07.05.1982
Efri deild: 92. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4863 í B-deild Alþingistíðinda. (4644)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu minni við 2. umr. um þetta mál er gert ráð fyrir því í 3. málsgr. 3. gr. að skýrsla skuli lögð fyrir Alþingi af hálfu undirbúningsstjórnar þegar athugunum er lokið og skuli lögð fyrir næsta Alþingi. Síðan segir: „Samþykki Alþingi niðurstöður skýrslunnar er ríkisstj. heimilt að leggja fram allt að kr. 200 000 000 í hlutafé til viðbótar.“ Hér er í rauninni gert ráð fyrir að niðurstöður skýrslu séu samþykktar á Alþingi. Þetta brýtur í bága við þingsköp að því leyti, að það er sérstaklega tekið fram í þingsköpum að ekki skuli ályktað um skýrslur. Í 30. og 31. gr. er þetta sérstaklega tekið fram. Og eins og einhver ágætur vanur þingmaður orðaði það gætu menn í rauninni alveg eins sett í lög að Alþingi ætti að samþykkja bók eftir Laxness ef menn ætluðu að fylgja þeirri reglu að skýrslur væru samþykktar eða synjað á Alþingi.

Eins og ákvæðið er, þá er sem sagt brotið gegn þingsköpum. Það stenst auðvitað lagalega að setja lög sem taka af þingsköp. En ekki er það skemmtileg aðferð og algerlega óþörf eins og kom fram í umr. í nefndinni. Þessa grein má orða með þeim hætti að farið sé að þingsköpum. Ég tel eðlilegt að menn leitist við að fara eftir þingsköpum og haldi þeirri hefð í heiðri, sem þar hefur verið lögð, og fylgi þeim lögum við afgreiðslu mála. Þess vegna geri ég að tillögu minni að þessi grein orðist þannig:

„Stjórn félagsins skal gera skýrslu um starfsemi félagsins og athuganir, sem ráðh. leggi fyrir næsta Alþingi, svo og þáltill. eða lagafrv. til staðfestu á heimild til ríkisstj. til að leggja fram allt að kr. 200 000 000 í hlutafé til viðbótar.“

Með þessum hætti tel ég að sé ótvírætt farið að þingsköpum, og ég get ekki séð annað en að það sé bæði eðlilegt og æskilegt að þessi breyting sé gerð, ekkert sem mæli gegn því, og að leiðrétting af þessu tagi ætti að eiga greiðan gang í gegnum deildir þingsins. Ég geri því að till. minni að þessi till. verði tekin til umfjöllunar.