07.05.1982
Sameinað þing: 90. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4924 í B-deild Alþingistíðinda. (4726)

239. mál, hafnargerð við Dyrhólaey

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Það er ekki nauðsynlegt að hafa langt mál um þessa till. svo sjálfsögð sem hún er. En að þessari till. stendur öll atvmn. sameinuð sem fyrr, og vænti ég þess, að undirtektir í hv. Alþingi verði í samræmi við það.

Það er saga þessa máls, að fimm hv. þm. lögðu fram till. hér fyrir alllöngu um hafnargerð við Dyrhólaey. Sú till. til þál. hljóðaði á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram fullnaðarrannsókn á hafnargerð við Dyrhólaey. Þær áætlanir, sem fyrir liggja, verði endurskoðaðar og notagildi hafnarinnar endurmetið, m. a. með tilliti til útflutnings á Kötluvikri í miklum mæli. Skal verki þessu hraðað svo sem verða má og lokið ekki síðar en fyrir árslok 1983.“

Þannig hljóðaði till. Sannleikurinn er sá, að atvmn. tók afskaplega vinsamlega undir þessa frómu ósk að kanna hafnargerð við Dyrhólaey, en lagði til að tillgr. yrði breytt og hún fengi annan búning. Ég vil leyfa mér að lesa brtt. eins og hún lítur út núna eftir umfjöllun atvmn., þar sem ég veit að margir hv. þm. hafa nú ekki þá röð á plöggum sínum að þeir hafi hvern einasta snepil við höndina. Ég tel rétt að lesa þetta yfir þeim, þann dóm sem hv. atvmn. kvað upp í þessu efni. Ályktunarorðin eru þessi, herra forseti. — Það væri ákaflega æskilegt ef formenn þingflokka gætu verið að braska með atkvæði einhvers staðar annars staðar en hérna inni í salnum. Þeir gætu brugðið sér á eitthvert höfuðbýlið til þess að makka saman í stað þess að vera hér. (Gripið fram í.) Ég treysti því nú lítið. Tillgr. hljóðar þá svo, herra forseti:

„Alþingi ályktar:

1. að fram fari frekari athugun á auknum lendingarbótum fyrir smábátaútgerð við Dyrhólaey.

2. að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að kannað verði hvort unnt sé á hagkvæman hátt að gera mannvirki við Dyrhóley, sem nota má til þess að skipa út Kötluvikri í stórum stíl.“

Auðvitað er í þessari till., eins og hún lítur út núna, lögð nokkuð önnur áhersla á málið heldur en gert var í hinni upprunalegu till. og þá ekki síst í þá átt að benda á þær lendingarbætur sem þegar eru við Dyrhólaey, þar sem menn geta nú — að vísu við erfiðar aðstæður — dálítið sinnt smábátaútgerð og fiskveiðum. Það var hugmynd nefndarinnar að óska eftir því, að það yrði kannað nokkuð vel hvort ekki væri unnt að bæta svolítið um þar fram yfir það sem nú er, þannig að það verði liðlegra og öruggara fyrir þá, sem sinna þessu, að stunda sjó frá þessum stað með því að auka þar skjól og bæta aðstöðuna.

En til þess að gera langt mál stutt, þá var það sjónarmið flestra nm. að allmikið hefði verið rannsakað við Dyrhólaey áður, eins og raunar kemur fram í nál., og um þær rannsóknir hafa verið gefnar út allmiklar bækur eins og tíðkast þegar mál eru könnuð í þessu þjóðfélagi, kort og mælingar af ýmsu tagi. En að dómi nefndarinnar hefur það ekki verið kannað sérstaklega með tilliti til þess mikla útflutningsmöguleika sem hugsanlegur er þarna frá Dyrhólaey og nágrenni. Það er einmitt það atriði sem atvmn. óskar eftir að verði athugað.

Herra forseti. Ég læt þá máli mínu lokið að þessu sinni, og er synd, svo maður noti guðfræðilegt hugtak, að ekki skyldi hafa verið nægilegur tími til að gera þessu máli rækilegri skil. En þar sem tími Alþingis hefur verið sóað í annað, einkum málefni annarra kjördæma, til lítils því miður oft, og Suðurlandi ekkert sinnt, þá hefði ég óskað eftir að fá að halda hér bæði langa og gagnmerka ræðu og upplýsandi fyrir það fólk sem hugsar ekki til þessa landshluta í nægilegum mæli.