07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4900 í B-deild Alþingistíðinda. (4672)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég skal ekki setja á langa tölu um þetta mál þar sem nú dregur mjög nærri þinglausnum, en ég tel mér bæði rétt og skylt að drepa á örfá atriði. Það er þá fyrst að frv. þetta til l. um breyt. á lögum um Hæstarétt er stjfrv., flutt samkv. ákvæðum í stjórnarsáttmálanum til að stuðla að hraðari meðferð dómsmála. Það eru allir sammála um að hraða þurfi meðferð dómsmála. Um það er enginn ágreiningur. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að einfalda og hraða meðferð nokkurra mála, en í Hæstarétti safnast mál fyrir þar sem Hæstiréttur hefur ekki annað þeim málum sem þar liggja fyrir.

Allir eru sammála um að það verði að ráða bót á þessu. En ekki eru allir sammála um þær leiðir sem beri að fara. Ég skýrði þetta út í báðum deildum þingsins í framsöguræðu, en tel nauðsynlegt að drepa á örfá atriði nú.

Ein af leiðum til þess að hraða málsmeðferð í Hæstarétti er hið svonefnda lögréttufrv. Það er samið af réttarfarsnefnd sem sett var á laggirnar árið 1972. Það hefur verið lagt fram á hv. Alþingi alls 6–7 sinnum, að mig minnir, en aðeins einu sinni komist á milli deilda. Það er því engum vafa undirorpið, að hv. þm. telja sér nauðsynlegt að skoða þá leið betur. Sú leið, sem þetta frv. greinir frá, er valin nú til að ráða fram úr brýnum vanda.

Ég talaði fyrir þessu máli í Ed. 16. nóv. s. l. Hv. allshn. þeirrar deildar ræddi málið og kvaddi á sinn fund marga sérfræðinga, en málið var afgreitt frá hv. Ed. síðla vetrar og þá þannig að það var nær óbreytt. Það var aðeins ein minni háttar breyting gerð á frv. Allshn. þessarar hv. deildar hefur unnið allrösklega að þessu máli. Niðurstaða hennar er sú, að meiri hl., fimm af sjö, mælir með að frv. verði samþykkt, en minni hl., tveir, leggur til að því verði vísað til ríkisstj. Það er engin brtt. flutt í þessari hv. deild.

Hv. 5. þm. Vestf, hefur hér haldið uppi upplestri um lögfræðileg efni og öðrum slíkum aths. Við þessu er ekkert að segja nema allt gott. Áhugi á þjóðlegum fróðleik og löggjöf hefur lengi legið í landi í Reykholti eins og menn muna. Snorri var lögsögumaður tvívegis á árunum 1215–1218 og enn frá 1222–1231.

Hv. 9. þm. Reykv. hefur haft hér uppi nokkrar aths. Hann hefur haldið því fram, að hér sé um róttæka eðlisbreytingu að ræða á löggjöf um Hæstarétt, hér sé verið að brjóta upp Hæstarétt og þar fram eftir götunum. Þetta tel ég að sé ekki rétt ályktað hjá hæstv. fyrrv. dómsmrh. Hins vegar sagði hann og: „Þetta er ekki rétt lausn.“ Þá mótbáru má að sjálfsögðu vega og meta, því að við vitum allir að þar sem um fleiri en eina leið er að ræða, þar má um þær deila því að flestallt orkar tvímælis þá gert er.

Hv. 5. þm. Vestf. hélt því og fram, að hér væri um sögulega stefnubreytingu að ræða ef frv. þetta yrði samþykkt. Þessu verð ég algerlega að mótmæla. Hv. 9. þm. Reykv. spurði og, hvort flutningur á þessu frv. fæli það í sér, að dómsmálayfirvöld hefðu skipt um skoðun. Nei, þessu má svara algerlega neitandi. Það má segja að því miður sé þetta ekki mjög frumleg leið sem valin er. Það er þvert á móti farin sú braut sem fetað hefur verið eftir síðustu árin allmörg, þar sem hæstaréttardómurum var fjölgað úr 5 í 6 1973 og úr 6 í 7 1979.

Hv. 5. þm. Vestf. spurði eitt sinn í sínu máli: Hversu margir dómarar verða um næstu aldamót? Og hv. 9. þm. Reykv. ræddi um það, að milljónaþjóðir kæmust af með fámennan hæstarétt. Um þessi efni má ýmislegt fjalla og spyrja. En þegar svona staðhæfingum er slegið fram er þó fjöldamargt annað sem þarf að skoða, t. d. hvað eru mörg dómstig í viðkomandi landi. Þau eru víða þrjú. Hér á landi höfum við komist af með tvö dómstig frá 1920 eða frá því að Hæstiréttur var settur á fót. Breytingin, sem þetta frv. felur í sér og menn hafa aðallega staldrað við, er sú, að lagt er til að dómurum sé fjölgað úr 7 upp í 8. Þetta tel ég vera í samræmi við þá stefnu sem hefur verið fylgt á undanförnum árum, þar sem lögð hefur verið áhersla á það, að um hin minni háttar mál, kærumál og önnur minni háttar efni, væri fjallað af þrem dómurum, en af 5 dómurum um hin stærri mál. Og allir getum við verið sammála um að 3 + 5 séu 8. Einnig er í þessu frv. lagt til að aðstaða Hæstaréttar verði bætt eins og sjálfsagt er, löglærður maður eða menn séu ráðnir þar til aðstoðar hinum reglulegu dómurum o. s. frv.

En þá hafa sumir nefnt að hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða, þar sem lagt er til að 2–3 dómarar verði ráðnir um sinn til þess að vinna upp gömul mál, og af þessu stafi jafnvel stórkostleg hætta. Þessu vil ég leyfa mér að andmæla. Ég vek athygli á því, að aukadómara af þessu tagi verður eftir mínum skilningi að ráða um tíma hvaða leið sem valin verður til þess að ráða bót á þessu máli. Auk þess má benda á að í Hæstarétti hér á landi sem og erlendis hafa oft starfað aukadómarar um lengri eða skemmri tíma og a. m. k. hér á landi er reynsla af þeim yfirleitt mjög góð. Allir eru sammála um það. Ef tillaga um að vísa þessu frv. til ríkisstj. verður samþykkt, þá þýðir hún að engar úrbætur verða gerðar a. m. k. í eitt ár í þessum málum því að hér þarf til að koma ný lagasmíð. Þess vegna leyfi ég mér að óska eftir efnislegri afgreiðslu á þessu frv.

Það hafa ýmsir ágætir menn áhyggjur stórar af því, að þessi afgreiðsla mála þýði það, að hinu svonefnda lögréttufrv. verði varpað endanlega fyrir róða. Þessum mönnum get ég svarað með því, að ég mun annaðhvort fela réttarfarsnefnd eða velja annan hóp lærðustu og færustu lögfræðinga landsins til þess að fara yfir og skoða lögréttufrv. við fyrstu hentugleika og jafnframt benda á aðrar leiðir sem gætu leitt af sér varanlegar umbætur í þessum málum. Þessu get ég lýst yfir núna um leið og ég læt máli mínu lokið, að ég mun velja, eins og ég sagði, færustu og hæfustu menn til þess að líta yfir og grandskoða lögréttufrv. og athuga aðrar leiðir sem mættu leiða okkur að farsælli lausn þessa máls til frambúðar.