðin að hv. þm. mælti gegn stóriðju í hvaða formi sem var, hvar sem var og hvernig sem var háttað um eignaraðild. Nú hefur orðið athyglisverð breyting á afstöðu hv. þm. og er ég ekki að lasta það.

Þó að ég hafi margt við ræðu hans áðan að athuga er þetta langmerkasta ræða sem hann hefur haldið um þessi mál hér á hv. Alþingi. Það er vegna þess að hv. þm. er kominn nokkuð á nýja þróunarbraut í þessum efnum. Hann er nýbúinn að greiða hér atkv. með frv. sem fjallaði um að veita aðstoð ríkisins við járnblendiverksmiðjuna, og þó orðaði hann það svo, að þar hefði verið um að ræða björgun frá gjaldþroti. Ef hv. þm. getur stutt stóriðjuaðgerðir sem kynnu að vera vafasamari, þá skyldi maður halda að hann ætti ekki síður að vera fús til jákvæðrar afstöðu í öðrum greinum varðandi stóriðjuna, enda kemur í ljós við meðferð þess frv. sem við nú ræðum, að hv. þm. er orðinn meðmælandi með stóriðju í landinu. Hann mælir með því, að komið verði upp kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Þetta er mikil framför hjá hv. þm. Auðvitað er ég ekki að segja honum þetta til lasts. Ég er að hæla hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir það, að hann hefur sýnt nokkra framför í þessum efnum.

Hv. þm. var með bollaleggingar um að við þyrftum að skilgreina kreppuna í Vesturlöndum. (StJ: Ekki bara Vesturlöndum.) Um gervallan heim og m. a. fyrir austan járntjald, eins og hann orðaði það, í hinum tæknikapítalíska heimi. (Gripið fram í.) Einnig austan járntjalds, svo ég fari rétt með.

Ég hef ekkert við það að athuga, að við fylgjumst með gangi mála í heimi fjármála og efnahagsmála hvar sem er, hef ekkert nema gott um það að segja. En þetta var aðeins formáli að því sem hv. þm. sagði um þessi efni, hvað við ættum að athuga og hvað við ættum að kynna okkur, því hann lagði sérstaka áherslu á að við rannsökuðum ekki nógu gaumgæfilega hina ýmsu valkosti í stóriðjumálunum. Hann sagði að meðan herskarar vinna að rannsókn varðandi byggingu orkuvera í landinu eru bara tveir menn sem hafa það verkefni að kynna sér og rannsaka stóriðjukosti. (StJ: Ég nefndi ekki stóriðjukosti, iðnaðarkosti.) Iðnaðarkosti, nú já. Þá felst í þessari fullyrðingu enn þá meiri vandlæting á ástandinu heldur en ég hugði. Hvað skyldi þá vera mikið af starfsorku þessara tveggja manna sem beint fer til athugunar á stóriðjumálum?

Þetta er ein harðasta ádeila sem ég hef heyrt á núv. ríkisstj. í þessum efnum. Við sjálfstæðismenn höfum deilt á hæstv. ríkisstj. einmitt fyrir þetta sama sem hv. 4. þm. Norðurl. e. er að segja. Við höfum deilt á hæstv. ríkisstj. fyrir að hún beiti vettlingatökum í öllum aðgerðum til undirbúnings stóriðju í landinu. Við höfum sannarlega talið að við tækjum allnokkuð upp í okkur í þessum efnum, en það kemst ekki í hálfkvisti við þær ádeilur sem hafa komið hér fram á hendur ríkisstj. af hálfu hv. 4. þm. Norðurl. e.

Hv. þm. sagði að Íslendingar ættu að eiga einir verksmiðjurnar, stóriðjuna. Það á víst að útleggjast þannig: hvort sem við höfum hag af því eða ekki. Ef menn vilji ekki skrifa undir slíkar fullyrðingar sem þessar sé eitthvað að og það sé spurning um skapgerð.

Ég ætla nú ekki að fara að ræða skapgerðareinkenni hv. 4. þm. Norðurl. e. og enn þá síður mín skapgerðareinkenni. Ég verð að segja að nokkuð langt er seilst til fanga í þessum umr., þegar menn fara úr á þessar brautir, og nokkuð hart er í ári fyrir þá sem þurfa að taka slíkt upp í slíkum umr. sem þessum. Læt ég þá lokið þætti hv. 4. þm. Norðurl. e. Ég vona að hann verði ekki fyrir vonbrigðum þó ég fari ekki hér út í almennar umr. um stóriðjumálin, eins og mér virtist hann ætlast til, ef hann á annað borð ætlaðist til að ræða hans yrði tekin alvarlega.

