07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4869 í B-deild Alþingistíðinda. (4655)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er til umr. enn eitt skattafrv. núv. hæstv, ríkisstj., hér er einn liðurinn í skattaherferð gegn almenningi. Því hefur verið lýst mjög vel af síðustu hv. ræðumönnum, hvernig þessi bankaskattur kemur óhjákvæmilega til með að bitna á öllum almenningi, fyrst og fremst þeim sem eru viðskiptamenn banka, annaðhvort lánardrottnar eða skuldunautar, því að öllum er ljóst, að viðbótarskattur á innlánsstofnanir hlýtur að verða að greiðast með einhverjum hætti, þessar stofnanir búa ekki til peninga í sjálfu sér. Þær afla fjár fyrst og fremst með mun á útláns- og innlánsvöxtum og enn fremur með ýmiss konar þjónustugjöldum. Ef leggja á aukaskatta á þessar stofnanir, sem hingað til hafa ekki verið reknar með miklum hagnaði, er ljóst, að þeir eiga ekki annars úrkosta en leita eftir auknu fjármagni hjá viðskiptamönnum sínum.

Stefna núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið með nokkuð sérkennilegum hætti, og margoft hefur verið bent á það, hvernig sú stefna hefur bókstaflega leitt af sér kjararýrnun þrátt fyrir það að sjávarafli hafi stóraukist. Það kemur í ljós þegar ferill Alþb. í þessari og undanförnum ríkisstjórnum er skoðaður. Verðbótavísitala hefur verið skert 10 sinnum. Gengi íslensku krónunnar hefur margoft verið fellt og þá á ég við formlegar gengisfellingar. Skattaálögur, eins og ég minntist á fyrr, hafa stórlega vaxið. Skattbyrði eignarskatta til ríkisins er nú tvöföld miðað við það, sem hún var 1977, og tekjuskattar eru 50% hærri. Ofan á þetta hefur þensla ríkisútgjalda stórlega vaxið og er nú gífurleg og það sem kannske verra er: greiðslubyrði erlendra lána hefur aldrei verið meiri.

Stór hluti erlendra lána er nú notaður til þess fyrst og fremst að halda ríkisútgjöldunum gangandi, þeim eyðsluútgjöldum sem stofnað hefur verið til. Á sama tíma hefur fjárfesting í atvinnulífinu dregist saman og íbúðabyggingum fækkað. Þetta hvort tveggja hlýtur að vera afleiðingin af þeirri stefnu sem fylgt hefur verið, þeirri stefnu að eyða áður en aflað er, þeirri stefnu að vanrækja að byggja upp atvinnuvegina sem hljóta þó að vera undirstaðan, því að án arðbærs atvinnurekstrar er útilokað að hér sé hægt að halda uppi því menningarlífi sem við Íslendingar höfum kosið okkur að halda uppi, og þá á ég við á sviði mennta- og menningarmála, félagsmála og heilbrigðismála. Eins og allir hljóta að átta sig á er útilokað að standa undir kostnaði við slík útgjöld nema því aðeins að til séu fyrirtæki í landinu sem veiti mönnum atvinnu og séu rekin með ágóða sem annars vegar hlýtur að standa undir launum almennings og hins vegar undir þeim skattgreiðslum sem eru grundvöllur þess, að við getum lifað hér menningarlífi.

Nú í lok þessa þings er enn á ný höggvið í sama knérunn hvað þetta varðar. Enn á ný er leitað til almennings og nú í því skyni að skattleggja almenning með þeim hætti að sem fæstir taki eftir og telji að þeir séu að greiða allt annað en skatt til ríkisins. Nú er farin sú leið að leggja skatt á bankastofnanir, innlánsstofnanir, og láta líta svo út að það séu þær fyrst og fremst sem séu að greiða þessi gjöld fyrir eigin rekstur, en ekki að þarna sé dulbúin leið fyrir ríkisvaldið til þess að ná sér í meira fé en það hefur nú þegar til umráða. Þetta rifjar upp fyrir mér að þegar menn fara til útlanda og þurfa að fara í banka til þess að fá erlendan gjaldeyri og borga með innlendum krónum verða þeir að greiða þar ákveðinn skatt sem sjálfsagt flestir halda að fari inn í bankakerfið sjálft. En þegar betur er skoðað og menn líta í fjárlagafrv. kemur það sanna í ljós, að það er ríkisvaldið sem tekur þennan skatt og færir hann beint í ríkissjóð. Með þessum hætti og fjölmörgum öðrum gerir ríkisvaldið í því að ná sér í fjármuni og helst með þeim hætti að sem fæstir taki eftir því og geti þá ímyndað sér að það sé verið að greiða til allt annarra þarfa.

