11.11.1981
Efri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1982, og skal ég ekki ítreka það sem hann sagði í því sambandi. Ég vildi þó vekja athygli á því, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin fyrir árið 1982 og frv. til lánsfjárlaga byggja á þeirri meginstefnu, að fjárfestingin í landinu á næsta ári verði um 24% af þjóðarframleiðslu. Þetta er allnokkru lægri hlutfallstala en verið hefur undanfarin ár. Ég held að ég fari rétt með það, að þessi tala hafi náð upp undir 30% eða jafnvel yfir 30% þegar mest var. Ég hef ekki athugað sérstaklega hvernig þessar hlutfallstölur voru á árunum 1974–1978, þegar Sjálfstfl. hafði forustu í ríkisstj., en mér er nær að halda að sum árin hafi þessi tala verið snöggtum hærri, þá hafi verið meiri fjárfesting, meiri framkvæmdir, meiri kostnaður miðað við þjóðarframleiðslu. Mér er nær að halda að svo hafi verið. En þetta er meginstefnan og ég held að þetta sé skynsamleg stefna. Það er auðvitað fjöldamargt í þjóðfélaginu sem þarf að byggja upp, en eigi að síður verðum við að reyna að ætla okkur nokkurt hóf í þeim efnum, og ég held að það sé skynsamleg stefna af hálfu ríkisstj. að stefna á 24% markið á næsta ári.

Ég man eftir því þegar mest brakaði í hér á stjórnarárum ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og Alþfl. lagði mikla áherslu á að lækka þetta hlutfall. Þá voru menn að tala um 25% eða jafnvel 25–26%, ef ég man það rétt. Nú eru menn komnir niður í 24% sem grundvallarstefnumið á næsta ári, og held ég að það verði með engu móti talin óábyrg stefna í fjárfestingarmálum.

Það er svo annað mál, hvernig á að afla fjár til þessara framkvæmda. En þar er einnig sett fram markmið eða stefnumark af hálfu ríkisstj. í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni þar sem segir: „Stærsta viðfangsefnið í lánsfjármálum Íslendinga á næstu árum er að auka innlendan sparnað og lánsfjáröflun.“ Sjálfstæðismenn verða að gera svo vel að athuga það, að þegar þeir yfirgáfu stjórnarstólana 1978 höfðu innlán í bankakerfinu minnkað úr 40% af þjóðarframleiðslu niður í 20.5%. (ÞK: Hvað skeði þegar Framsókn fór úr ráðherrastólunum 1978?) Það hafði minnkað niður í 20.5% , að vísu ekki frá 1974, heldur frá 1970–1971 þegar Sjálfstfl. yfirgaf stjórnarstólana. (EgJ: En þegar Framsókn fór frá?) Við fórum aldrei, við sáum að það þurfti eitthvað að lagfæra þetta, svo að við héldum áfram, og skal ég nú greina frá hvernig gengið var í þau mál.

Það urðu umskipti í þessum málum með Ólafslögum. Ég held nefnilega að Ólafslög sé miklu merkilegri grundvallarlög en sjálfstæðismenn vilja vera láta, það muni koma æ betur í ljós eftir því sem tímar líða. En með Ólafslögum var sett á verðtrygging inn- og útlána, sem kunnugt er, 1979, og þá urðu þáttaskil í þessum málum. Á árinu 1980 minnir mig að þetta hlutfall hafi vaxið úr 20.5% upp í 23.8%, á þessu ári verður það sennilega 26.5% og á næsta ári 29% eftir því sem spáð er, þannig að hér horfir einmitt í þá stefnu að auka sparnaðinn í þjóðfélaginu, sparnað í bankakerfinu, sem hægt er að nota til þess að taka minna af erlendum lánum til framkvæmda heldur en ella þyrfti að gera. Þetta hefur lagast talsvert að þessu leyti til síðan sjálfstæðismenn yfirgáfu stólana, og verður erfitt fyrir sjálfstæðismenn að hrekja þessar staðreyndir að ég ætla.

Það er auðvitað langsamlega alvarlegast í þessum málum, aukinni erlendri skuldasöfnun, — ég fer ekki í neinar grafgötur með það, það er út af fyrir sig alvarlegt mál þegar fjárfestingarhlutfallið lækkar, — að á sama tíma lækkar greiðslubyrði erlendra lána hjá okkur og erlendar skuldir vaxa. Það er út af fyrir sig alvarlegt mál. Ég er ekki þar með að segja að það sé ekki forsvaranlegt og skynsamlegt að gera það. En það er eigi að síður alvarlegt mál og þarf að gefa því glöggar gætur. Auðvitað er það verðbólgan sem fyrst og seinast verkar svona á okkar hagkerfi. En ekki verður hægt að segja að t. d. aðalmálgagn Sjálfstfl. hafi uppi mikla tilburði til að krefjast þess, að verðbólgan lækki. Það segir það í leiðurum. En það segir svo á útsíðum sínum og alls staðar löðrandi í blaðinu, að það eigi að krefjast hærri launa, kaupmátturinn sé alltaf að minnka, það verði að krefjast hærri launa. Það ögrar þrýstihópunum. Það krefst meiri framkvæmda og ýtir undir þenslu í þjóðfélaginu á öllum sviðum í áróðrinum. En hins vegar er þess krafist í leiðurunum, að verðbólgan verði minnkuð. Ég geri ráð fyrir að sjálfstæðismenn almennt meini það, að þeir vilji lækka verðbólguna. Það ætla ég. En ég verð að segja það, að mér blöskrar alveg þessi málflutningur Morgunblaðsins, blöskrar hann og finnst hann yfirgengilegur, þrátt fyrir að það sé sjálfsagt'skoðun Morgunblaðsmanna að með því að auka á verðbólguna nú séu meiri líkur á því að það megi hrekja ríkisstj. frá völdum. Það má segja í því efni, að sannarlega skal mikið til mikils vinna, þ. e. að hafa tiltölulega litlar áhyggjur af því, að verðbólgan vaxi, ef hægt er að koma stjórninni frá og taka síðan við völdum.

