07.05.1982
Efri deild: 91. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4859 í B-deild Alþingistíðinda. (4641)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hafði orð á því við 1. umr. þessa máls, að ég mundi fjalla um það í lengra máli við 2. umr. sem nú stendur hér yfir. Hins vegar virðist nú þannig hafa skipast að það sneiðist eitthvað um tíma hér, og mun ég af þeim ástæðum ekki tala eins langt mál hér og ég hafði annars haft í hyggju.

Þegar fram fóru í þessari hv. deild fyrir sex eða sjö árum umr. um aðra verksmiðju svipaðrar tegundar tók einn af hv. þm., hv. 4. þm. Norðurl. eystra, þannig til orða, með leyfi forseta:

„Mál það, er hér liggur fyrir hv. Alþingi í frv.-formi, hefur ekki verið búið til flutnings með þeim hætti, að sýnt sé að hagsmunir íslenska ríkisins haft setið í fyrirrúmi við undirbúning þess. Umfjöllun málsins í iðnn. Ed. hefur verið yfirborðsleg og flaustursleg í senn og hvergi nærri verið ætlaður nægur tími til þess að afla hlutlægra upplýsinga um hin þýðingarmestu atriði svo að sannprófa mætti fullyrðingar þess aðila sem meginábyrgðina ber á þessu frv., þar sem er viðræðunefnd um orkufrekan iðnað.“

Ég held því miður að þessi ummæli hv. þm. Stefáns Jónssonar eigi að ýmsu leyti nákvæmlega við þá stöðu sem við erum í núna. Ég tek það skýrt fram, að ég er ekki að áfellast hv. 3. þm. Vesturl., formann iðnn. þessarar hv. deildar, með tilvitnun í þessi ummæli, vegna þess að mér er ljóst að honum voru settir úrslitakostir í rauninni um afgreiðslu málsins. Flumbrugangurinn, flýtirinn og flasið í þessu máli er alveg með eindæmum, og það verður satt best að segja hér og nú, á þessum væntanlega síðasta degi þingsins, að mér finnst það í senn vera háðung og skömm fyrir þessa virðulegu löggjafarsamkomu hvernig að þessu máli hefur verið staðið og hvernig því er þröngvað hér í gegnum þingið undirbúningslítið. Ég gæti rökstutt það hér í löngu máli, en ef farið er í gegnum allar umsagnir aðila um þetta mál kemur í ljós að eini aðilinn, sem er þessu alfarið meðmæltur og hefur ekki efasemdir, setur ekki spurningarmerki og slær ekki varnagla, það er verkefnisstjórnin. Aðrir aðilar, sem leitað hefur verið eftir umsögnum frá, slá allir varnagla og sumir fleiri en einn og fleiri en tvo. Þetta finnst mér skipta miklu mál og þess vegna segi ég það aftur og enn, að það er ekki til sóma fyrir þessa virðulegu stofnun hvernig eftirreksturinn hefur verið varðandi það að pína þetta mál fram. Það er raunar svo, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að það er búið að breyta málinu í stórum atriðum frá því sem hæstv. iðnrh. lagði það fram. Til hvers bendir það? Það bendir auðvitað til þess, að málið var ekki nægilega vel undirbúið af hálfu hans virðulega ráðuneytis.