Bankaskatturinn, sem hér er til umr., er að sjálfsögðu liður í þessari skattheimtustefnu ríkisstj., og það er athyglisvert, þegar athugað er hve skattar hafa hækkað á nokkrum undanförnum árum, að uppgötva það, að skattbyrði á föstu verðlagi miðað við árið í ár er nú miklum mun meiri en var fyrir 4 árum, sé árið 1978 tekið til viðmiðunar. Það er ekki víst, að allir átti sig á því, að á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að íslenskur almenningur greiði í einu eða öðru formi meira en einn milljarð nýkr. umfram það sem almenningur þurfti að leggja á sig árið 1978. Þetta er sú hækkun sem hefur orðið frá hausti 1978 og fram á þetta ár. Er þá látið staðar numið og ekki talið það sem hæstv. ríkisstj. gæti látið sér detta í hug á næstu mánuðum, en hugmyndaflug hennar virðist vera óþrjótandi þegar leitað er skattstofna í einhverri mynd.

Á því tímabili, sem ég var að nefna, hafa eignarskattar einstaklinga hækkað um 53 millj., og hér er ég að vitna til tekjuáætlunar fjárlaganna eins og þau voru samþykkt. Hækkun tekjuskatta á einstaklingum er 368 millj. Til frádráttar, svo að allt sé tekið til, lækkuðu sjúkratryggingagjöld um 126 millj. þannig að nettóhækkun á eignar- og tekjusköttum einstaklinga á þessu tímabili eru 295 millj.

Söluskattur var hækkaður um 2% haustið 1979. Þá var reyndar núv. hæstv. viðskrh. fjmrh., en núv. hæstv. fjmrh. var þá menntmrh. Þessi hækkun er á verðlagi yfirstandandi árs 256 millj. Vörugjald hækkaði um 6% á sama tíma. Á verðlagi yfirstandandi árs þýðir það 107 millj.

Gjald á ferðalög, sem tæpt var á hér áður, er samkv. fjárl. 47 millj.

Enn þá er gert ráð fyrir innflutningsgjaldi á sælgæti. Ef ég man rétt er það 3 millj.

Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði; sem vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar fann upp til þess að leggja verðbólguna að velli, er 32.1 millj. Það hefur verið rifjað upp í þessum umr., að tveir framsóknarráðherrar hafa lýst yfir að þeir séu andsnúnir þessum skatti. Allt kemur fyrir ekki, hann er lagður á. Í því sambandi má rifja það upp, að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var auðvitað fyrst og fremst lagður á á sínum tíma til að koma í veg fyrir það, eins og því var lýst, að verslunarfyrirtæki gætu tekið til sín verðbólgugróða og sett hann í steinsteypu og gler. Þetta var liður í herferð stjórnvalda til að koma í veg fyrir að fyrirtæki tækju fjármagn út úr bankakerfinu á lágum vöxtum, byggðu fyrir það húsnæði sem hægt væri að selja eftir ákveðinn tíma þannig að þessir fjármunir hefðu rentað sig samkv. byggingarvísitölu. Tæpu ári síðar eru samþykkt lög, Ólafslög svokölluð, sem gera ráð fyrir að farið sé eftir svokallaðri raunvaxtastefnu eða hávaxtastefnu, sem auðvitað hlaut að þýða að slíkt ævintýri eins og að taka bankalán og byggja fyrir það gat ekki borgað sig, enda er hægt að sýna fram á að markaðsverð á húseignum hefur ekki hækkað jafnmikið og fjármagn gerir á þeim vaxtakjörum sem nú eru ríkjandi. Þrátt fyrir allt þetta er áfram haldið með skatta á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og atvinnuvegunum þannig mismunað þrátt fyrir gefin loforð og margfaldar yfirlýsingar um að nú skulu jöfnuð starfsskilyrði atvinnuveganna.

Hækkun á verðjöfnunargjaldi á raforku var 6% á þessum sama tíma. Slík hækkun gefur af sér 28.5 millj. kr.

Þá hefur skattahækkun á bensín umfram verðlagsbreytingar orðið 217 millj. Hér er verið að tala um hækkanir umfram fast verðlag, eingöngu þær hækkanir sem hafa orðið umfram fast verðlag, og það eru skattar sem renna beint í ríkissjóð. Hér er verið að ræða um tölur sem ríkissjóður fær. Hér er verið að sýna fram á hvernig ríkissjóður nærist á því þegar olíufurstarnir í Kreml og olíufurstarnir í Arabalöndunum hækka verð á olíu og bensíni.

Orkujöfnunargjald var lagt á ofan á söluskattsstofninn. Það gefur 191 millj. kr. í ár. Svo hælir hæstv. ríkisstj. sér af því, að það sé verið að jafna hitunarkostnað, þótt aðeins hluti af þessum skatti sé notaður til þess arna. En öllum er kunnugt að stærsti hluti þessa skatts, sem átti að fara til orkumála, hefur farið beint í ríkissjóð til allt annars heldur en til var stofnað.

