11.11.1981
Efri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að bæta við það sem hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur sagt. Það er greinilegt að hæstv. fjmrh. er órótt undir þessum umr. Hann sagði áðan að það væri hætta á að einhverjir færu að trúa fullyrðingum sjálfstæðismanna, sem komu fram í málflutningi hv. 3. þm. Norðurl. e. Ég skil þennan ótta hæstv. ráðh., að málflutningur sjálfstæðismanna geti haft áhrif á hans flokksmenn og hann vilji standa á verði og kannske hann vilji einnig standa á verði yfir einhverja villuráfandi framsóknarmenn sem hann telur að liggi flatir fyrir sannleiksgildi málflutnings okkar sjálfstæðismanna. Þetta skil ég. En hitt var það sem ég skil síður, að rauði þráðurinn í því, sem hann var að segja, var ekki sá, að hann væri á móti aðhaldsstefnu Sjálfstfl. í ríkisfjármálum. Nei, það var ekki það. Það var að hann framkvæmdi þessa stefnu betur en Sjálfstfl. Á venjulegu máli þeirra Alþb.-manna þýðir þetta sama sem hann segði að hann væri betra íhald en íhaldið í Sjálfstfl.

Ég held að það þurfi ekki að halda hér ræðu til að vara við því, að menn leggi trúnað á þetta. Þó að hann telji að hann hafi eitthvert íhald til að bera, þá er það alltaf gerviíhald borið saman við aðalihaldið.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að þetta sé hálfgert vandræðafrv. að því leyti að vera að bera fram frv. þar sem lagt er til að skornar séu niður tekjur ýmissa fjárfestingarsjóða. Ég er sammála hæstv. ráðh. um þetta og skil afsökunartóninn í hans ræðu þegar hann lagði málið fyrir. Hins vegar fæ ég ekki skilið hvers vegna ráðh. gerir þetta ár eftir ár, að fara þessa leið frekar en þá að bera fram frv. til þess að breyta ákvæðum um tekjuöflun hinna einstöku fjárfestingarsjóða sem hér koma við sögu.

Hæstv. forseti. Ég hefði haldið að hæstv. fjmrh. hefði gott af því að hlýða á það sem hér fer fram. (Forseti: Ég frestaði umr. áðan einmitt til þess.) Já, ég veit að hæstv. forseti er sammála mér um það. (Forseti: Ég sé, að hann er hér á milli deilda, og mun reyna að gera ráðstafanir til að ná honum inn í þessa hv. deild, því að ég þykist vita að hann eigi miklu meira erindi hér en í neðra.) Já, það vona ég að sýni sig. En einhverja tilhneigingu hefur hann til þess að fara í neðra. Kannske ég segi nokkur orð á meðan sem ekki snúa beint að hæstv. ráðh., því að ég vildi segja nokkur viðurkenningarorð um það sem hefur verið sagt í þessum umr. af hv. 2. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég sagði viðurkenningarorð, það er kannske réttara að segja: lýsa yfir samþykki mínu við þau viðhorf sem komu fram í máli beggja þessara hv. þm. þegar þeir voru að ræða um 18. gr. frv. um Erfðafjársjóð, 19. gr. frv. um Bjargráðasjóð og 20. gr. frv. um lög nr. 47/1979, um aðstoð við þroskahefta. Ég vil taka undir það sem þessir hv. þm. sögðu um mikilvægi þeirrar starfsemi sem þessir sjóðir eiga að standa undir eða styrkja. Ekki síst vil ég taka undir það sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði um 15. gr. frv., þá grein sem varðar Byggingarsjóð ríkisins. Ég tek undir allt sem hann sagði um mikilvægi þessa fjárfestingarsjós og um þær blikur sem eru á lofti um starfsemi sjóðsins og byggingarmálin almennt, eins og mér virtist liggja í orðum hans. En því miður get ég ekki tekið undir annað, vegna þess að hv. þm. sagði ekkert annað. Hann sagði ekkert um hvað hann meinti, hvort hann væri samþykkur því, sem stendur í þessari grein, eða hvort hann vildi breyta einhverju. Það var ekkert sagt um það. — En það er varðandi það mál sem mig fýsir að segja nokkur orð við hæstv. ráðh., og vil ég nú enn leita eftir því, hvort hægt muni að fá hæstv. fjmrh. hingað inn. (Forseti: Ég mun verða við því að leita eftir því að hæstv. ráðh. komi hér, því að að öðrum kosti hlýt ég að fresta þessari umr., hún verður ekki hér áfram án hans.) Ég þakka hæstv. forseta, það er greinilega rétt að umr. verður ekki án hæstv. fjmrh. (Forseti: Ég vil þá fara fram á það við hv. ræðumann, hvort við eigum að fresta umr. núna um stund, í 10 mínútur eða svo, eða hvort við eigum að fresta þessari umr. alveg, því að annaðhvort verðum við að viðhafa.) Ég legg þessi mál í hönd hæstv. forseta. (Forseti: Þá mun ég freista þess að ná hæstv. fjmrh. Hann er þegar kominn. Það vekur ánægju hv. ræðumanns og einnig mína.) Já, það er líklegt, því að það er alltaf fagnaðarefni þegar menn koma úr neðra og geta losað sig úr því sem þar er.

