11.11.1981
Efri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna spurninga hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, 4. þm. Vestf., um Húsnæðisstofnun vil ég minna á það, að við breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var numið úr lögum að tiltekinn hluti launaskatts skyldi ganga til Byggingarsjóðs ríkisins. Eitt sinn var það 2%. Nú hefur það verið numið úr lögum. Aftur á móti var sett inn í þessi sömu lög ákvæði um það, að til Byggingarsjóðs verkamanna skyldi ganga 1% af launum, í formi launaskatts. En 1% af launum mun neina á árinu 1982 111 millj. kr.

Nú kynnu menn að segja sem svo, að það væri einfaldast að hafa alls ekki 15. og 16. gr. í frv. Það er ekki neitt ákvæði í lögum um Húsnæðisstofnun sem skuldbindur okkur til að greiða ákveðna upphæð til Húsnæðisstofnunar. Það er alls ekki. Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir því í lögum, að greidd sé til Byggingarsjóðs verkamanna önnur og meiri upphæð en einmitt sú sem hér er nefnd, 111 millj. Hins vegar ber þess að gæta, að enn eru í lögum ákvæði um launaskatt frá árinu 1965 og frá árinu 1977 og þar eru þessi ákvæði um að greiða skuli tiltekinn hluta af launaskatti til Húsnæðisstofnunar. Með tilliti til þessa er rétt að hafa ákvæði af þessu tagi til að taka af allan vafa. Þetta var sem sagt í tvennum lögum, hefur verið numið alveg úr öðrum lögunum, en það þurfti að taka af öll tvímæli varðandi hin lögin. Hvort sú tilvísun sem er hér, þar sem er beinlínis vísað til 9. gr. laga um Húsnæðisstofnun, er þörf eða ekki skal ég ekki fullyrða, en ég hygg að hún eigi við vegna tilvísunarinnar í launaskattslögin.

Það, sem hefur gerst, er að í staðinn fyrir 2% gjald til Húsnæðisstofnunar, sem mundi neina 222 millj. eins og hv. þm. nefndi, er hér um að ræða annars vegar fast framlag í krónutölu, 57 millj., hins vegar fast framlag til Byggingarsjóðs verkamanna, 111 millj. Það verður auðvitað að leggja þetta tvennt saman og þá fáum við út 168 millj. 514 þús. í staðinn fyrir þessar 222 millj. sem 2% hefðu gefið. Það verður auðvitað að skoða 15. og 16. gr. í samhengi því að segja má að það hafi verið tekið 1% frá Húsnæðisstofnun ríkisins og flutt yfir til Byggingarsjóðs verkamanna. Til viðbótar er svo það, sem eftir var af framlaginu til Byggingarsjóðsins, nokkuð skert, auðvitað með hliðsjón af því, að nú eru öll lán Byggingarsjóðsins verðtryggð og það fjármagn, sem hann hefur lánað út og er að lána út, skilar sér til baka, og þá eru auðvitað viss takmörk fyrir því, hvað eðlilegt er að leggja mikið til sjóðsins af skattfé ríkissjóðs.

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til að elta ólar við það sem fram kom í ræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar og auðvitað ætti alls ekki að segja meira til að tefja ekki umr. Ég get samt ekki á mér setið að bæta þar við nokkrum orðum.