Þá hefur verið lagt á sérstakt gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, 13.5 millj. Hv. þm., þ. á m. hv. þm. sem eiga sæti í fjvn., og af því að hér situr í salnum hv. 1. þm. Vesturl., — þeir þekkja hvílík ánægja er með Framkvæmdasjóð aldraðra og hvort slíkur sjóður hafi ekki uppfyllt allar þær vonir, sem til hans voru gerðar og hvort sú stefna að leggja á sérstakan skatt með þessum hætti sé ekki því máli til framdráttar. Hann getur spurt kjósendur sína á Vesturlandi þessarar spurningar. Ég er ekki viss um að hann hafi tekið í höndina á ráðh. og þakkað honum fyrir hvernig úthlutað var úr þessum sjóði. En það er önnur saga og kannske saga sem hv. 1. þm. Vesturl. getur sagt, ef hann hefur kjark til, í ræðustól síðar í þessum umr. Því miður gefst ekki tækifæri til að ræða um Framkvæmdasjóð aldraðra sérstaklega nú á þessu þingi því að ráðh. hefur nánast alræðisvald um úthlutun úr þeim sjóði þótt skylt sé að hafa samráð við fjvn. um hana.

Þá hafa markaðar tekjur, sem teknar eru í ríkissjóð, hækkað umfram verðlag frá árinu 1978 um 61 millj. kr. Samtals gerir þessi skattareikningur 1 milljarð 252 millj. kr. En þá ber að taka til greina það sem hefur orðið til lækkunar, og það er fyrst og fremst niðurfelling söluskatts af matvöru haustið 1978, sem mun gera á verðlagi yfirstandandi árs 224 millj., og loks lækkun tolla og aðflutningsgjalda, sem er 97 millj., gæti verið heldur hærri tala miðað við síðustu aðgerðir í þeim efnum. Niðurstöðutala reikningsins, eins og hann stendur núna og ég hef verið að gera grein fyrir, er þá 931 millj. kr.

En hér er ekki öll sagan sögð, því að frá því að þessi reikningur var gerður upp og fjárlög voru til afgreiðslu hefur það gerst, að sett hefur verið á tollafgreiðslugjald sem hækkar niðurstöðutölur þessa reiknings talsvert. Og þegar rætt er um tollafgreiðslugjald er kannske ástæða til að rifja það upp, að í svokallaðri skýrslu ríkisstj. um efnahagsmál, sem dreift var hér á hv. Alþingi í lok janúarmánaðar og var til umr. hér á Alþingi, örlar á þeirri hugmynd, að hægt sé að leggja á tollafgreiðslugjald svokallað vegna þess — ég undirstrika: vegna þess að það sé í ráði að breyta lögum, koma með frv. um svokallaða tollkrít. En tollkrít eða greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum er baráttumál sem lengi hefur verið til umr. hér á þingi og a. m. k. tvívegis ef ekki þrívegis hafa þm. úr röðum sjálfstæðismanna lagt fram frv. þess efnis. Vorið 1980 kom í þennan ræðustól á hv. Alþingi hæstv. forsrh. og lýsti yfir að haustið 1980 mundi verða lagt fram frv. um tollkrít. Hæstv. fjmrh. kom á sama tíma í þennan ræðustól, tók að vísu ekki jafnmikið upp í sig og hæstv. forsrh., en gaf til kynna að að þessu máli yrði unnið strax þá um sumarið.

Staðreyndir málsins liggja nú fyrir. Það eina, sem hefur gerst, er að lagt hefur verið á tollafgreiðslugjald til þess að mæta útgjaldaauka ríkissjóðs, ef svo má að orði komast, vegna tollkrítarinnar, án þess að ríkisstj. hafi sýnt minnstu tilburði í þá átt að koma tollkrítarfrv. áfram.

Þrátt fyrir marggefin loforð hefur hæstv. fjmrh. gersamlega svikið í þessu máli. Hann hefur komið hér í ræðustól og sagt það sem hann hefur engan veginn getað staðið við. Og það sem verra er, a. m. k. að sumra áliti, er að hann hefur gert ummæli forsrh. þjóðarinnar að ómerkum ummælum. Á þessu tekur hæstv. fjmrh. fulla ábyrgð. Hann hefur krafist þess, að formaður fjh.- og viðskn. Ed., sem er formaður í þingflokki Alþb., neiti að afgreiða tollkrítarfrv. úr nefnd. Þetta er samsæri þessara tveggja manna sem fyrst og fremst sáu að með tollkrítarhugmyndinni var hægt að leggja aukaskatta á íslenskan almenning. Tollafgreiðslugjald var lagt á og auðvitað er það skattur sem bitnar á öllum almenningi þótt hann sé falinn með þessum hætti í vöruverðinu.

