07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4906 í B-deild Alþingistíðinda. (4676)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði alls ekki hugsað mér að tala hér lengi að þessu sinni, enda ástæðulaust. Mikill meiri hl. n. var sammála um að afgreiða þetta frv. óbreytt eins og það kom frá Ed., en aðeins tveir sérvitringar tóku sig fram um annað.

Ég held að það sé rétt að gera sér grein fyrir því, hvernig stendur á því að þetta mál er flutt. Ástæðan er einfaldlega sú, að gífurlegur fjöldi mála safnast að Hæstarétti og hann hefur alls ekki undan að dæma. Fyrir bragðið fást ekki úrslit í málum fyrr en eftir allt of langan tíma, og við það verður ekki unað. Fjölgunin í 7 dómara með síðustu breytingu hefur ekki orðið til þess að stytta þennan hala, sem sýnir að þrátt fyrir þessa fjölgun dugar ekki sá fjöldi dómara sem nú er í Hæstarétti. Sannleikurinn er sá, að 3+5 eru ekki 7 og þar stendur hnífurinn í kúnni. En hv. þm. og fyrrv. hæstv. dómsmrh. Vilmundur Gylfason gerir sér ekki grein fyrir því, að Hæstiréttur getur starfað í tvennu lagi, í þriggja manna dómi og í fimm manna dómi, og því aðeins geta þeir unnið samtímis að dómarar séu átta. Það er svo augljóst mál að um það þarf ekki að deila. Þess vegna hef ég fallist á að samþykkja þetta frv. eins og það kemur frá Ed., þar sem gert er ráð fyrir að bæta einum dómara við í Hæstarétt til þess að vinnubrögðum dómsins verði hægt að haga með þeim hætti sem ég nefndi áðan.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason gerði sér lítið fyrir og hélt því fram, að þessi fjölgun um einn dómara þýddi fjölgun um fjóra dómara. Fullyrðingar af þessu tagi eiga sér auðvitað ekki nokkurn röksemdalegan grundvöll. Það er að vísu gert ráð fyrir því í þessu frv., að ráða megi 2–3 dómara. En það er skýrt tekið fram, og það kemur fram í því sem ég ætla að segja núna, að þeir eru aðeins ráðnir um takmarkaðan tíma, í eitt og hálft ár eftir að lög þessi öðlast gildi. Það þýðir auðvitað ekki fjölgun um 4 dómara. Tilgangurinn með því að taka inn þessa dómara um stundarsakir, 2–3 dómara í þrjú misseri, er að gera tilraun til þess að vinna upp halann sem Hæstiréttur verður að losna við.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur auðvitað fullyrt margt fleira, sem gengur svo langt að mönnum blöskrar. En það er nú líklega gert af hans hálfu til þess að gera ræðuna skemmtilegri og er lítið við það að athuga út af fyrir sig. En þá á hv. þm. að viðurkenna það.

Hann hélt því fram hér í fyrri ræðu sinni um þetta mál, að þetta stefndi í þá átt samkv. þeirri þróun sem hefur verið í þessum efnum að undanförnu, að annar hver lögfræðingur í landinu yrði innan tíðar orðinn dómari í Hæstarétti. Fullyrðing af þessu tagi er sannarlega ekki til þess að vekja traust á málflutningi hv. þm.

Ég vil að lokum, herra forseti, aðeins nefna lögréttumálið sem hér hefur verið tæpt á. Ef við tökum upp lögréttuna, þá þýðir það mjög líklega að færri mál komast til Hæstaréttar. Ef við hefðum lögréttu starfandi nú safnaðist ekki, trúi ég, hali af málum á Hæstarétt. En það er staðreynd, að hún er ekki komin og það tekur tímann að koma því dómstigi á. Það verður varla við það unað, að menn þurfi að bíða árum saman eftir niðurstöðu í dómsmálum á meðan beðið er eftir lögréttu. Það tekur vissulega nokkurn tíma að koma henni á, enda hefur gengið illa hingað til að koma frv. um hana gegnum þingið. Frv. um lögréttu hefur verið lagt hér fram líklega sex sinnum áður og hefur ekki náð fram að ganga. Það lengsta sem það mál komst áfram var til 2. umr. í seinni deild. En venjulegast hefur það ekki komist lengra en fara í nefnd í fyrri deild. Það er því augljóst að menn geta ekki vikist undan því að leysa vanda Hæstaréttar, m. a. með þessum hætti, á meðan lögrétta er ekki lengra komin en raun ber vitni.

Ég vil mótmæla þeim skilningi, að með samþykkt þessa frv. séum við að leggja stein í götu þess, að lögrétta geti orðið til. Ég held að það sé alrangt. Ég vil þvert á móti staðhæfa það, að með samþykkt þessa frv. sé hv. Alþingi að viðurkenna þann vanda, sem við er að glíma, og muni í framhaldi af því koma á laggirnar lögréttu til þess að um halamyndun verði ekki framar að ræða eftir að viðbótardómarar hafa stytt hann svo sem nauðsynlegt er.