Þá vil ég fyrst segja það við hv. þm., að auðvitað erum við allir hér inni innilega sammála um að erlendar lántökur og erlendar skuldir þjóðarinnar eru alvarlegt mál. Auðvitað mundum við allir óska eftir því að þessar skuldir væru minni og þessar lántökur hefðu verið minni á liðnum árum. Það þarf ekki að flokka menn í tvo hópa í þeim efnum, að sumir telji þetta alvarlegt mál og aðrir hafi engar áhyggjur. Auðvitað höfum við allir vissar áhyggjur af þessu. En spurningin er hvort við ætlum að takmarka við okkur erlendar lántökur og skera þar með niður stórkostlega þær orkuframkvæmdir, sem við erum með í gangi, eða halda þeim áfram af þeim krafti sem þó er nú. Það þýðir ekkert að hafa uppi þá tvöfeldni sem hv. þm. er hér með sí og æ, þar sem hann annars vegar er að fárást yfir nýjum erlendum lántökum og hins vegar að heimta miklu, miklu meiri erlendar lántökur í formi aukinna orkuframkvæmda og aukinnar uppbyggingar iðjuvera í landinu. Það er þetta sem ég er að benda á. Ég er ekki aðeins að benda á tvöfeldnina í þessum málflutningi hvað þetta snertir, heldur líka mjög villandi meðferð talna þar sem hann tekur þá tölu í listanum yfir erlendar lántökur, sem honum finnst að sé hagstæðust í málflutningi og sleppir öllum hinum. Auðvitað er ekki hægt að leiðrétta þennan lista, sem ég nefndi áðan um lántökur fyrir A- og B- hluta, miðað við það, sem var í fyrra, með því einu að strika út eina tölu eins og hv. þm. nefndi áðan — mig minnir að það væri 60 millj. Auðvitað er þar um miklu stærri upphæðir að ræða. Ég nefni upphæðir sem ég man í fljótu bragði. Það er t. d. liðurinn Virkjunarrannsóknir, sem er sérstaklega ætlaður fyrir Fljótsdalsvirkjun, sem hann nefndi áðan, ef hún verður nr. 2 í röðinni, meðan aftur á móti liðurinn, sem er í frv.: Nýjar virkjanir, er þá til þeirrar virkjunar sem verður nr. 1 í röðinni. (LJ: Virkjunarrannsóknir hafa annaðhvort verið í A-hluta eða lánsfjáráætlun.) Virkjunarrannsóknir hafa yfirleitt alltaf verið annaðhvort hjá fyrirtækjum með eignaraðild ríkissjóðs, þ. e. alls ekki hjá ríkissjóði, eða þær hafa verið í B-hluta. Það er aðeins í undantekningartilviki sem það gerðist í fyrra eða hittiðfyrra, að við tókum vissa afborgun af virkjunarrannsókarláni, sem var tekið fyrir nokkrum árum, inn í A-hluta. Að öðru leyti hefur það alltaf verið í B-hluta og á þar auðvitað heima vegna þess að þetta á að skuldfærast á þá virkjun sem byggð verður. (LJ: Ég átti við það. Ég átti við B-hlutann.) Já, þetta á að skuldfærast þá. En lengst af hafa auðvitað virkjunarrannsóknir alls ekki verið í B-hlutanum, þær hafa auðvitað verið hjá Landsvirkjun sem hefur staðið fyrir öllum meiri háttar virkjunum sem hér hafa verið reistar að undanförnu.

Það eru ekki aðeins þessar upphæðir, heldur verður þá líka að lækka fjármagnskostnað byggðalínanna vegna þess að við höfum gert ráð fyrir að afla tekna til þess að greiða fjármagnskostnað byggðalína og hann er alls ekki dreginn frá í þessum lista. Hann er dreginn frá á öðrum stað, þar sem heitir Innlend lánsfjáráætlun, og kemur auðvitað þar til frádráttar. Þannig mætti telja fleira. Það er auðvitað fyrst og fremst B-hlutinn sem hækkar mjög verulega. Ástæðan fyrir því, að hann er að hækka núna þessi árin, er sú, að framkvæmdir við byggðalínur hafa stóraukist á seinni árum í fyrsta lagi og í öðru lagi að fjármagnskostnaður byggðalínanna kemur á okkur með miklum þunga, og hann er satt að segja þessi árin að koma á okkur með allóhugnanlegum þunga. Það eru framkvæmdirnar frá árunum 1975–1979 sem eru núna að dembast yfir okkur af fullum þunga. Þessar framkvæmdir voru gerðar í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og þá var ekki nokkur minnsta tilraun gerð til þess að afla tekna til að standa undir þessum kostnaði. Þá var þessu bara fleytt áfram með lánum. Það má þó heita aðeins ábyrgari fjármálapólitík sem við erum að reyna að viðhafa nú, að við ætlum að afla tekna til að standa undir fjármagnskostnaði við þessar byggðalínur og frekari framkvæmdir á því sviði og afhenda þær tekjur þeim aðila sem tekur við byggðalínunum, sem ég vænti að verði hin nýja Íslandsvirkjun eða stækkuð Landsvirkjun.