Hv. þm. Lárus Jónsson minntist nokkuð á það, að ég hefði gert að umræðuefni við 1. umr. fjárl. stefnu ríkisstj. í verðbólgumálum. Það vildi svo vel til, þegar hann var að gera þetta að umræðuefni, að ég var einmitt að lesa yfir þessa ræðu, þannig að ég hef hana hérna og gæti lesið nokkrar línur úr henni, til þess að það fari ekkert á milli mála og það sé þá bókað bæði í Sþ. og í Ed. hvað ég sagði. Ég ætla að gera það, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fjárlagafrv. er miðað við 33% hækkun verðlags og launa milli árana 1981 og 1982, en í aths. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1982 verða settar fram horfur um verðbólgu á komandi ári“. Í þjóðhagsáætlun ríkisstj. fyrir árið 1982 segir hins vegar svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Á komandi ári mun ríkisstj. leggja höfuðáherslu á að þrýsta verðbólgunni enn verulega niður í samræmi við það meginmarkmið að koma henni svo fljótt sem kostur er niður á svipað stig og er í helstu viðskiptalöndum okkar. Ríkisstj. telur æskilegt að ná hlutfallslega svipuðum árangri á árinu 1982 og á þessu ári, en tölulegt markmið verður ákveðið þegar betri upplýsingar liggja fyrir um þróun ýmissa þátta efnahagsmála sem enn eru óljósir.“ Það er t. d. ekki alveg ljóst enn þá, hver verðbólgan verður á þessu ári. Ég ætla að hún verði í kringum 40% frá upphafi til loka árs. Ég skal ekki slá neinu föstu um verðbólgustigið í lok ársins, úr því sker auðvitað reynslan.“

Þetta er orðrétt það sem ég sagði um þessi efni (LJ: Vill ekki hæstv. ráðh. lesa 2–3 setningar í viðbót?) Það er alveg sjálfsagt að ég haldi áfram að lesa svolítið lengra í ræðunni fyrst þm. líkar vel að hlusta, en í framhaldinu segir:

„Í stefnuræðu forsrh. kom fram nákvæmlega sama efnisatriði, að á komandi ári mun ríkisstj. leggja höfuðáherslu á að þrýsta verðbólgunni niður og ná hlutfallslega svipuðum árangri og í ár. Þetta er í raun og veru sú stefna sem ríkisstj. hefur látið frá sér fara og lagt fram hér á hv. Alþingi í verðbólgumálum.

Árangri í baráttunni við verðbólguna verður að ná með samstilltu átaki í þjóðfélaginu og aðhaldssamri og sterkri efnahagsstjórn án þess að til atvinnuleysis komi eða gengið verði á kaupmátt ráðstöfunartekna. Þetta eru þau kjarnaatriði sem snerta almenna stefnu ríkisstj. í verðbólgumálum á næsta ári.“

Ég held að ég láti nú lestri mínum lokið. Þetta, sem ég hef hér lesið, var það sem ég sagði við 1. umr. fjárl. og skal ég ekki hafa fleiri orð um það, það talar sjálft sínu máli.

Hv. þm. Lárus Jónsson spurði enn fremur um það, hvort Framsfl. hefði haft fyrirvara þegar fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin var lögð fram. Ég get svarað því hreinlega að Framsfl. hafði ekki almennan fyrirvara í þessu efni, en hins vegar áskildi hann sér rétt til þess að einstök atriði yrðu athuguð sérstaklega við meðferð málsins í þinginu. Eins og kunnugt er var lánsfjáráætlun nú lögð fram miklu fyrr, mörgum mánuðum fyrr en venja hefur verið á undanförnum árum, og þess vegna er ekki óeðlilegt að hún fái nú vandlegri meðferð hér í þinginu.

Ég gerði að umræðuefni við 1. umr. um fjárlagafrv. að það gæti komið til grein að fresta vissum stórum framkvæmdum. Talaði ég þar ekki fyrir hönd Framsfl., heldur sem þm., og ég tiltók sérstaklega t. d. Kröfluvirkjun. Ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi að kanna hvort þörf sé á að bora þrjár holur við Kröfluvirkjun á næsta ári, miðað við það hvað tiltækt verður af rafmagni í landinu á næstu árum. Hins vegar er í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun gert ráð fyrir að svo verði gert. Ég álít að það sé eitt af þeim málum sem þurfi að skoða, svo að ég nefni hér dæmi.