07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4909 í B-deild Alþingistíðinda. (4684)

30. mál, lyfjadreifing

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég ræddi lítillega þá málsmeðferð sem þetta mál fékk í nefnd þeirri sem því var vísað til við 2. umr. Ég tel að þó að margt sé gott og til bóta í þessu frv. séu þar tiltekin atriði, sem hefðu þurft miklu nánari athugunar við. Ég vil þó freista þess að gera eina smávægilega breytingu á 3. gr. frv., að síðasti málsl. 7. mgr. þeirrar greinar orðist svo: „Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um starfsemi slíks Háskólaapóteks að fengnum tillögum háskólaráðs.“ Viðbótartill. mín er: „að fengnum tillögum háskólaráðs.“ Þetta var ekki í upprunalegu frv. eins og það var samið af nefnd, en síðan kom inn þessi setning: „Ráðh. setur í reglugerð ákvæði um starfsemi slíks Háskólaapóteks.“

Nú skal ég taka það fram, að ég hafði sérstöðu í sambandi við Háskólaapótek hér á sínum tíma, taldi ekki ástæðu til þess og það meira af „prinsip“-ástæðum að væri verið að stofna til slíks apóteks. En þetta er orðið að veruleika og starfsemin er tekin yfir. Mér sýnist að þó að lyfjamál heyri undanbragðalaust undir heilbr.- og trmrn. og trmrh. sé óeðlilegt að um það, sem hér er um að ræða, eiganda eins og Háskóla Íslands sem heyrir alfarið undir menntmrh. og menntmrn., sé ekki leitað tillagna í sambandi við slíka reglugerð sem þessa frá háskólaráði. Þessi till. mín er engan veginn pólitísks eðlis, heldur fyrst og fremst til þess að koma á betri samvinnu þarna á milli svo ekki sé verið að stuðla að frekari ágreiningi. Ég hafði ekki tíma eða tækifæri til þess að bera þetta undir t. d. nm. í þeirri nefnd sem fjallaði um málið. Þetta er einföld breyting, sem ber auðvitað að skilja á stundinni, að bæta þessu hér við.

Ég skal ekki segja um það, hvort heilbr.- og trmrh. er meðmæltur þessu eða ekki. En þó vil ég einnig nefna ákaflega undarlegar breytingar sem gerðar voru með þessu frv. Ég tek það fram, að engin þessara breytinga, sem ég er að ræða, er pólitísks eðlis þannig að það þyrfti þess vegna að vera eitthvert bitbein á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. En það er breyting á 45. gr. frv. Þar segir, að heilbr.- og trmrh. skipi forstjóra Lyfjaverslunar ríkisins. „Skal hann vera lyfjafræðingur eða viðskiptafræðingur.“ Er þetta allt saman sjálfsagt, en síðan kemur: „Umsóknir um starf forstjóra skulu lagðar fyrir nefnd þá, sem um getur í 3. gr., og stjórn Lyfjaverslunar ríkisins, sem láta ráðh. í té umsögn um hæfni umsækjenda.“ Þetta finnst mér ákaflega undarlegt. Þar er þessi sami embættismaður á báðum stöðum. Þetta er í raun og veru óþarfi að gera og þarf ekki að gera.

Hitt er þó enn meira sem er í 44. gr., að heilbr.- og trmrh. skipar þriggja manna stjórn fyrir Lyfjaverslun ríkisins. Skal einn stjórnarmanna tilnefndur af Landssambandi sjúkrahúsa, annar tilnefndur af fjmrn., hinn þriðji skal vera lyfjamálastjóri og er hann formaður stjórnarinnar. Ég hef ekkert við þessar tilnefningar að athuga nema þá þriðju og síðustu. Hví ekki að hafa það óbundið fyrir heilbr.- og trmrh. að skipa þennan þriðja mann? Hvers vegna er í löggjöf verið að skylda ráðh. til að skipa lyfjamálastjóra og gera hann jafnframt að formanni stjórnar Lyfjaverslunar ríkisins? Lyfjamálastjóri hefur fyrst og fremst það hlutverk að fylgjast almennt með lyfjamálum. Hann á að vera hlutlaus embættismaður og fylgjast með lyfjaframleiðslu innanlands og innflutningi lyfja. Hann þarf því að hafa samskipti við alla þessa aðila, bæði þá sem fást við innflutning lyfja og eins og ekki síður þá sem framleiða lyf innanlands. En þegar sami maður er orðinn formaður í stjórn Lyfjaverslunar ríkisins er hann þar með orðinn tengdari því fyrirtæki en hinum. Þetta brýtur auðvitað í bága við eðli starfs lyfjamálastjóra. Þetta er alger horntittur að mínum dómi í þessari löggjöf. En ég hef síður en svo á móti því, að heilbr.- og trmrh. skipi þriðja manninn í þessa stjórn. Það er eiginlega ekki fyrr en farið er að lesa þessar brtt. eftir afgreiðslu málsins í Ed. sem ég fer að rifja þetta betur upp og benda á hvað er mikið ósamræmi í þessu. Ég hygg, að það sé afskaplega óeðlilegt að afgreiða þessa grein með þessum hætti. Ég flyt nú ekki till. um þetta. En samkomulag gæti orðið ef hæstv. ráðh., sem leggur áherslu á að koma þessu frv. hér í gegn, vildi taka upp sjálfur breytingu á 44. gr. sem yrði þá endirinn á þessari grein: „hinn þriðji skal skipaður af heilbr.- og trmrh. og er hann formaður stjórnarinnar“, embættisheitið lyfjamálastjóri falli niður. Ég vil í fullri vinsemd benda hæstv. heilbr.- og trmrh. á þetta og biðja hann, þó að lítill tími sé til stefnu, að hugleiða hvort hann vill ekki sjálfur verða til þess að gera þessa breytingu sem er lítil að umfangi, en skiptir þó töluverðu máli.