Ég vek á því athygli að á 1. síðu í lánsfjáráætluninni er sérstök áhersla lögð á þörfina á aukinni innlendri lánsfjáröflun til að draga úr erlendum lántökum. Þar er mjög varað við að haldið sé lengi áfram á þeirri braut að hlaða upp erlendum lánum í þeim mæli sem gert hefur verið á undanförnum árum. Það eru ekki bara framkvæmdir seinustu ára sem valda þessu, heldur eru það auðvitað engu að síður þau ár þegar viðskiptahallinn hefur verið hvað mestur. Við skulum athuga það, þegar við tölum um erlend lán og menn eru að tala um að við tökum svo og svo mikil erlend lán á næsta ári, að það er ekki samkv. þjóðhagsáætlun spáð viðskiptahalla á næsta ári. Það þýðir það í reynd, ef það gengur fram, að við tökum að vísu veruleg erlend lán til framkvæmda, en við söfnum upp álíka miklum gjaldeyrisforða og því nemur. Öðruvísi gæti ekki viðskiptajöfnuður staðið á núlli. Og það er þetta sem hefur gerst t. d: nú á þessu ári, að við erum með erlendar lántökur umfram afborganir af erlendum lánum upp á 1000 millj. kr. En við erum líka á þessu ári með verulega aukinn gjaldeyrissjóð, svo nemur 400–500 millj.

Þegar við skoðum erlendu lántökurnar verðum við auðvitað að skoða hvað kemur þar á móti, að við erum að stórauka okkar gjaldeyrissjóð á sama tíma. Auðvitað er talið um erlendar lántökur ákaflega villandi, og í raun og veru er aðalmálið að þjóðarbúið sé ekki rekið með viðskiptahalla. Það er stóra skuldasöfnunin á árunum 1974–1975, þegar viðskiptahallinn fór upp undir 10% af þjóðarframleiðslu, sem veldur þessari miklu skuld okkar út á við og átti mestan þátt í að ýta henni verulega upp á við. En þegar við rekum þjóðarbúið eins og við gerum þó núna, að við erum nokkurn veginn viðskiptahallalausir, erum í raun og veru að borga nokkurn veginn allar þær framkvæmdir sem eru fjármagnaðar með erlendum lánum, erum í raun og veru að borga þær á borðið með framleiðslu ársins, — það skakkar ekki þar neina litlum 0.5% þegar hallinn á viðskiptajöfnuði er ekki neina 0.5%, — þá er í raun og veru ekki mikil ástæða til að óttast framhaldið. Hins vegar erum við með miklar skuldabyrðar á herðunum og þá sérstaklega frá þeim árum þegar viðskiptahallinn var sem mestur og tekin voru mikil erlend lán til að jafna hann.

