07.05.1982
Neðri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4911 í B-deild Alþingistíðinda. (4694)

242. mál, orlof

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., var lagt fram á sínum tíma í Nd. Alþingis, hlaut afgreiðslu hv. félmn. með þeim hætti, að fyrri grein frv. var breytt. Málið var sent til Ed. samkv. þeim reglum sem hér gilda um starfshætti. Hv. félmn. Ed. tók málið til umr. og breytti því svo að segja alveg til fyrra horfs, a. m. k. var mjög lítill munur á orðalagi frv.-textans.

Það skal tekið fram, að þrátt fyrir tilraunir hv. félmn. Nd. til að fá umsagnir nokkurra aðila um þetta mál og þá fyrst og fremst samningsaðila í kjarasamningum, þá tókst það ekki.

Þegar málið kom aftur til Nd. til einnar umr. var farið fram á frest á umr. til þess að tími gæfist til að skoða málið eilítið betur. Á fund hv. nefndar komu fulltrúar Vinnuveitendasambandsins og lýstu sínum viðhorfum, en þess skal getið, að einn nefndarmanna er hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, væntanlega nýkjörinn formaður Dagsbrúnar, verkamannafélagsins í Reykjavík, og formaður Verkamannasambands Íslands. Eftir þær umr., sem þar fóru fram, er ljóst að hér er verið að fjalla um atriði sem eru á frjálsu samningssviði aðila vinnumarkaðarins, því að um núverandi skipan, sem hefur gildi í lögum nr. 87/1971, var samið af vinnuveitendum og launþegum á sínum tíma og hefur ríkt um það samkomulag að hrófla ekki við þeirri löggjöf nema til komi sameiginlegur áhugi þessara aðila, enda er fjallað þar um viðkvæm samningsatriði.

Það er álit meiri hl. félmn. Nd., að íhlutun Alþingis í þessi mál með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í till. eins og hún kom breytt frá Ed., geti hugsanlega spillt kjarasamningum, sem nú eru á viðkvæmu stigi, og þá sérstaklega samningum t. d. við flugmenn og annað fólk sem starfar við ferðamannaþjónustu eða byggingariðnað eða aðra þá starfsemi sem sérstaklega er haldið úti yfir sumarmánuðina, þá mánuði sem fólk vill helst fá orlof.

Sú skipan, sem lagt er til að tekin verði upp samkv. frv., mundi kippa forsendunum undan sérstökum samningum t. d. um lengra orlof, en slíkir samningar hafa verið gerðir á vinnumarkaðinum að undanförnu, t. d. með tilliti til árstíðabundinna starfa. Má í því sambandi sérstaklega geta um 25% regluna sem ég veit að þeir, sem komið hafa nálægt samningum, þekkja allvel. Þar að auki er talið að hér sé um að ræða atriði sem hljóti að kosta atvinnufyrirtæki aukin útgjöld, þar sem ljóst er að ef þessi háttur verður tekinn upp, verður nauðsynlegt að loka fyrirtækjum um hásumarið því að annars mundi starfsemi sumra fyrirtækja vera með þeim hætti, að varla er verjanlegt að halda þeim úti.

Af þessum ástæðum og ýmsum öðrum hefur meiri hl. hv. félmn. lagt til í nál., sem er á þskj. 934, að frv. þetta verði ekki afgreitt á þessu þingi, heldur verði tekið út af dagskrá. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa forsendur þessarar dagskrártill., en þær eru þessar:

Frv. þetta var til meðferðar fyrr í vetur í félmn. Nd. og þá voru gerðar á því breytingar. Í Ed. var frv. aftur breytt til upprunalegs horfs og sent aftur til Nd.

Nefndinni hafa ekki borist umsagnir um málið, en fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands komu á fund nefndarinnar.

Komið hefur fram, að aðilar vinnumarkaðarins áttu aðild að samningu orlofslaganna nr. 87/1971. Engin ósk hefur komið frá þeim um að lögunum verði breytt. Kjarasamningar standa yfir milli aðila og þar eru orlofsmál m. a. á dagskrá. Samþykkt þessa frv. gæti haft óeðlileg áhrif á þá samninga. Af framangreindum ástæðum leggur meiri hl. félmn. til að málið verði nú afgreitt með rökstuddri dagskrá.

Rökstudd dagskrá okkar hljóðar svo: „Af þeim ástæðum, sem greint er frá í nál. meiri hl. félmn. Nd., telur deildin ekki rétt að afgreiða málið á þessu þingi og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir þetta rita hv. þm. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefánsson, sem er formaður nefndarinnar, hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, hv. 5. þm. Reykn., Jóhann Einvarðsson; hv. 2. þm. Suðurl. og hv. 6. þm. Suðurl., það eru þeir Steinþór Gestsson og Eggert Haukdal.