Ég stóð hér upp fyrst og fremst til þess að mæla fyrir brtt. á þskj. 940 sem við hv. 11. landsk. þm. flytjum. Þessar brtt. eru í fyrsta lagi við 2. gr. frv. Í 2. gr. frv. er kveðið á um að ekki skuli minna en 51% af hlutafé félagsins jafnan vera í eigu ríkisins og stjórn þess skipuð fulltrúum ríkis að meiri hluta. Í brtt. okkar á þskj. 940 felst að þetta ákvæði sé fellt niður. Það byggist á því, að við teljum að það sé ekki rétt að skuldbinda ríkið um að það skuli eiga ekki minna en 51% af hlutafé félagsins, það sé of snemmt á þessu stigi málsins að taka ákvörðun um hver eignarhlutdeild ríkisins eigi að vera, það þurfi að fara fram miklu nánari athugun á þessum málum, meiri og betri undirbúningur, meiri kannanir og rannsóknir í ýmsum efnum heldur en nú þegar hafa farið fram, því megi ekki taka ákvörðun um eignaraðild fyrr en þær upplýsingar liggja fyrir, til þess að með þeim hætti verði stefnt að því að gera það eitt í þessum efnum sem þjónar íslenskum hagsmunum best. Þetta, sem ég hef nú greint frá, er a-liður fyrri brtt. við 2. gr. B-liður brtt. fjallar um það, að síðari málsliður 2. gr. frv. falli niður, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Verði gerðir starfssamningar milli ríkissjóðs og annarra hluthafa skal leggja slíka samninga fyrir Alþingi til staðfestingar.“ Við leggjum til að þetta ákvæði verði fellt niður, það þurfi ekki, þegar lítið er á frv. í heild í þeirri mynd sem nú liggur fyrir, að taka þetta þarna sérstaklega fram.

Þá er 2. brtt. sem við hv. 11. landsk. þm. berum fram. Það er brtt. við 3. gr. frv. um að 4. málsgr. orðist svo sem þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar ákvörðun um að leggja fram viðbótarfé hefur verið tekin skal ríkisstj. kveðja aðra aðila til samstarfs samkv. 2. gr. laganna.“ Breytingin, sem fólgin er í brtt., er að sams konar ákvæði er í frv. eins og það nú liggur fyrir, en það er þar heimildarákvæði, en í brtt. okkar er kveðið svo á að skylt skuli að gera það sem hér greinir.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir brtt. okkar hv. 11. landsk. þm. Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, taka það fram, að það er skoðun okkar sjálfstæðismanna að leita beri eftir sem mestu áhættufé í slíku fyrirtæki sem hér er um að ræða í formi hlutafjárframlaga frá einstaklingum, sveitarfélögum og fyrirtækjum og jafnframt að dreifa beri áhættunni með samvinnu við erlenda aðila, enda verði íslenskt forræði tryggt með samningum.

Ég hef gert mér vonir um að brtt. okkar hv. 11. landsk. þm. verði samþykktar, vegna þess að í raun og veru, jafnvel frá sjónarmiði þeirra sem vilja hanga sem mest í því að útiloka hagstæða möguleika sem við kunnum að hafa með samvinnu við erlenda aðila, — jafnvel frá sjónarmiði þeirra er alger óþarfi að hafa þetta ákvæði um 51%, vegna þess að eins og frv. nú liggur fyrir er svo kveðið á í 3. málsgr. 3. gr. frv. að ef Alþingi samþykki niðurstöðu skýrslu sem það á að fá um málið, þá er ríkisstj. heimilt að leggja fram allt að 200 millj. kr. í hlutafé til viðbótar. Í þessu ákvæði er að finna heimild fyrir ríkisstj. til þess að eiga þetta hlutafélag 100% þannig að fyrrgreint ákvæði, sem við erum að leggja til að verði lagt niður, er algerlega óþarfi frá sjónarmiði þeirra sem vilja útiloka samvinnu við erlenda aðila. Þess vegna er þetta ákvæði raunar ekki annað en hortittur í frv. ef menn vilja líta málefnalega á þessa hlið málsins. En ef svo fer gegn von minni, að till. okkar verði felld, vil ég vekja athygli á því, að frv. í þeirri mynd sem það er í núna miðar að því, að það hlutafélag, sem hér er um að ræða, verði undirbúningsfélag þar til Alþingi hefur fjallað um málið að nýju, og því varla við því að búast að einkaaðilar leggi fram fjármagn til slíks félags. Jafnframt er gert ráð fyrir að frekari undirbúningur málsins verði tekinn úr höndum iðnrh. og falinn þingkjörinni stjórn. Við sjálfstæðismenn munum því greiða atkv. með frv., en munum meta fyrirkomulag eignaraðildar þegar málið kemur fyrir Alþingi að nýju, hvað sem verður um brtt. okkar.