Það er svolítið fróðlegt og raunar eftirtektarvert að sá flokkur, þar sem orðið stóriðja var árum saman nánast bannorð, skuli nú hafa forgöngu í þessu máli með þeim hætti sem nú liggur fyrir. Það er ein af þversögnum sögunnar hvernig þessar breytingar hafa gerst. Það, sem eitt sinn var bannorð, skal nú vera bjargvættur. Um þetta mætti fara nokkuð mörgum orðum, svo mjög sem þessi mál eru nú til umræðu í íslensku þjóðfélagi. Það er ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér stöðu þessara mála almennt nú þegar þetta frv. er hér til afgreiðslu, og hvernig haldið hefur verið á öðrum skyldum málum. Nú er talað um að leggja hér út í mikla áhættufjárfestingu. Á þessu stigi fylgja ekki fjármögnunaráætlanir um það, hvernig að því skuli staðið. Jafnframt er um það talað, að Íslendingar kaupi álverið í Straumsvík, og einhverja peninga kynni einhvers staðar að þurfa að taka til þess. Það er líka merkileg reynsla að allt í einu virðist sem í því máli hafi fundist einhver bjargvættur austur í Japan, eftir því sem hæstv. iðnrh. hefur skýrt frá. En eitt vil ég biðja menn um að hugleiða þegar þau gylliboð eru rædd sem sumir hafa svo nefnt og hafa verið rakin í fjölmiðlum að nokkru: Halda menn að Japanir t. d. séu á þessu sviði með einhvers konar góðgerðarstarfsemi? Ég held ekki. Ég held að þeir hugsi sér eins og önnur fjölþjóðafyrirtæki eða önnur stórfyrirtæki á þessu sviði að hafa nokkuð fyrir sinn snúð. Hvað sem má um Alusuisse segja, — og ekki skal ég taka upp hanskann fyrir það, síður en svo, — hvað sem má um það segja er ég ekki viss um að Japanir eða aðrir séu auðveldari í þessum viðskiptum heldur en Svisslendingar. Ég held að þar hugsi hvert þessara fyrirtækja sem er um að gera hagnað sinn sem mestan með öllum tiltækum ráðum, þó að þau jafnvel kunni að vera á mörkum þess sem löglegt er og innan samninga. En það er auðvitað alkunna, að ekki aðeins Alusuisse, heldur mörg önnur svipuð fyrirtæki hafa átt í málaferlum, ekki í einu landi heldur í mörgum löndum, verið kærð fyrir ólöglegt athæfi, ég hygg að það gildi einnig um Alusuisse, og jafnvel hlotið dóma. Ekki skal ég bera blak af þeim, síður en svo. Mér finnst það hins vegar sorglegt þegar rifjað er upp er hæstv. iðnrh. kom í fjölmiðla, bæði í útvarp og sjónvarp, og setti þar fram mjög alvarlegar ásakanir á þennan auðhring, en svo jafnframt varnagla í lok hverrar setningar. Það er mér mjög minnisstætt. Þar vantaði ekki varnaglann. Engu að síður hefur mér fundist sorglegt hvernig þetta mál hefur, frá því að hæstv. iðnrh. kvaddi sér hljóðs um hið sviksamlega athæfi, verið að minnka og minnka, og mér sýnist nú að þar standi næsta lítið af þeim stóru tölum sem upphaflega voru nefndar. Með þessu er ég síður en svo að gefa í skyn að þessi auðhringur sé saklaus af að hafa farið á snið við reglur. Það má vel vera að svo sé og raunar tel ég frekar líklegt að hér hafi verið beitt öllum tiltækum ráðum, eins og önnur fyrirtæki þessarar tegundar nota til þess að gera sinn hagnað sem mestan og sjást þá oft ekki fyrir, eins og ýmis alþjóðleg deilumál af þessu tagi sanna. Mér þykir þetta miður vegna þess að ekki verður komist hjá því að draga þá ályktun af þróun þessa máls alls, að á því hafi ekki verið haldið af nægilegri festu og skynsemi af okkar hálfu, því miður. Þar hefur eins og um ýmislegt fleira verið rasað um ráð fram, menn kannske sagt meira en efni hafa staðið til, og það kann ekki góðri lukku að stýra. Kannske er tilgangurinn með þessari umr. allri sá að gera tortryggilegt allt samstarf við erlenda aðila í þessum efnum. Það má vel vera, og ég hygg að það hafi þá að nokkru tekist.

Hafa menn hugsað þetta dæmi til enda? Nú segja menn: Yfir okkur er tímabundin kreppa á sviði alþjóðlegra viðskipta. Sú kreppa er búin að vera tímabundin nokkuð lengi, og auðvitað veit enginn hver verður framvinda þess máls. En hvar stöndum við ef spárnar um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, markaðsspárnar reynast álíka tryggar og þær spár sem gerðar voru fyrir Grundartangaverksmiðjuna? Hvar standa menn ef kreppunni í áliðnaðinum linnir ekki og ef við eignumst þetta fyrirtæki alfarið, eins og mér heyrist að sé sterk skoðun hæstv. iðnrh.? Hvar stöndum við þá? Nú stendur í sáttmála þessarar ágætu ríkisstj., að stefnt skuli að því að greiðslubyrði vegna erlendra skulda fari ekki fram úr 15% af útflutningstekjum. Það er rétt, ég held að við það skuli miðað. Nú er þessi tala komin í 20%. En hvert fer sú tala ef ekki skyldi ganga eftir það sem hér er spáð um hagstæð skilyrði? Ég held að á þessu sviði þurfum við að gá að okkur. Við höfum fyrir augunum dæmi um þjóðir sem hafa skuldsett sig til óbóta með fjárfestingum í miður skynsamlegum framkvæmdum.