Ég var að víkja að 15. gr. frv., hæstv. fjmrh. Ég hafði áður sagt að ég væri sammála hæstv. fjmrh. um það, að ekki færi vel á því að bera fram frv. eins og það sem við hér ræðum, þar sem lagt er til að skerða tekjur margra fjárfestingarsjóða, heldur sé rétt, eins og hæstv. ráðh. sagði sjálfur, að bera fram sérfrv. um breytingar á lögum um hvern fjárfestingarsjóð um sig, fara þá leið. Ég skildi hæstv. ráðh. þannig, og ég er honum samþykkur í því, að það sé miklu eðlilegra og skýrara. Við vitum þá betur, um hvað við erum að fjalla, heldur en á þann veg sem málið er nú lagt fyrir. Þá vitum við hvað við erum að gera, hvað er lagt til, hvað skerðingin nemur miklu í einstökum tilfellum. Það er að sjálfsögðu höfuðatriðið. Mér þykir nú nokkuð skorta á að við getum gert okkur grein fyrir hvað 15. gr. frv. þýðir og hvað er verið að skerða.

Samkv. greininni segir að þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, sbr. lög nr. 65/1977, skuli framlög til sjóðsins ekki vera meiri en segir í greininni. Þessi ákvæði fjalla um launaskattinn, um það, að til Byggingarsjóðs skuli afla 2% af launaskatti, sem mér virðist að nemi rúmlega 220 millj. kr. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. Á að skilja þetta ákvæði þannig, að það eigi að skerða þessa upphæð úr 220 millj. og við göngum út frá því að annars verði hún 220 millj.?

En það er sagt fleira. Það er vitnað í þessari grein einnig til 2. og 3. tölul. 9. gr. laga nr. 51/1980, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Hvað er að finna í þessum töluliðum? Þar er að finna ákvæði um að til Byggingarsjóðs ríkisins skuli ganga svokölluð byggingarsjóðsgjöld, þ. e. álag á tekju- og eignarskatt og álag á aðflutningsgjöld. Þegar við erum að tala um skerðingu á þessu þykir mér að það varði nokkru að vita hvað er reiknað með, ef skerðingin fer ekki fram, að tekjur af þessum liðum nemi miklu, svo að við getum gert okkur grein fyrir hvað er verið að skerða mikið mögulegar tekjur Byggingarsjóðsins.

Það er vitnað í tvo töluliði í 9. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1980. Þetta er annar tölul. sem ég hef þegar vikið að. Hinn er um bein framlög úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs ríkisins. Hefur það einhverja þýðingu í þessum lögum að vísa til þessa töluliðar, og hvaða þýðingu hefur það?

Þetta eru spurningar sem ég vænti að hæstv. ráðh. svari. Það er eins með mig og hv. 5. þm. Norðurl. e., að mér er mikið niðri fyrir út af húsnæðismálunum og stöðunni í þeim.