Þetta eru þung orð sem hér eru látin falla í garð þessara tveggja manna. En það er rétt og nauðsynlegt að það komist til skila til þeirra fjölmörgu sem hafa barist fyrir þessari bót sem hlýtur að verða á verslunarháttum Íslendinga, að hið sanna fái að koma í ljós og mönnum sé gert ljóst að það er hæstv. fjmrh. og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem bera ábyrgð á því, að þetta mál nær ekki fram að ganga. Til viðbótar og til þess að kóróna afskipti hæstv. fjmrh. af þessu máli má segja frá því enn fremur, að þá skýrslu, sem gefin var út í sept. 1981 og ég held á hér, skýrslu þar sem birtar eru tillögur til fjmrh. um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, geymdi hæstv. fjmrh. tryggilega í skúffu sinni um margra mánaða bil, þótt það stæði skýrum stöfum í þessari skýrslu að formaður nefndarinnar, sem var tilnefndur af hæstv. fjmrh., segði á nefndarfundi þessarar nefndar um tollamál, sem starfaði að þessum málum, að það væri ætlast til að starfinu lyki þá um sumarið, sumarið 1981, því að það væri ætlun ríkisstj. að leggja fram frv. á haustdögum, það væri nauðsynlegt að það fengi lagagildi um s. l. áramót því að það væri svo mikils virði fyrir ríkissjóð að hægt væri að dreifa kostnaðinum á tvö ár. Hvar eru efndirnar hjá hæstv. fjmrh. í þessu máli?

Það er eðlilegt, þegar verið er að leggja skatta á innlánsstofnanir, nýja skatta ofan á tollafgreiðslugjaldið sem rann í gegnum Alþingi fyrr á þessu þingi, að þá sé spurt að því, hvar þær bætur séu sem mátti lesa út úr stjórnarsáttmálanum varðandi innflutningsverslunina. Hvers vegna er ræða hæstv. forsrh. hér á hinu háa Alþingi gerð ómerk? Hvernig stendur á því, að hæstv. fjmrh. kemur í veg fyrir það með afskiptasemi sinni í nefnd í Ed. að hægt sé að afgreiða þetta mál? — Nú hristir hæstv. fjmrh. höfuðið. Að vísu sé ég það, en heyri ekki, eins og sagt var um annan ágætan ráðh. úr þessum ræðustól. En þá spyr ég: Hvernig stendur á því að formaður þingflokks Alþb. afgreiðir ekki þetta mál úr nefnd? — Og nú hristir hæstv. fjmrh. enn þá höfuðið og það er áreiðanlega yfir þeim ósköpum, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skuli ekki vinna þetta mál almennilega í nefndinni. Vonandi hristist samt höfuðið ekki af hæstv. fjmrh., þó að yfir þeim ósköpum, sem sá þm. stendur að, sé eðlilegt að menn geti hrist lengi og mikið á sér höfuðið.

Þetta var, herra forseti, um nokkra þá skatta sem hæstv. fjmrh. í núv. ríkisstj. hefur staðið að, annaðhvort sem fjmrh. eða sem ráðh. í ríkisstj. sem hann hefur borið ábyrgð á. Ég taldi nauðsynlegt að þetta yrði rifjað upp rækilega hér, þegar enn á ný er sóst eftir því að leggja skatta á íslenskan almenning.

Ég minntist áður á svokallaða efnahagsskýrslu ríkisstj. sem var lögð fram á Alþingi í vetur og umr. urðu um. Áður en ég vík frekar að þeirri skýrslu, en það er einmitt bankaskatturinn sem fyrst er nefndur í þeirri skýrslu, tel ég nauðsynlegt að það komi fram varðandi skattamál, að til viðbótar tekju- og eignarsköttum á almenning, sem ég hef talið upp hér í nokkuð löngu máli til þess að gera því rækilega skil, bætist það, að skattvísitalan í fjárl. tekur ekki mið af hækkun launa milli ára. Bara vegna þessa atriðis, aðeins á þessum grundvelli fær ríkisstj. milli 25 og 30 millj. í ríkissjóð. Talið er að laun á milli áranna 1980 og 1981 hafi hækkað um u. þ. b. 53%, en samkv. fjárlögum er aðeins gert ráð fyrir að þessi hækkun hafi orðið 50%. Með óbreyttum álagningaraðferðum fást á föstu verðlagi — takið eftir — 25–30 millj. kr. í ríkissjóð umfram það sem mætti reikna með. Á þetta hefur lítið verið minnst. Hér þarf enga lagabreytingu. Hér þarf ekkert frv. að koma fram á hinu háa Alþingi. Þetta fólst aðeins í lítilli þriggja stafa tölu í einni grein fjárlagafrv. sem fáir tóku eftir og hafði reyndar litla þýðingu þá, því að þá átti eftir að reikna nákvæmlega þær forsendur sem sú tala byggðist á. Nú þekkjum við þessar tölur. Nú vitum við hver launahækkun varð á milli áranna 1980 og 1981. Nú er öllum ljóst að bara með því að ákveða skattvísitöluna sjálfa er um að ræða auknar álögur. Það er einn milljarður og fast að 100 millj. kr. til viðbótar þeim sköttum, sem voru lagðir á almenning 1978, sem nú leggjast á þennan sama almenning fjórum árum síðar. Þetta er sú breyting sem orðið hefur á valdaferli núv. hæstv. ríkisstj. og þeirrar vinstri stjórnar sem á undan henni sat. Þetta er sú staðreynd sem verður að koma fram. Þetta er sú forsenda sem við verðum að ræða þetta mál á þegar nú enn á ný er efnt til skatta á almenning.

