07.05.1982
Efri deild: 92. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4864 í B-deild Alþingistíðinda. (4648)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er auðvitað nokkurs virði að fá fram yfirlýsingar frá stuðningsmönnum þessa lagafrv. um hvern skilning þeir leggi í það orðalag sem valið er í lagagr., svo að menn þurfi ekki að velkjast í vafa um það. Sá skilningur er greinilega sá, að það skuli gert með þeim hætti sem Alþingi venjulegast ályktar eða lætur vilja sinn koma fram, annaðhvort með þáltill. eða með lagafrv. Þessar yfirlýsingar eru auðvitað nokkurs virði. En ég tel að þá sé eins gott að það standi í greininni, það sé skýrara og betra. Þess vegna er þessi till. fram borin og þess vegna legg ég til að hún verði samþykkt.