07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4905 í B-deild Alþingistíðinda. (4675)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég gat þess í upphafi máls míns, að ég hefði talið mér skylt að gera þinginu grein fyrir því, að þær upplýsingar og umsagnir, sem bárust um mál þetta til allshn. Nd., hefðu margar hverjar verið mjög neikvæðar. Ég vék ekki einu einasta hnjóðsyrði til hæstv. dómsmrh. í allri þeirri ræðu sem ég flutti um þetta mál, — ekki einu einasta hnjóðsyrði. Aftur á móti eyddi ég tímanum í að kynna honum aths. við ákvæði til bráðabirgða, sem eru undirritaðar af starfandi dómurum í þessu landi, og taldi að ég ætti nokkra von á því, ef hann á annað borð tæki hér til máls, að hann reyndi að svara þeim efnisatriðum sem þessir dómarar telja að sé nauðsynlegt að koma á framfæri við þingið. Það er að sjálfsögðu létt að útskýra það og verja, að ég hafi ekki þá lögfræðilegu þekkingu til að bera að fara að brjóta þetta mál til mergjar, enda hef ég jafnframt tekið fram að svo er. Þá þekkingu hef ég ekki til að bera. Hins vegar undirstrikaði ég það, að í hópi yngri dómara þessa lands væru sennilega flestallir andvígir því sem hér væri verið að leggja til, og ég taldi að þá væri eðlilegt að það kæmu fram einhver rök hjá hæstv. ráðh. gegn þeirra rökum. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum.

Hæstv. ráðh. byrjaði á að vitna í stjórnarsáttmálann eins og guðspjall fyrir þessum texta. Þar stendur, með leyfi forseta: „Unnið verði að umbótum í dómsmálum og stuðlað að hraðari meðferð dómsmála með því m. a. að einfalda meðferð minni háttar mála. Athugað verði hvernig þeim efnaminni í þjóðfélaginu verði tryggð lögfræðiaðstoð til þess að ná rétti sínum.“ Dettur nokkrum í hug að sagan muni dæma þetta mál á þann veg, að hér sé verið að vinna að réttarbótum? Dettur nokkrum manni í hug að sagan dæmi á þann veg? Ég segi nei. Það eru engin fyrirmæli í stjórnarsáttmálanum sem geta komið mönnum til að ætla að frv. eins og þetta verði flutt.

Ég vil vekja athygli á því, að hæstv. ráðh. fullyrti áðan að aukadómara verði að ráða hvaða leið sem farin er, það verði að ráða aukadómara að Hæstarétti. Stefán Már Stefánsson prófessor við Háskóla Íslands í lögfræði gerir grein fyrir því í aths. sem hann hefur sent til þingsins 26. jan. 1982. Með leyfi forseta hljóðar það á þessa leið, þar sem hann víkur að því, hvernig hægt sé að leysa þetta mál án þess að til komi aukadómarar:

„Aðilar geta samið svo um að mál, sem stefnt hefur verið fyrir Hæstarétt við gildistöku laga þessara, skuli rekin og dæmd í landsrétti. Þessu ákvæði er ætlað það hlutverk að minnka álag á Hæstarétt. Því er einkum ætlað að ná til þeirra mála sem Hæstiréttur ætti að dæma um á lokastigi þrátt fyrir ný lög um landsrétt. Fært þykir að flytja slík mál yfir í landsréttinn ef aðilar eru sammála um það. Athygli er samt vakin á því, að ákvæði þetta er tímabundið í þeim skilningi, að það tekur aðeins til þeirra mála sem stefnt hefur verið fyrir Hæstarétt við gildistöku laga um landsrétt.“

Hér er efnislega tekið á þessu máli af prófessor í lögum við Háskólann. Hvers vegna leyfir hæstv. ráðh. sér að koma hér upp og halda því fram, að eina leiðin sé að skipa aukadómara? Hvernig stendur á svona vinnubrögðum? Hæstv. ráðh. talar um að engin brtt. hafi verið gerð við frv. Hann talar um að niðurstaða nefndarinnar hafi verið á þann veg, að 5 hafi mælt með og 2 verið á móti. Það er rétt, að 5 menn mæltu með, en þar af 2 með fyrirvara. Sum frv. eru á þann veg að annaðhvort er að vísa þeim frá, fella þau, eða samþykkja. Ástæðan fyrir þessu liggur einfaldlega í því, að það er ekkert að frv. sjálfu ef þetta væri hin skynsamlega lausn málsins. Ástæðan fyrir því, að við leggjum til að frv. verði vísað til ríkisstj., er sú, að okkur er ljós vandinn, en við teljum að lausnin sé röng.

Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt grein fyrir því, að auðvitað hafa allar fjölmennari þjóðir en við — og það eru flestar þjóðir — þurft að standa frammi fyrir því, að hæstiréttur komist ekki yfir að dæma í öllum smámálum, þó þær hafi viljað hafa tvískipt réttarkerfi í landinu. Þær hafa leyst þetta með því, að það er annars vegar talið eðlilegt að hæstiréttur dæmi í stórum málum, hann taki afstöðu til nýrra laga o. s. frv., sé þannig stefnumarkandi, en í málum, þar sem hliðstæðir dómar liggja fyrir í tugatali og er í sjálfu sér ákaflega einfalt að sjá hver niðurstaðan verður, hlýtur að vera eðlilegt að annað dómstig afgreiði þau mál.

Ég ætla — með leyfi forseta — að vitna hér í eitt af þeim málum sem hafa vafalaust tafið Hæstarétt vegna þess að þau voru lögð fyrir hann. (Forseti: Það verður að vera stutt). Það er ákaflega stutt, herra forseti, og ég ætla ekki að nefna hér nein nöfn, breyti þeim. Þetta er í hæstaréttardómabók frá 1980, á bls. 1520, og aðeins dómsorðin verða lesin, en ég breyti þar nöfnum:

„Ákærði Jón Jónsson sæti fangelsi í 6 mánuði. Ákærði greiði Pétri Péturssyni í Reykjavík 20 þús. kr. í skaðabætur. Ákærði greiði allan kostnað sakar í héraði og Hæstarétti, þar með talin saksóknaralaun til ríkisins, 150 þús. kr., og talsmannslaun skipaðs verjanda síns fyrir hæstarétti, Magnúsar Magnússonar, 150 þús. kr.“

Sektin hin upprunalega er 20 þús. kr., en kostnaðurinn 300 þús. Brotið er framið á árinu 1978. Svona mál, þegar játning liggur fyrir í undirrétti, eiga ekkert erindi í Hæstarétt. Það veit hver einasti maður sem gefur sér tíma til að skoða þessi mál. Ég vænti þess, að hæstv. dómsmrh. kynni sér ekki aðeins sögu Snorra í Reykholti, heldur einnig hitt, að Dala-Freyr afrekaði fleira en varð honum til fremdar.