07.05.1982
Efri deild: 92. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4864 í B-deild Alþingistíðinda. (4647)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram, að það er skilningur okkar að þegar lögð hefur verið fram skýrsla af hálfu þeirrar stjórnar, sem kjörin verður fyrir kísilmálmverksmiðjuna á Reyðarfirði, þá beri einnig að leggja sérstaka þáltill. fyrir Alþingi þar sem Alþingi lýsi yfir afstöðu sinni til niðurstöðu þeirrar skýrslu. Ég tel ekki þörf á því að vera að samþykkja um þetta hér sérstakar brtt., bæði með tilliti til þess, að langt er liðið á þingstörfin og það kynni að tefja fyrir framgöngu málsins. Ég vildi engu að síður láta það koma hér skýrt fram, að það er ekki okkar skilningur á ákvæðum þessarar lagagr., að eingöngu eigi að leggja hér fram skýrslu, heldur þurfi Alþingi að taka á formlegan hátt afstöðu til niðurstöðu hennar með þáltill. sem lögð væri fram í framhaldi af þessari skýrslugerð, á nákvæmlega sama hátt og Alþingi hefur tekið afstöðu til virkjanamálsins hér á síðustu dögum.