07.05.1982
Neðri deild: 89. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4922 í B-deild Alþingistíðinda. (4715)

Starfslok neðri deildar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar þdm. þakka hæstv. forseta góðar óskir í okkar garð. Ég vil þakka honum fyrir röggsama, réttláta og skemmtilega fundarstjórn í vetur. Starf hans sem forseta deildarinnar og jafnframt sem stjórnarandstæðings hefur sannarlega ekki verið auðvelt, en að mínum dómi hefur hann leyst forsetastarfið af hendi með sérstökum ágætum og myndarskap og réttsýni.

Ég vil enn fremur færa skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis bestu þakkir okkar fyrir vel unnin störf í okkar þágu. Ég vona að þetta sumar verði hæstv. forseta og fjölskyldu hans heilladrjúgt og við fáum að hitta hann heilan og hressan hér í haust, og ég vil biðja hv. þdm. að árétta óskir mínar með því að risa úr sætum. [Deildarmenn risu úr sætum.]