Ég vil svo bæta því við, af því að ég gleymdi því í minni fyrri ræðu áðan, að ég hef hvergi talað um hugsanlega reiknitölu. Ég hef talað um reiknitölu fjárlaga og reiknitölu lánsfjáráætlunar, en hvergi hugsanlega reiknitölu. Það er orðatiltæki sem hv. þm. verður að skrifa hjá sjálfum sér. Það er talað um reiknitölu fjárlaga og á það lögð áhersla. (LJ: Var það ekki hugsanleg hækkun verðlags?) Já, og áhersla lögð á að reiknitalan sé miðuð við hugsanlega hækkun verðlags. Staðreyndin er sú, að við höfum aldrei getað spáð því með eins árs fyrirvara, hver yrði verðbólga á komandi ári. Menn eru að tala um að það sé hálfgerð óvirðing við fjárlagafrv. að tala um að reiknitalan sé ekki verðlagsspá. En hvernig var með fjárlagafrv. Matthíasar Á. Mathiesens, fyrirrennara míns, í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar? Hvernig var með verðlagsspána í t. d. seinasta fjárlagafrv. sem hann lagði fram árið 1978? Er eitthvað minnst á það, hver verðlagsspáin sé þar? Ekki einu einasta orði. Það er ekki hægt að finna þar einu sinni neina reiknitölu, hvað þá meir. Það er bara gert ráð fyrir að um það bil sem fjárlög séu afgreidd falli niður allar vísitölugreiðslur á laun og síðan verði engar vísitölugreiðslur næsta árið og þar með ekki reiknað með ýkjamikilli verðbólgu það árið. Og hvað verðbólguspá snertir er ekki minnst á það í því frv. einu einasta orði. Sama máli gegnir um frv. Sighvats Björgvinssonar, sem hann leggur fram 1979. Þar er hvorki minnst á verðlagsspá né reiknitölu eða neitt því um líkt. Svo koma menn hér upp hver af öðrum og belgja sig út um það, að það sé stórkostlegur galli á þessu frv., að í grg. þess sé viðurkennt að það sé ekki alveg gefið mál að reiknitala fjárlaga sé nákvæm mynd af verðbólgu næsta árs. Það hefur satt að segja ekki gerst lengi að fjárlög væru í sömu mynt og ríkisreikningurinn, þ. e. raunveruleg útgjöld. Munurinn hefur alltaf verið mjög verulegur. Í fjmrh.-tíð Matthíasar Á. Mathiesens var þessi munur venjulega í kringum 20%, þannig að útgjöld og tekjur voru um 20% meiri en fjárlagatölurnar sýndu, ósköp einfaldlega vegna þess að þáv. ráðh. reiknaði ekki með ýkjamikilli verðbólgu á komandi ári í sínu fjárlagafrv. Það var lengst af alls ekki reiknað með neinni verðbólgu. Það var lengst af þannig við alla fjárlagagerð. Þetta er hins vegar alveg nýtilkomið, að farið er að gera sér einhverja grein fyrir verðbólgu á komandi fjárlagaári og setja þar fram einhverja tölu, en að menn séu að setja fram endanlega verðlagsspá sem skuli standa og allt sé nánast fallið um sjálft sig ef þessi verðlagsspá standist ekki, það er málflutningur sem hefur ekki heyrst hér í þingsölum fyrr en líklega í fyrsta sinn í fyrra, og svo núna kveður hann við í enn ríkara mæli en nokkru sinni fyrr.

Nei, það er vissulega rétt, að sú verðlagsforsenda og launaforsenda, sem við gefum okkur um verðlagsbreytingu milli áranna 1981 og 1982, 33%, er mjög óviss. Við höfum enga tryggingu fyrir því, að hún standist. Við getum ekkert um það fullyrt fyrr en t. d. að loknum væntanlegum kjarasamningum, hver verður raunveruleg verðbólga milli ára. En þetta er eins og það hefur alltaf verið og við teljum nú orðið hyggilegt að reikna þarna með ákveðinni þróun, sem sé eitthvað nálægt markinu, og þá veljum við tölu sem við teljum að sé frekar varkárt metin. En eins og ég hef þegar tekið fram, lengstum var það þannig, að það var alls ekki reiknað með neinni verðbólgu. Ef flett er upp í fjárlagafrumvörpum fyrirrennara minna er yfirleitt ekki hægt að sjá, að þar sé um neina ákveðna verðlagsspá að ræða, hvað þá reiknitölu eða hugsanlega reiknitölu, eins og hv. þm. vill láta það heita.