Ég minntist, herra forseti, á það áðan, að það hefði verið rætt fyrr í vetur á þingi um efnahagsstefnu ríkisstj. þegar stjórnin lagði fram skýrslu sína um efnahagsmál. Það er kannske að bera í bakkafullan lækinn að gera meira grín en þegar hefur verið gert að svokallaðri efnahagsstefnu ríkisstj., en mér finnst vera ástæða til þess þegar auglýst er á hverjum degi í fjölmiðlum að ríkisstj., Seðlabankinn, bjóði betri vexti en aðrir aðilar í þjóðfélaginu, að það sé gerð nokkur grein fyrir því, hvernig stefna hæstv. núv. ríkisstj. hefur leitt til þess, að allt fjármagn, sem er á lausu í þessu þjóðfélagi, sogast til ríkisins. Það er reyndar stórkostlega fyndið að sjá það í þessari skýrslu, að þar sé sagt að áherslan hvíli á aðhaldsstefnu í útlánum til almennings, einmitt vegna þess að aðhaldið nær ekki lengra en til þess, að almenningur og fyrirtæki geta ekki tekið lán, þau fá ekkert til sín, en fyrir ríkissjóði eru allar gáttir opnar.

Í kaflanum um peningamál í þessari skýrslu ríkisstj. segir á þessa leið, með leyfi forseta:

„Með sérstökum aðgerðum í peningamálum mun ríkisstj. reyna að tryggja að þessi þáttur efnahagslífsins stuðli að auknu jafnvægi og hjöðnun verðbólgu. Áætlanagerð um peningamál verði notuð í því skyni að þróun helstu peningastærða miðist við þann ramma sem efnahagsstefna og markmið ríkisstj. myndar.“

Ég efast um að nokkur maður, sem hér er inni, hafi skilið hvað í þessu fólst, því að þetta er óskiljanlegt, þessi texti sem kemur úr þessari rammagerð hæstv. ríkisstj. Síðan segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Aðhald í peningamálum verði aukið með ýmsum ráðstöfunum og látið ná til allra þátta sem áhrif hafa á þróun útlána og peningamagns. M. a. verði sveigjanlegri bindiskyldu beitt í þessu skyni. Lagt verði að innlánsstofnunum að gæta ítrasta aðhalds í í útlánum þannig að þau verði í samræmi við efnahagsstefnuna.“

Með þessum orðum, herra forseti, er verið að vara við því að lána einstaklingum og fyrirtækjum. Hér er um að ræða orðsendingu hæstv. ríkisstj. til bankakerfisins um að hætta útlánum til einstaklinga og fyrirtækja. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Unnið verði að því að draga úr fjármagnskostnaði, m. a. með lækkun vaxta í samræmi við hjöðnun verðbólgu.“

Hefur nokkurn tíma nokkur heyrt þetta áður? Ég spyr. Og loks segir, með leyfi forseta:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir nýrri lagasetningu um meðferð hagnaðar Seðlabanka Íslands.“

Þetta er auðvitað dúsa upp í Alþb. sem telur Seðlabankann vera óþrjótandi gullnámu, eins og kom greinilega fram í umr. fyrr á þessu þingi þegar sækja átti gull í greipar Seðlabankans.

Eins og sjá má er á ferðinni í þessari efnahagsskýrslu ríkisstj. fyrirheit um lægri vexti og yfirlýsing um aukið aðhald. En þegar við skoðum þetta betur, jafnvel með hliðsjón af textanum í þessari sömu efnahagsskýrslu, kemur annað í ljós, því að aðhaldið nær ekki til ríkisins. Og þá leyfi ég mér að lesa hluta úr texta sem fjallar um erlendar lántökur, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Ráðstafanir verði gerðar til þess að draga úr erlendum lántökum.“ Eins og allir vita er hæstv. núv. fjmrh. Íslandsmeistari í þeirri grein. — „Í því skyni verði leitað samkomulags við viðskiptabankana um aukna þátttöku innlendra lánastofnana í fjármögnun framkvæmda.“

Sem sé: Í kaflanum um peningamál var talað um aukið aðhald, en nú á að fá peninga hjá viðskiptabönkunum til að komast hjá erlendum lántökum sem ríkisstj. þarf á að halda, m. a. til að greiða niður hallarekstur á opinberum fyrirtækjum. Aukið aðhald nær ekki til ríkisins.

