07.05.1982
Neðri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4922 í B-deild Alþingistíðinda. (4714)

Starfslok neðri deildar

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Það er út af fyrir sig ekki óþingleg meðferð þótt mál strandi vegna tímaskorts á hinu háa Alþingi eins og þetta gerir. Dagskrá þessa fundar er nú tæmd.

Þar sem þetta er síðasti fundur í hv. deild vil ég nota tækifærið til þess að þakka hv. þdm. fyrir samveruna og samvinnuna og mikla þolinmæði mér sýnda. Að vísu hefur svo borið til hina síðustu dagana, að ég hef í stöku falli reynt um of á hana og þykir mér ógott. En við það verður þó að sitja úr því sem komið er. Ég þakka varaforsetum sérstaklega fyrir aðstoð við mig og góða samvinnu og skrifurum vorum skilgóðum sérstaklega, skrifstofustjóra og öllu starfsliði Alþingis.

Þeim, sem eiga um langan veg heim að sækja, óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið og segi að vér megum allir heilir hittast á hausti komanda.