11.11.1981
Efri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir þessu frv. til lánsfjárlaga, er það að sjálfsögðu flutt í samræmi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun svo og ákvæði í fjárlagafrv. Ég hef ekki hugsað mér að leggja sérstakar spurningar fyrir hæstv. fjmrh. né skamma hann sérstaklega, þannig að ég held að ég geti mjög auðveldlega sagt þau fáu orð, sem ég ætla að segja hér um þetta frv., þó að hann sé fjarstaddur. En mig langar til að gera hér örstuttar aths. við tvær til þrjár greinar í frv. og vil byrja á því að taka undir með hv. 2. þm. Austurl., hæstv. forseta þessarar deildar, varðandi 18. og 20. gr. um málefni Erfðafjársjóðs og Framkvæmdasjóðs þroskaheftra. Við vitum að á þessu ári fatlaðra er í mörg horn að líta varðandi málefni þessa fólks sem minna má sín í þjóðfélaginu, og við verðum að sjálfsögðu að hafa það í huga þegar við fjöllum um það fjármagn sem veita á til framkvæmda fyrir þessa aðila.

Annað, sem mig langaði til að fara örfáum orðum um, er í fyrsta lagi 15. gr. sem fjallar um Húsnæðisstofnun ríkisins og sérstaklega Byggingarsjóð ríkisins. Við vitum öll um þær breytingar sem orðið hafa í lánamálum þjóðarinnar á undanförnum misserum, það verðtryggingakerfi sem tekið hefur verið upp á lánsfé, og við vitum að það hefur hækkað allan fjármagnskostnað og veldur húsbyggjendum að sjálfsögðu miklum erfiðleikum. Þetta hefur það í för með sér, að sérstaklega á við erfiðleika að stríða það unga fólk og þeir allir sem eru að byggja eða kaupa húsnæði í fyrsta sinn, og ég held að ekki verði komist hjá því að líta sérstaklega til með þessum hópi fólks í þjóðfélaginu.

Það er okkur vel ljóst, sem ferðumst um landið og skoðum þessi mál, ræðum við fólk, að það eru víða miklir erfiðleikar. Þó að nokkuð vel hafi verið séð fyrir hluta af málefnum Húsnæðisstofnunar ríkisins, þ. e. Byggingarsjóðs verkamanna, er ljóst að þarna er orðið verulegt bil á möguleikum fólks til að komast yfir eigið húsnæði, annars vegar þess fólks, sem á möguleika á að byggja samkv. kerfi Byggingarsjóðs verkamanna eða félagslegra íbúða, og hins vegar þeirra einstaklinga, sem ekki eiga kost á húsnæði samkv. því kerfi og byggja samkv. hinu almenna kerfi Byggingarsjóðs ríkisins. Ég held að það beri að leggja áherslu á að aðstoða það fólk sem er að byggja í fyrsta skipti eða kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti og við vitum að á nú í erfiðleikum.

Önnur grein, sem mig langar til að fara örfáum orðum um, er 19. gr., sem fjallar um málefni Bjargráðasjóðs. Ég vil minna á það, að á þessu hausti gekk vetur snemma í garð, a. m. k. í sumum landshlutum, og ýmsir hafa orðið fyrir áföllum af þeim sökum. Það vill svo til að sumir þeir aðilar eru þeir sömu sem fóru verst út úr harðæri árið 1979 og fengu þá aðstoð frá Bjargráðasjóði. Þá var gripið til sérstakra aðgerða til þess að gera Bjargráðasjóði kleift að lána þeim aðilum upphæð, sem mig minnir að hafi verið til 5 ára, og nú er komið að því, að þeir þurfa að fara að standa skil á afborgunum af þeim lánum, og þess vegna alveg ljóst að þeir lenda nú í miklum vandræðum, einmitt margir sömu aðilar. Ekki er ólíklegt að síðar í vetur þurfi að koma til aðgerða Alþingis eða ríkisvalds til þess að bæta úr fyrir einmitt þessum aðilum, og þess vegna finnst mér rétt að nefna það hér og nú strax, að mér þykir ekki ólíklegt, að það þurfi að líta einmitt sérstaklega á málefni Bjargráðasjóðs.

Ýmislegt fleira mætti sjálfsagt minna á. En það er nú einu sinni svo, að þegar á að reyna að gæta aðhalds og við erum að reyna að hafa einhvern hemil á verðbólgubálinu, þá þýðir auðvitað ekki að hrópa alltaf á aukin útgjöld. Við verðum að hafa styrk og kjark til þess að standa við þá stefnu sem við erum að reyna að marka í fjárlagafrv. og í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, og ég ætla þess vegna ekki að gera fleiri aths. við þetta frv.