07.05.1982
Neðri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4914 í B-deild Alþingistíðinda. (4697)

242. mál, orlof

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessari umr. En þar sem hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, er fjarstaddur og var nokkuð veist að honum áðan, — hann er tepptur á fundi hjá Verkamannasambandi Íslands, — vildi ég aðeins segja hér fáein orð vegna þess að rökin fyrir afstöðu hans koma mjög glöggt fram í nál. Það er í rauninni alveg ástæðulaust að vera með neinar getsakir uppi í þeim efnum. Í nál. segir að orlofsmál séu á dagskrá í kjarasamningunum sem nú standa yfir. Það er mat þeirra aðila, sem að kjarasamningunum standa, að samþykkt af þeim toga, sem hér er gerð tillaga um, gæti orðið til þess að trufla niðurstöðu kjarasamninganna og valda þar erfiðleikum. Af þeim ástæðum er það, að menn standa að þessari rökstuddu dagskrá sem gerð er till. um hér, þ. á m. hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Ég tel að þar sem hann er beinn aðill að kjarasamningunum og stendur í þeim miðjum sjálfur sé á engan hátt óeðlilegt að hann taki afstöðu af því tagi sem hér hefur verið lýst.