07.05.1982
Neðri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4914 í B-deild Alþingistíðinda. (4698)

242. mál, orlof

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég sé nú að hv. 7. þm. Reykv. kemur hér í salinn og að sjálfsögðu getur hann tekið þátt í þessum umr. En ég vil sérstaklega mótmæla því sem kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv., að félmn. Nd. eða meiri hl. hennar væri að ganga erinda vinnuveitenda í þessu máli. Þetta er algerlega rangt og sleggjudómar sem eiga ekki að heyrast í hv. Alþingi. Þannig var að nefndin sendi þetta mál eins og önnur til hagsmunaaðila er málið varðar með skilafresti fyrir 15. apríl s. l. Því miður komu engar umsagnir þannig að málið var látið ganga í gegnum deildir án umsagna á sínum tíma. Það er eiginlega heppni að mínu mati að hv. Ed. breytti því orðalagi sem Nd. samþykkti, annars væri málið núna orðið að lögum.

Ég held að það sé rétt — með leyfi hæstv, forseta, að ég lesi hér úr lögum um orlof, 5. gr., en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnurekandi ákveður í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt. Hann skal verða við óskum launþega um, hvenær orlof skuli veitt, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Atvinnurekandi skal að könnun á vilja launþega lokinni tilkynna, svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs, hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.“

Það kom fram í þeim viðræðum, sem fulltrúar frá Vinnuveitendasambandi Íslands áttu við félmn., að það hefur aldrei orðið ósamkomulag sem neinu nemur að því er varðar þetta ákvæði. Þetta staðfesti hv. 7. þm. Reykv. á þessum fundi og taldi þess vegna að þetta mál væri óþarft. Það hafa engar kvartanir um þetta komið fram.

Ég vil aðeins undirstrika það sem fram hefur komið, ef hv. alþm. hafa ekki áttað sig á því, að einmitt þessa dagana standa yfir viðkvæmar samningaviðræður við fulltrúa flugmanna og fulltrúa í hótelþjónustu sem fjalla að vissu marki um orlofsmál og þess vegna er málið miklu viðkvæmara en á horfðist í fyrstu. Þetta eru kjarasamningamál, eins og hér hefur komið fram og kemur greinilega fram í nál., og þetta eru málefni sem aðilar vinnumarkaðarins hafa alltaf samið um sín á milli. Þar er rétti vettvangurinn. Alþingi á síðan að staðfesta niðurstöðuna.