En hæstv. ríkisstj. ætlar ekki eingöngu að fá lán í bönkum því að einmitt í fjáröflunarkaflanum er getið um þann svokallaða bankaskatt sem hér er til umr. Þar segir að lagður verði skattur á banka og sparisjóði. Það er einmitt á grundvelli þessara ummæla í efnahagsskýrslu ríkisstj. sem það frv., sem hér er til umr., var lagt fram á sínum tíma. Hér ætlar ríkisstj. að skattleggja bankana, og eins og margoft hefur komið fram í þessum umr: eru það auðvitað sparifjáreigendur og lántakendur, viðskiptamenn bankanna, sem hljóta endanlega að þurfa að standa skil á þessum skatti.

Það er athyglisvert í sambandi við þetta að kynna sér hvaða hugmyndir aðrar hæstv. ríkisstj. hefur um bankakerfið í landinu. Ríkisstj. hefur nefnilega ákveðið að sækja peninga með öðrum hætti til bankakerfisins, og kannske það sé gert á grundvelli svokallaðs aðhalds í útlánum, en í þessari skýrslu segir á öðrum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Teknar verði upp viðræður við banka- og sparisjóði um lengingu lána húsbyggjenda og íbúðareigenda með skuldbreytingu svipaðri þeirri sem framkvæmd var á síðasta ári.“

Aðhaldsstefna ríkisstj. er m. a. sú, að enn á ný eigi að ganga í bankana og láta lánastofnanir fjármagna lán til húsbyggjenda vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur svikist um að fjármagna húsbyggingakerfið eins og henni ber skylda til, með því m. a. að taka launaskattinn, sem renna á til húsbygginga, og láta þann launaskatt í ríkissjóð og nota hann þar til allt annars. Hæstv. ríkisstj. ávísar bara á bankakerfið, og meira að segja gerðist það hér á þingi í vetur, að hæstv. félmrh., æðsti maður húsnæðismála á Íslandi, yfirmaður þessara mála, sá maður sem tekur ábyrgð á þeim, leyfir sér að koma í ræðustól á hv. Alþingi og segja: „Það gengur svona illa í húsbyggingarmálunum eingöngu vegna þess að bankarnir vilja ekki lána meira.“ Þetta er maðurinn sem stendur fyrir einhverjum stórkostlegasta þjófnaði sem um getur hér á landi: Að taka launaskatt, umsamið gjald á milli atvinnurekenda og launþega sem átti að renna til húsbygginga, og nota það í allt öðru skyni, m. a. til þess að greiða niður vörur sem er ódýrt að greiða niður, — ekki til þess að almenningur fái vörur á lægra verði, heldur til þess að sjá til þess, að launþegar í þessu landi fái ekki umsamdar verðlagsuppbætur.

Blekið var varla þornað af efnahagsskýrslu ríkisstj., sem ég hef verið að vitna til, þegar ríkisstj. tók upp á því að auglýsa ný skírteini ríkissjóðs til sölu með hærri vöxtum eða 3.5% ofan á byggingarvísitölu. Nú má spyrja: Hvar heldur hæstv. ríkisstj. að þessir peningar hafi legið? Stendur hæstv. ríkisstj. í þeirri meiningu, að fólk geymi peninga undir koddanum eða undir dýnunni í rúminu hjá sér? Ef svo er, þá held ég að hún vaði reyk. Auðvitað liggur það fjármagn, það litla fjármagn sem almenningur getur lagt til hliðar, fyrst og fremst í bankakerfinu, hjá innlánsstofnunum. Það, sem hlýtur að gerast þegar ríkisstj. keppir með þessum hætti á fjármagnsmarkaðinum, er að almenningur tekur út þá peninga, sem hann á hjá lánastofnunum, og kaupir fyrir þá skírteini, gerir þannig samning við ríkið um að fá hærri ávöxtunarkjör og lætur ríkisstj. fá sína peninga. Þetta ofan á allt annað verður til þess að ríkið sogar til sín fjármagnið. Það er þess vegna bókstaflega sprenghlægilegt að heyra af vörum hæstv. ráðh. að nú sé talað um vaxtalækkanir, nú eigi að lækka vexti í þjóðfélaginu, í bankakerfinu, á sama tíma og hæstv. ríkisstj. stendur að því að hækka vextina.

Auðvitað gerðist það strax í kjölfarið af þessari ákvörðun, að aðrir aðilar í þjóðfélaginu, þ. á m. Framkvæmdasjóður, hækkuðu að sjálfsögðu sína vexti til samræmis við þetta. Og ákvarðanir voru teknar annars staðar, þ. á m. í lífeyrissjóðakerfinu, sem auðvitað fór fram á hærri vexti fyrir það fjármagn, sem var lánað í húsnæðislánakerfið, en það leiðir auðvitað af sér að það verður enn þá meiri skortur á lánsfé þar en áður nema lögum verði breytt og vextir hækkaðir af húsnæðislánum frá því sem nú er.

