07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4899 í B-deild Alþingistíðinda. (4671)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Ég er annar þeirra sem skrifa undir nál. á þskj. 817 með fyrirvara, en þetta þskj. er nál. um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75 21. júní 1973, um Hæstarétt Íslands. Mér þykir rétt að gera hér nokkra grein fyrir því, í hverju fyrirvari minn er fólginn.

Frv. gerir ráð fyrir í 1. gr. að hæstaréttardómarar verði 8 í stað 7 eins og nú er. Auk þess er að finna í ákvæðum til bráðabirgða að dómsmrh. geti samkv. till. Hæstaréttar sett um tiltekinn tíma 2–3 dómara. Vitað er að mikill málafjöldi hefur safnast fyrir hjá Hæstarétti og er óafgreiddur þar. Ýmsar orsakir munu verða til þess, að málskotum til Hæstaréttar hefur fjölgað hin síðari ár og það svo, að þrátt fyrir tiltölulega nýlega fjölgun í dómnum mun biðtími eftir dómi vera þar a. m. k. tvö ár í sumum tilfellum.

Málum, sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, hefur fjölgað mjög eins og ég sagði, og m. a. mun fíkniefnamálum fara mjög fjölgandi fyrir dómstólum. Ein af þeim orsökum, sem leiða til þessarar fjölgunar mála sem áfrýjað er, mun vera einmitt sú, hversu langur tími líður frá áfrýjun og þar til dómur fellur. Þarna sjá ýmsir sér leik á borði að fá frest á fullnustu dóms og þykjast sjá sér hag í þeim tíma sem þeir á þennan hátt vinna. Með hraðari vinnubrögðum Hæstaréttar eru líkur til að málum, sem þangað verður áfrýjað, muni fækka verulega þar sem mál yrðu dæmd fyrirstöðulítið.

Frv. til l. um lögréttu hefur verið lagt fram á nokkrum þingum, en ekki náð fram að ganga, og vitum við því miður ekki hvenær slíkt frv. verður lagt fram eða hvort það kynni þá að verða að lögum. Þar sem óvissa er um framgang laga um lögréttu er ég ekki í stakk búinn nú til að mæla með fjölgun fastra dómara í Hæstarétti, þar sem heimild er í frv. til að ráða 2–3 dómara til að vinna upp þau mál sem fyrir liggja.

Það er mikið áhugamál margra hv. þm. að lög um lögréttu verði samþykkt hér á hv. Alþingi. Ef lögrétta verður að veruleika tel ég að 7 manna Hæstiréttur, sem fjalli um hin meiri háttar mál, sé hæfilegur fjöldi dómara og starfi þá dómurinn óskiptur. Ef sú skoðun mín stenst, að 7 manna Hæstiréttur sé hæfilega skipaður dómur, samkv. áður sögðu, hallast ég að því, að ekki eigi að fjölga í Hæstarétti. En þar sem nú lifir skammt þings og í trausti þess, að ef lögrétta verður að veruleika verði aftur fækkað í Hæstarétti í 7 þó að nú verði fjölgað í 8, á meðan núverandi ásand varir, mun ég greiða frv. eins og það kom frá Ed. atkv. mitt.