07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4892 í B-deild Alþingistíðinda. (4661)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég tel í sjálfu sér í alla staði eðlilegt að bankar og aðrar innlánsstofnanir, að smærri sparisjóðum undanskildum, greiði skatta og skyldur til jafns við önnur fyrirtæki í landinu. En þetta mál er sama marki brennt og allt of mörg mál frá hendi hæstv. ríkisstj. um þessar mundir. Það er með því marki brennt, að það er illa undirbúið, felur auk þess í sér afturvirkni og mismunun á milli lánastofnana sem ekki verður við unað. Þetta mál er aðeins einn þáttur í þeim álögu- og skattafaraldri sem gengur yfir íslenskt atvinnulíf um þessar mundir. Kröfur hæstv. ríkisstj. um aukna rekstrarhagkvæmni, hagræðingu og framleiðniaukningu í atvinnurekstri landsmanna eru út í hött þar sem slíku markmiði verður ekki náð án mikils tilkostnaðar sem er skattpíndum og fjárvana fyrirtækjum algerlega um megn. Þar fyrir tel ég að aukin hagkvæmni og aukinn sparnaður í bankakerfinu, ekki hvað síst innan ríkisbankanna — (Forseti: Þetta er að verða ræða hjá hv. þm.) Ég hef betri samvisku en sumir aðrir í því efni hér á hv. Alþingi. Ég endurtek, að aukin hagkvæmni og sparnaður í bankakerfinu og þá sérstaklega innan ríkisbankanna sé eðlileg krafa sem ætti fyrst og fremst að koma viðskiptavinum þeirra til góða fremur en óseðjandi ríkishít. Þetta frv. felur í sér hættu á lakari vaxtakjörum og þar með skerðingu á almenningshagsmunum.

Herra forseti. Þetta mál, eins og það liggur fyrir nú, er hættulega hraðsoðið eða öllu heldur hrátt og því óhjákvæmilegt að vísa því aftur til föðurhúsanna hæstv. ríkisstj. til frekari athugunar og lagfæringar. Ég segi því já.