Allt þetta, sem ég nú hef lýst, leiðir til þess, að ríkið sogar til sín það fjármagn sem til er á fjármagnsmarkaðinum.

Nú efast ég ekkert um að ýmsir telji þetta vera góða stefnu. Ég er t. d. handviss um að hæstv. fjmrh. þykist vera að þjóna sínum hagsmunum og sinni hugsjón með því að draga fjármuni til ríkisins. Ég efast ekki heldur um það, að formaður Alþb., hæstv. félmrh. Svavar Gestsson, er að þjóna sinni stefnu og sínum hugsunum með þessum hætti. Þessir tveir menn hafa það nefnilega að stefnumiði, að það eigi að taka allt fjármagn til ríkisins og það séu skrifstofumenn í ráðuneytum og stjórnmálamenn í ríkisstj. sem eigi að hafa vit fyrir almenningi og almenningur eigi ekki að hafa fjárræði hér á landi, það séu aðeins þeir sjálfir og þeirra menn í rn. sem hafi vit á slíkum málum. Til þess að þjóna slíkri stefnu er auðvitað bankaskattur eðlilegur, þetta er skattviðbót ofan á þann einn milljarð nýkr. eða áttunda hluta allra ríkisútgjaldanna sem skattar hafa hækkað frá 1978. Það verður að skilja slíka hluti með tilliti til þess bakgrunns, sem unnið er út frá. En ég verð að segja það, að öðrum — og ég hélt að þeir fyrirfyndust í öllum öðrum flokkum hér á landi en Alþb., — þeim sem vilja að einstaklingarnir sjálfir, að fyrirtækin, að félög einstaklinga, heimilin, hefðu eitthvert vald á sínu fjármagni og fengju að ráðstafa því að vild, — þeim hlýtur að óa við þessari stefnu. Þess vegna er stórkostlega undarlegt að þeir, sem starfa með Alþb. í núv. hæstv. ríkisstj., skuli ekki reyna að hafa áhrif á hæstv. fjmrh. í því skyni að hann hætti þessari skattaofsókn sinni á hendur almenningi.

Nú kann einhver að segja: Skiptir þetta nokkru máli? Hefur ekki hæstv. ráðh. staðið sig vel? Hefur hann ekki verið að skera niður ríkisútgjöldin? Það hefur hvergi komið fram og hefur aldrei komið fram í umr. á Alþingi hvers konar niðurskurð þar er um að ræða. Það hefur ekki verið rifjað upp, að stór hluti af þessum niðurskurði felst í frestum til næsta árs. Mikill hluti þess niðurskurðar, sem hæstv. fjmrh. boðar, felst í því t. d. að geyma haustlán fyrir námsmenn sem auðvitað verður að greiðast á næsta ári. Sem sagt: Niðurskurður hæstv. fjmrh. byggist á því að ýta hlutunum til og láta þann mann, sem tekur við af honum í embætti, taka við þeim búsifjum sem þetta skapar, því að auðvitað veit hæstv. fjmrh. að hann situr ekki í sinni stöðu sem fjmrh. á næsta ári. Hann er að yfirgefa þessa ríkisstj. Eins og Alþb. hefur verið að haga sér að undanförnu er ljóst, að Alþb. ætlar sér ekki að sitja lengi í þessari ríkisstj. Alþb.-menn þora ekki að sitja lengi í þessari ríkisstj. Þeir vita að það eru að koma kosningar þar sem þeir koma til með að stórtapa. Þeir eru að undirbúa það, eins og konan frá Lundi sagði í blöðunum um daginn, að geta farið úr ríkisstj. til þess að geta staðið við hlið verkalýðsins, eins og þeir segja stundum í hátíðarræðum. Það er þetta sem þessir menn eru að undirbúa, og það er þess vegna sem þeir haga sér svona í ráðherrastólunum. Við skulum þess vegna ekkert undrast það, þótt niðurskurður hæstv. fjmrh. gangi bara út á að láta næsta mann, sem tekur við af honum, borga allan brúsann. Það kemur engum á óvart, hvernig Alþb.-menn haga sér í ráðherrastólunum, miðað við það ástand sem er að skapast í þjóðfélaginu þegar allir hafa séð í gegnum þennan flokk og eru að gefast upp á honum og sjálfir foringjar flokksins mega vart vatni halda af ótta við skoðanakannanir Dagblaðsins og Vísis, eins og rækilega var minnt á hér í gær í umr. og eins og kom fram í viðtali formanns þingflokks Alþb. sem hann átti við Dagblaðið og Vísi og lýsti yfir þungum áhyggjum forustumanna Alþb. yfir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í skoðun almennings á stjórnmálaflokkunum.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að núv. ríkisstj. getur ekki náð markmiðum sínum í verðbólgu- og efnahagsmálum. Aðeins til þess að undirstrika þetta vil ég minnast á það, að í þeirri efnahagsskýrslu ríkisstj., sem er grundvöllur að þeim bankaskatti sem við erum að ræða hér í dag, kemur skýrt og greinilega fram að ríkisstj. hefur að meginmarkmiði að verðbólga á yfirstandandi ári, frá áramótum til áramóta, skuli vera 35%. Til viðbótar þessu er sagt að á síðari hluta ársins skuli verðbólguhraðinn vera kominn niður í 30%. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að verðbólgan á að fara úr þeim 40–50%, sem hún hefur verið í á undanförnum árum og stendur í í dag, niður í 30–35%. Þetta væri vissulega hægt ef nægir peningar væru til í ríkissjóði til þess að greiða niður varning í landinu í því skyni að halda launum niðri. En það er ekki hægt lengur. Það er ekki lengur borð fyrir báru. Ríkisstj. hefur með skattofsóknum sínum tekið þá peninga sem hún hugsanlega getur tekið í því skyni að greiða niður verðlag. Ef við nú reiknum út hvað þurfi að gerast á síðari hluta ársins til þess að hægt sé að ná markmiði ríkisstj., þá komumst við fljótlega að raun um það, — og við skulum gefa okkur þær forsendur að ekki verði samið um neina kauphækkun og það verði óbreytt viðmiðunarvísitala, — þá komumst við að raun um að það þarf að skerða laun hvorki meira né minna en um 8–10%. Getur einhver ímyndað sér að Alþb., stjórnmálaflokkur sem kennir sig við verkalýðinn og þykist a. m. k. í orði kveðnu standa við hlið verkalýðsins, hafi uppburði í sér að endurtaka þá sögu, sem gerðist í upphafi s. l. árs, að skera niður verðbætur um 8–10%? Hefur einhver trú á því hér inni, að hæstv. félmrh. hafi þrek og þor til þess að standa upp og segja: Við skulum skera niður laun um 8–10% í nafni — ja, hvað kalla þeir það: „jafnra skipta“, að mig minnir? Hefur nokkur maður trú á því, að hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. sem foringjar Alþb. þori enn á ný að standa fyrir slíkum aðgerðum? Ég held ekki.