Við höfum heyrt mikið af því gumað, hversu vel þetta mál hafi verið undirbúið. Það hefur komið glögglega í ljós í þessum umræðu, að þetta mál er hvergi nærri eins vel undirbúið og látið hefur verið í veðri vaka. Mér sýnist líka að við undirbúning málsins hafi embættismenn í umboði ráðh. gengið nokkru lengra en valdskiptareglur segja til nm. Í því frv., sem hér er til umr., segir svo í 3. gr., með leyfi forseta, að stjórn félagsins skuli gera eftirfarandi: „a) Undirbúa frekari hönnun verksmiðjunnar og leita tilboða í byggingu hennar og búnað.“ Í skýrslu þeirri um kísilmálmverksmiðju, sem okkur hv. alþm. var afhent sem trúnaðarmál í mars, en flokkast nú ekki lengur sem slíkt, stendur á bls. 6, með leyfi forseta.: „Bindandi tilboð í vélar og tæki fyrir kísilmálmverksmiðju eiga að berast fyrir 1. apríl n. k. og þá fyrst verður hægt að skera úr um hvort tilboðið er hagkvæmara.“ Hér er sem sagt búið að gera það sem Alþingi er að heimila núna. Ég held að þetta sé spurning sem hv. þm., eins og hv. 11. þm. Reykv. sem ég veit að er mjög annt um virðingu Alþingis, áttu að velta fyrir sér.

Þá held ég að það orki líka tvímælis hvort embættismenn rn. geta undirskrifað yfirlýsingu um sölusamninga þó að þar sé auðvitað um skilyrta hluti að ræða, hvort slíkir embættismenn geti undirskrifað samninga um sölu á afurðum verksmiðju sem Alþingi er ekki búið að ákveða að stofna. Þarna held ég að menn hafi stigið fram úr því valdi sem þeir hafa að lögum. Ég held satt best að segja að þetta sé atriði sem Alþingi ætti að athuga sérstaklega, vegna þess að ég sé ekki betur af lestri þeirra gagna, sem fram hafa verið lögð, en að slík verk séu unnin í umboðsleysi, heimildarleysi og fullkomlega löglaust. Það getur ekki verið leyfilegt að afla bindandi tilboða í verksmiðju sem er ekki búið að samþykkja að byggja, og raunar er skýrt tekið fram í því frv., sem hér er til umr., að þar er heimilað að afla tilboða. Það er búið að afla þessara tilboða. Þau áttu að berast fyrir 1. apríl, stendur hér. Ég held að við þessari spurningu hljóti að verða að fást svar.

Ég hef áður látið í ljós nokkrar efasemdir um það, hvort staðsetning þessarar verksmiðju sé skynsamleg. Hæstv. ráðh. hefur svarað nokkrum þeirra spurninga sem hér voru fram bornar við 1. umr. Mér finnst hins vegar á það skorta að komið hafi fram nægilega skýr svör um náttúruverndarhlið þessa máls, eins og fram kemur í umsögn frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins. Þar segir, með leyfi forseta: „Varðandi staðarval á Reyðarfirði fyrir kísilmálmverksmiðju hafa ekki farið fram nauðsynlegar forrannsóknir til að ganga úr skugga um að staðsetning megi teljast forsvaranleg.“

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri þó að vissulega væri ástæða til að ræða þetta mál allt miklu, miklu ítarlegar, en til þess er því miður ekki tími nú. Ég ítreka þá skoðun mína, að þetta mál er hvergi nærri nægilega vel undirbúið. Það staðfesta allar þær umsagnir sem nefndum þingsins hafa borist um þetta mál. Það er auðvitað megingalli þessa máls, að kastað hefur verið höndum til undirbúningsins og ofurkapp lagt á að ná því fram hér og nú, þó að vísu sé búið að sníða af því nokkra annmarka, en þeir eru þó fleiri eftir.