07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4908 í B-deild Alþingistíðinda. (4680)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það ákvæði til bráðabirgða í nefndum lögum, sem menn eru nú að greiða atkv. um og væntanlega að samþykkja, er mjög óvenjulegt. Þetta er ákvæði um það, að í Hæstarétti skuli starfa til tveggja ára 2–3 eins konar lausadómarar. Ég vil vekja athygli á því, að í réttarsögu Norðurlanda eru til tvö fordæmi fyrir þessu og annað þeirra er úr Noregi eftirstríðsáranna þegar mikið þótti liggja við. Hæstiréttur Íslands er ekki eins og hver önnur stofnun sem menn geta ráðskast með fram og til baka. Hann gegnir allt öðru og virðulegra hlutverki í okkar þjóðfélagi. Það hefur verið nefnt, að þetta ákvæði kunni að jaðra við það að vera stjórnarskrárbrot vegna þess að dómarar verði háðir framkvæmdavaldinu um áframhaldandi starf sitt. Þetta er mjög alvarlegt mál. Ég segi nei.