Ég held að það, sem kemur til með að gerast á þessu ári, sé að hæstv. forsrh., sem hefur verið eins konar sáttasemjari í þessari ríkisstj., mistakist að ná samningum á milli Framsfl., sem hefur niðurtalningu á stefnuskrá sinni, og Alþb., sem þykist standa við hlið verkalýðsins, a. m. k. þegar hentar að segja svo, í verðbólgumálunum, því að Alþb. er nákvæmlega sama um verðbólgumálin. Alþb. vill gjarnan viðhalda verðbólgunni hér á landi, þó að ekki væri til annars en að geta sagt: Framsfl. tókst ekki að telja niður verðlag. — Þetta verður hv. 1. þm. Norðurl. v. að hafa í huga. Þegar hann fer heim í hérað og þarf að berjast til að ná þeim fáu atkv. sem hann á þar eftir enn þá, smala þeim saman, sem kannske verður um svipað leyti og göngur og réttir í haust, þá verður hann að hafa það í huga, að Alþb. stefnir að því að gera lítið úr hugmyndum Framsfl., sýna fram á að niðurtalningin var bara orð sem enginn gat efnt. (Gripið fram í.) Auðvitað er búið að því að nokkru marki.

Herra forseti. Ég hef farið nokkuð vítt og breitt um skattamál og efnahagsmál til þess að rifja upp forsendur fyrir þeim bankaskatti sem nú er verið að reyna að leggja á þjóðina. Ég hef talið mér skylt og nauðsynlegt að sýna þetta mál á þessum breiða grundvelli til þess að hægt sé að átta sig á því, að hér er aðeins um enn eitt skrefið að ræða í átt til þess að safna öllum fjármunum, sem til eru á lausu í þessu þjóðfélagi, í ríkishítina, til þess að stjórnmálamenn geti farið með öll völd í þessu þjóðfélagi og almenningur hafi sem minnst til ráðstöfunar. Þetta er sú stefna sem þeir fylgja sem telja að þeir einir sem hafi vit á fjárfestingu, þeir einir sem hafi vit á því, hvernig fara eigi með peninga, það séu þeir sem sitja við stjórnvölinn, ekki síst ef þeir eru í réttum flokki. Þetta er miðstýringin eins og hún leggur sig. Gegn henni vill Sjálfstfl. ganga, og það er þess vegna sem við sjálfstæðismenn í þessari deild höfum lagt á okkur að berjast með oddi og egg gegn þessum skatti, þessum kornum sem fylla skattamæli ríkisstj.